*

fimmtudagur, 6. ágúst 2020
Huginn og muninn
1. september 2019 10:04

„Fótboltapjakkar“ og hlutabréfaverð

Fjármálastjóri Haga skafar ekki utan af því spurð um áhrif endurkaupatilkynninga á hlutabréfaverð.

Haraldur Guðjónsson

Hrafnarnir ráku upp stór augu þegar þeir lásu í vikunni lokaritgerð tveggja nemenda við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík frá því í fyrra. Í ritgerðinni sem fjallar um ástæður og áhrif endurkaupa íslenskra fyrirtækja á eigin hlutabréfum er meðal annars rætt við Guðrúnu Evu Gunnarsdóttir, fjármálastjóra Haga.

Guðrún er ekki að skafa utan af hlutunum og spurð um áhrif endurkaupatilkynninga á hlutabréfaverð segir hún: „Það virðast allir vita allt … allt pjakkar sem voru saman í skóla eða í fótbolta svo verðið gæti hafa breyst löngu áður“. Hrafnarnir fá ekki betur séð en að Guðrún sé með þessu að saka þá „fótboltapjakka” sem á markaði eru um innherjaviðskipti. Þó að íslenski markaðurinn sé vissulega grunnur og maður þekki mann þá þykir hröfnunum illa vegið að fótboltapjökkum og verðbréfaguttum þessa lands. Mögulega hefði hún betur átt að benda Fjármálaeftirlitinu á þessar áhyggjur sínar fremur en að láta þær flakka í BS ritgerð.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.