Heimildin, öndvegissetur rannsókna í íslenskri blaðamennsku, birti hluthafalistann sinn í síðustu viku. Sem kunnugt er leit Heimildin dagsins ljós eftir að Kjarninn og Stundin ákváðu að sameinast. Hröfnunum sýnist reyndar af hluthafalistanum að dæma að um yfirtöku Stundarinnar á Kjarnanum hafi verið að ræða fremur en samruni.

Eignarhald hins sameinaða félags er dreift og enginn fer með stærri hlut en 7,6%. Í þeirra hópi eru feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson auk Ingibjargar Kjartansdóttur og Jóns Inga Stefánssonar svo einhverjir séu nefndir. Hrafnarnir sjá að fjárfestarnir Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson eru meðal hluthafa.

Fjármálageirinn er einnig með fleiri fulltrúa en Jónas Reynir Gunnarsson, forstöðumaður sjóðastýringar Kviku, á 0,7% í hinu sameinaða rannsóknarblaðamennskusetri.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.