Fyrr í vikunni náðist samkomulag milli norsku Samtaka atvinnulífsins og helstu landssamtaka verkalýðsfélaga. Samkomulagið felur í sér ramma um 2,7% hækkun meðallauna milli áranna 2020-2021.

Álíka niðurstaða náðist milli aðila vinnumarkaðarins í Svíþjóð í lok síðasta árs þegar samið var um að laun hækkuðu að meðaltali um 1,8% á ári á tímabilinu 2020-2023. Til samanburðar hækkuðu laun á Íslandi um ríflega 6% í fyrra og í febrúar síðastliðnum hækkaði launavísitalan um tæplega 11% milli ára. Á Norðurlöndunum snúast deilur um það hvort 2% launahækkanir hamli fjölgun starfa og skaði samkeppnisstöðu atvinnulífsins en á Íslandi virðast flestir telja að launahækkanir geti aldrei orðið of miklar. Á síðasta ári mældist samdráttur í landsframleiðslunni hér á landi 6,6% en samdráttur í Noregi 0,8% og í Svíþjóð 2,8%.

Næstum tveimur þriðju hlutum verðmætasköpunar í landinu er varið til greiðslu launa og tengdra gjalda. Í því ljósi er augljóst að umsamdar launahækkanir samræmast illa greiðslugetu flestra fyrirtækja. Það gefur augaleið að háu atvinnustigi verður ekki viðhaldið við slík skilyrði.

Í lok mars fengu 25 þúsund manns greiddar atvinnuleysisbætur og mældist samanlagt atvinnuleysi 12%. Atvinnulausum hefur fjölgað í öllum geirum á almennum vinnumarkaði, en fjölgunin er hlutfallslega mest í ferðaþjónustu.

Það er furðuleg staða að miklar launahækkanir eigi sér stað á sama tíma og atvinnuleysi er í methæðum og stærsta útflutningsgrein landsins í lamasessi. Við byggjum lífskjör okkar á verðmætasköpun. Sem eyland verðum við að treysta því að útflutningsgreinarnar leiði áfram vöxtinn og standi undir verðmætasköpun hagkerfisins. Velgengni okkar hvílir á því að vöxtur þeirra sé tryggður. Norrænir kollegar okkar hafa fyrir löngu síðan komið upp samskiptareglum og vinnubrögðum á vinnumarkaði sem koma í veg fyrir að útflutningsgreinum sé teflt í tvísýnu. Það hlýtur að koma að okkur líka.

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri SA.