*

miðvikudagur, 20. október 2021
Óðinn
11. júlí 2017 10:39

Fræðimennska í höftum hugmyndafræðinnar

Vinstrimenn hafa sýnt það að þeir eru tilbúnir að fyrirgefa alvarleg aðferðafræðileg afglöp skoðanasystkina sinna ef afraksturinn er þeim hugnanlegur.

Hagfræðingurinn James Buchanan.

Bókin Capital in the Twenty First Century eftir Thomas Piketty var mikill hvalreki fyrir vinstrimenn um heim allan, en í bókinni þóttist Piketty hafa sannað það að ójöfn skipting gæða og auðs væri óaðskiljanlegur eiginleiki kapítalismans og að án inngripa ríkisvaldsins myndi bilið milli ríkra og fátækra að- eins breikka með skelfilegum afleiðingum fyrir lýðræðið.

***

Þrátt fyrir að aðferðafræði og ályktanir Piketty hafi verið harðlega gagnrýndar af fræðimönnum og að niðurstöður bókarinnar hafi í raun verið afsannaðar (að því marki sem það er hægt í fræðigrein eins og hagfræði), var Piketty mjög hampað af skoðanabræðrum hans hvar í heimi sem þeir voru staddir og voru kumpánarnir Jónas Kristjánsson og Stefán Ólafsson, félagsfræðiprófessor, sérstaklega hrifnir af manninum og bókinni hans.

***

Óðinn varði töluverðu plássi á þessum stað í að benda á nokkra galla við bók Piketty („Niðurstöður Piketty munu líklega ekki standast tímans tönn“, 3. júlí 2014). Þar fjallaði hann meðal annars um einfeldningslega skoðun Piketty á ríkisvaldinu. Piketty telur að svo lengi sem ríkinu er lýðræðislega stjórnað vinni það sjálfkrafa að hag borgaranna og því sé óhætt að fela ríkinu öll völd og sjálfdæmi. Hagfræðingar hafa bent á ýmsa vankanta lýðræðis, til dæmis má nefna kenningar Kenneths Arrows um að erfitt sé að ná fram raunverulegum vilja kjósenda í mörgum málum í einu í kosningum, kenningar Anthonys Downs um skynsamlega vanþekkingu kjósenda, kenningar Buchanans og Tullock um rentusókn og ríkisfjármál almennings og kenningu Mancurs Olson um neikvæð áhrif þrýstihópa á hagkerfið.

***

Illmennið Buchanan 

Nú hefur verið gefin út ný bók sem ætlað er að skjóta niður þessar kenningar, en bókinni er sérstaklega beint gegn Buchanan. Vegna þess að bókin „Democracy in Chains: The Deep History of the Radical Right’s Stealth Plan for America“, eftir Nancy MacLean, prófessor í sagnfræði við Duke háskóla, er uppfull af sams konar hatri og misskilningi á frjálshyggju og markaðshyggju og bók Piketty má ætla að þeir félagar Stefán og Jónas eigi eftir að hampa henni á næstu vikum eða mánuðum. Af þeim sökum vill Óðinn verja örlitlu plássi í að ræða bókina og vara lesendur við því að taka alvarlega það sem þar stendur.

***

Kápa bókarinnar er mjög lýsandi fyrir innihald hennar. Á kápunni má sjá þrjá gamla hvíta karla spjalla saman í reykfylltu herbergi. Kenning bókarinnar er nefnilega sú að „öfga-hægrið“ í Bandaríkjunum hafi með fjárhagslegri hjálp illa meinandi milljarðamæringa unnið að því að grafa undan lýðræðinu með það að markmiði að koma á fámennisstjórn líkri þeirri sem stýrði suðurríkinu Virginíu um miðbik síðustu aldar.

***

Milljarðamæringarnir sem um ræðir eru að sjálfsögðu bræðurnir Charles og David Koch, sem eru fyrir löngu búnir að öðlast sess sem verstu manneskjur bandarísks þjóðfélags í hugum vinstrimanna.

***

En stóri Kölski í sögu MacLean er James M. Buchanan, hagfræðingur og handhafi Nóbelsverðlaunanna í hagfræði árið 1986. Verðlaunin fékk hann fyrir vinnu sína varðandi almannavalskenninguna (e. public choice theory), en þessi kenning er hin mesta skelfing að mati MacLean.

***

Stjórnmálamenn eru líka fólk 

Almannavalskenningin er ekki flókin. Í fyrsta lagi gerir hún ráð fyrir því að aðeins einstaklingar taki ákvarðanir og að þessar ákvarðanir ráðist af hinum ýmsu hvötum. Með öðrum orðum er ekki hægt að tala um að „ríkið“, „þjóðin“, „stofnunin“ eða „fyrirtækið“ vilji hitt eða þetta, eða hafi þessa eða hina skoðunina. Þessar stofnanir geta haft áhrif á einstaklinga í samfélaginu, en það eru einstaklingarnir sem taka ákvarðanirnar.

***

Í öðru lagi gerir kenningin ráð fyrir því að stjórnmálamenn séu bara manneskjur, hvorki betri né verri en aðrir menn. Sömu hvatar og hvatir hafa áhrif á stjórnmálamenn og okkur öll. Menn verða ekki sjálfkrafa englar eða djöflar við það að taka sæti á þingi eða í ríkisstjórn.

***

Að sjálfsögðu er meira sem býr að baki almannavalskenningunni, en þetta er grunnurinn. Buchanan var að auki frjálshyggjumaður sem vildi auka veg einstaklingsfrelsis í samfélaginu með því að tryggja réttindi minnihlutans og tempra vald meirihlutans.

***

Það er þetta síðastnefnda sem fer mest fyrir brjóstið á MacLean. Hún tekur þá afstöðu að lýðræði sé hið æðsta gildi allra gilda og að allar takmarkanir á lýðræðinu séu af hinu illa.

***

Undarlegur strámaður 

Þetta er í raun það merkilegasta við bók MacLean. Þrátt fyrir að fara mjög frjálslega með sannleikann að öðru leyti (meira um það síðar) þá býr hún ekki til strámann úr Buchanan að þessu leyti. Hún segir afstöðu Buchanan til lýðræðisins vera eftirfarandi: „Lýðræði þarf að takmarka til að verja minnihlutahópa.“ Þetta er líklega eitthvað sem flestir eru tilbúnir að samþykkja. Til þess eru stjórnarskrár – að takmarka möguleika meirihlutans til að geta – í krafti löggjafarvaldsins – sett hvaða lög sem er sem bitna á minnihlutanum.

***

Michael Munger, prófessor í stjórnmálafræði við Duke háskóla, hefur ritað langa grein þar sem hann gagnrýnir bók MacLean. Nefnir hann sem dæmi að árið 2012 hafi mikill meirihluti kjósenda í Norður-Karólínu (þar sem Duke háskólinn er) samþykkt að banna hjónabönd samkynhneigðra. Munger barðist gegn lagafrumvarpinu og hann gerir ráð fyrir því að MacLean hafi verið honum sammála í þessu máli. Þarna var meirihlutinn að brjóta á réttindum minnihlutans. Hann gladdist því þegar dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að lögin í Norður Karólínu og sambærileg lög í öðrum ríkjum Bandaríkjanna brytu gegn stjórnarskrá alríkisins. Þarna var verið að takmarka lýðræðið til að vernda minnihlutann fyrir ofríki meirihlutans.

***

Samkvæmt bók MacLean var Hæstiréttur Bandaríkjanna að hefta lýðræðið og gerast þar með jafnsekur Buchanan. Þetta undirstrikar hversu galin nálgun MacLean er.

***

Það er í raun merkilegt að MacLean skuli setja fram þá skoðun að það sé rangt að setja bönd á vald meirihlutans. Slík höft á meirihlutavaldið – á lýðræðið – er kjarninn í frjálslyndu stjórnarfari. Í lýðræðisríki verð- ur að finna jafnvægi á milli réttinda einstaklinga og valds meirihlutans. Í þessu ljósi er enn undarlegra að MacLean skuli halda því fram að einstaklingur – sem hún segir að vilji „hefta lýðræðið“ – skuli jafnframt vilja grafa undan stjórnarskrá Bandaríkjanna, þegar stjórnarskráin er einmitt hönnuð til að hefta vald meirihlutans.

***

Skáldskapur en ekki fræðimennska

En brot MacLean eru alvarlegri. Snemma í bókinni er að finna formála sem ber heitið „A Quiet Deal in Dixie“. Þar segir hún frá samskiptum tveggja íhaldsmanna, forseta háskóla í suðurríkjum Bandaríkjanna og fræðimanns sem vill snúa við klukkunni í bandarísku samfélagi og koma á þvingandi stjórnarfari á bak við tjöldin. Fræðimaðurinn stingur upp á því að stofnuð verði rannsóknarstofnun, þaðan sem hugmyndir fræðimannsins geti smitað aðra hluta samfélagsins á bak við grímu akademíunnar. Markmiðið var að koma á þingandi samfélagi undir stjórn fámennrar elítu auðjöfra. Hún lætur fræðimanninn segja – í gæsalöppum – „Ég get barist gegn [lýðræðinu] … ég vil berjast gegn því.“

***

Um er að ræða meintar samræður Buchanan og forseta University of Virginia, en árið 1957 stofnuðu þeir The Jefferson Center for Studies in Political Economy and Social Philosophy. Samtalið er hins vegar hvergi að finna í neinum skjölum eða gögnum. MacLean skáldaði það upp. Munger segir þetta einkenna bókina alla. Í raun sé ekki um að ræða sagnfræðiverk, heldur sagnfræðilegan skáldskap.

***

Klippt og skorið 

Annað dæmi og enn alvarlegra en þegar MacLean fer síðar í bókinni að fjalla um þá fræðimenn sem tóku við keflinu af Buchanan eftir að hann féll frá. Þeirra á meðal er Tyler Cowen, sem stýrir stofnuninni Mercatus Center. Vitnar hún í ritgerð eftir Cowen frá árinu 2000, „Why Does Freedom Wax and Wane?“. Dregur hún upp mynd af Cowen sem manni sem vill ólmur færa Bandaríkin af braut lýðræðisins.

***

Hér er stuttur kafli úr bók MacLean í lauslegri þýðingu Óðins:

***

„Hagfræðingurinn var, að því er virðist, að semja handbók í því hvernig ætti að ráðast á laun gegn lýðræðinu. „Með því að veikja eftirlit og jafnvægi“ í bandaríska kerfinu, segir Cowen, „myndu líkur aukast á mjög góðri niðurstöðu.“ Því miður, vegna þess hve mikil virðing er borin fyrir stjórnarskrá Bandaríkjanna, væri líklegt að tilraun til að breyta kerfinu beint myndi leiða til „skelfilegra“ afleiðinga.“ 

***

Þetta hljómar ekki fallega og er skiljanlegt ef lesandinn telur að þessi Cowen hljóti að vera hinn versti þrjótur. Russ Roberts, hagfræðingur við Hoover stofnunina við Stanford háskóla, bendir hins vegar á að MacLean er þarna að taka orð Cowen úr öllu samhengi og segir hana skulda Cowen afsökunarbeiðni.

***

Hér er það sem Cowen skrifaði, aftur í lauslegri þýðingu Óðins: „Í ljósi óstöðugleika þingræðiskerfisins í Westminster, eins og fjallað var um hér að ofan, er ólíklegt að betra væri fyrir Bandaríkin að færa sig í þá átt. Þótt líkur á mjög góðri niðurstöðu myndu aukast með því að veikja eftirlit og jafnvægi, myndu líkurnar einnig aukast á mjög slæmri niðurstöðu. Þá myndi hin mikla virðing sem borin er fyrir bandarísku stjórnarskránni leiða til þess að slík breyting fæli í sér skelfilegan kostnað.“

***

Ljóst er af þessu Cowen er ekki að mæla fyrir því að veikja bandaríska kerfið. Einnig er ljóst að MacLean klippir í sundur orð Cowen til að mála hann í sem dekkstum litum.

***

Því miður er þetta einkennandi fyrir bókina í heild sinni. Vonandi mun hún falla sem fyrst í gleymskunnar dá, en vinstrimenn hafa sýnt það áður að þeir eru tilbúnir að fyrirgefa alvarleg aðferðafræðileg afglöp skoðanasystkina sinna ef afraksturinn er þeim hugnanlegur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.