Sem kunnugt er þá hyggst Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, bjóða sig fram til forseta Alþýðusambands Íslands.

Ragnar fer fram í samfloti með samherjum sínum í verkalýðsrekendahreyfingunni: Þeim Sólveigu Önnu Jónsdóttir, formanns Eflingar, og Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins, sem bjóða sig fram til 2. og 3. varaforseta ASÍ. Fátt gefur tilefni til að álykta að þessi róttæka þrenning muni ekki ná algjörum undirtökum í Alþýðusambandinu að loknu þingi þess í lok október.

Fram hefur komið í umfjöllun fjölmiðla að nái Ragnar kjöri mun hann stíga til hliðar sem formaður VR en þó ekki fyrr en í mars á næsta ári. Þetta gefur einhverja vísbendingu um að Ragnar hyggist taka sér drjúgan tíma til að ljúka samningum við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd VR. En látum það liggja milli hluta. Þetta þýðir að hann mun leiða kjaraviðræður VR á sama tíma og hann gegnir forsetaembætti Alþýðusambandsins. Í augum margra er þetta mótsagnarkennt: Annars vegar að vera forseti allra félaga og landssambanda innan ASÍ og hins vegar að leiða kjaraviðræður fyrir VR sem er eins og allir vita verkalýðsfélag sæmilega vel launaðs skrifstofufólks hvers hagsmunir eiga ekki augljósa samleið með baráttu verkalýðsfélaga sem samanstanda af láglaunafólki. Það er furðulegt að fjölmiðlar hafi ekki leitað eftir útskýringum hjá Ragnari hvernig hann hyggist samhæfa þessi tvö ólíku hlutverk.

Rétt er að rifja upp að Ragnar hefur í aðdraganda kjarasamninga talað sérstaklega fyrir nauðsyn þess að verja millistéttina fyrir kaupmáttarrýrnun og lofað umbjóðendum sínum að ná því til baka því sem tapast hefur vegna vaxtahækkana Seðlabankans. Þannig má benda á að í kröfugerð VR fyrir komandi kjarasamninga er lögð áhersla að „allt launafólk fái notið jafnræðis þegar kemur að launahækkunum“. Ekki verður séð að þau aðildarsamtök ASÍ sem standa vörð um hagsmuni láglaunafólks deili þessari sýn. Það sama varðar annað í kröfugerð VR sem meðal annars felur í sér afnám verðtryggingar og styttingu vinnuvikunnar niður í 32 stundir.

Talandi um kröfugerðir: Morgunblaðið sagði frá því á þriðjudag að VM, félag vélstjóra og málm- tæknimanna, hefði lagt kröfugerð sína um önnur atriði en launaliði fyrir viðsemjendur í Samtökum atvinnulífsins í síðustu viku. Þar kemur meðal annars fram sú krafa að vinnuvikan verði stytt niður í 32 tíma. Rímar þetta við kröfugerð VR sem lögð var fram fyrir nokkrum vikum.

Þó svo að verkalýðsfélögin haldi spilunum enn þétt að sér þegar kemur að launaliðnum mættu blaðamenn hafa hugfast að lauslegur útreikningur á nærliggjandi munnþurrku sýnir að krafan um 32 stunda vinnuviku feli í sér fimmtungs hækkun launa. Það eitt og sér ætti að gefa vísbendingu um hversu raunhæfar aðrar kröfur verða og væri fróðlegt að leita svara verkalýðsforingjanna við því.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 28. september 2022.