Fjölmiðlar hafa venju samkvæmt fjallað nokkuð um starfskjör forstjóra í tengslum við birtingu ársreikninga þeirra og sett í samhengi við kjaradeilur á vinnumark­aðnum. Aðferðafræðin við þennan saman­burð hefur þó stundum verið einkennileg.

Heimildin tók fyrir laun forstjóra fimmtán skráðra félaga og sagði laun þeirra hafa hækkað um 22% á milli ára. Þegar ­betur er að gáð eru útreikningar blaðsins umdeilanlegir, sér í lagi í tilviki þeirra tveggja forstjóra sem sagðir voru launahæstir í úttektinni.

Heimildin sagði Eggert Þór Kristófersson, sem sagt var upp sem forstjóra hjá Festi síðasta sumar, hafa verið með 11,6 milljónir fyrir hvern unninn mánuð í fyrra miðað við 4,9 milljónir árið áður. Talan var fengin út með því að reikna heildarlaun Eggerts með starfslokagreiðslum og deila niður á þá sjö mánuði sem hann vann á árinu fram að starfslokunum.

Við þetta er þó ýmislegt að athuga. Lítið er hægt að fullyrða um þróunar mánaðarlauna Eggerts hjá Festi þegar ekki liggur ­fyrir hve stór hluti greiðslunnar var laun á uppsagnarfresti. Ekki var að sjá að fjölmiðillinn hefði gert tilraun til að hafa samband við fyrirtækið til að fá botn í málið svo að lesandinn væri einhverju nær.

Sé launamanni sagt upp í janúarmánuði og hann fær greiddan hefðbundinn þriggja mánaða uppsagnarfrest án kröfu um vinnuframlag er hæpið að tala um að laun hans fyrir hvern unninn mánuð fjórfaldist milli ára.

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig fjallað verður um starfslokagreiðslur til Helga Bjarnasonar, sem sagt var upp sem forstjóra VÍS 10. ­janúar. Helgi var með tæplega 70 milljónir í árslaun árið 2022, sem samsvarar um 5,8 milljónum á mánuði á síðasta ári. Fái Helgi greiddan 12 mánaða uppsagnarfrest, eins og algengt er meðal forstjóra, mætti með aðferðafræði Heimildarinnar segja að hann fengi 70 milljónir fyrir hinn unna janúarmánuð og laun hans tólffölduðust á milli ára. Það væri þó einkennileg framsetning.

Þá taldi Heimildin Ásgeir Reykfjörð, sem tók við sem forstjóri Skeljar í fyrra, hafa verið með 19 milljónir á mánuði í fyrra. Útreikningarnir byggðu á því að reikna ráðningargreiðslu sem Ásgeir fékk gegn því að skuldbinda sig til að starfa hjá félaginu næstu þrjú árin niður á þá sex mánuði sem hann starfaði hjá Skel á árinu. Sé greiðslunni deilt niður á allt þriggja ára tímabilið lækka mánaðarlaun Ásgeirs um um það bil helming. Það eru hraustleg laun á íslenskum vinnumarkaði til viðbótar við kaupréttarsamning að hlutum í Skel upp á milljarð en Ásgeir er þó ekki lengur launahæsti forstjóri Kauphallarinnar.

Með því að færa útreikninga á mánaðarlaunum Eggerts og Ásgeirs í eðlilegra form sést að launakjör forstjóra skráðra félaga hafa hækkað í takt við launavísitölu síðustu ára og fullyrðingar um launaskrið kauphallarforstjóra verða hæpnar. Enda höfðu laun flestra forstjóra skráðra félaga sem úttektin náði til lítið breyst.

Vísir tók upp útreikninga Heimildarinnar um laun forstjóra Skeljar og deildi niður á lægstu grunnlaun olíuflutningabílstjóra dótturfélagsins Skeljungs, um 400 þúsund krónur á mánuði, sem þá voru í verkfalli vegna kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Vísi láðist að nefna, eins og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins í byrjun ­febrúar, að meðallaun olíubílstjóranna í verkfalli væru ­tæpar 900 þúsund krónur á mánuði og að enginn bílstjóri væri á grunntaxta. Meðallaun bílstjóranna voru því ríflega tvöfaldur grunntaxtinn og launabilið milli forstjórans og bílstjóranna margfalt minna en fullyrt var í frétt Vísis.

Sjálfsagt er að fjalla um launakjör forstjóra og deila um hvert eðlilegt launabil í þjóðfélaginu eigi að vera, sem allar hagtölur segja að sé eitt það minnsta sem þekkist. En gera verður meiri kröfur til vinnubragða fjölmiðla í þessum efnum.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 9. mars 2023