*

föstudagur, 4. desember 2020
Týr
20. september 2020 19:00

Frægir í froðu

Fyrsta skrefið í þeirri vinnu væri kannski að fara rétt með staðreyndir og tala ekki við almenning í landinu eins og hann sé fífl.

Samtök skattgreiðenda létu í sér heyra í útvarpi og á samfélagsmiðlum fyrir alþingiskosningarnar 2016 og 2017. Baráttan hafði áhrif því fylgið minnkaði hjá flokkum sem töluðu fyrir skattahækkunum.

                                                          ***

Týr veitti því sérstaka athygli þá að álitsgjafar og pistlahöfundar hliðhollir þeim flokkum létu baráttu samtakanna fara í taugarnar á sér. Meðal annars voru samtökin sökuð um að fara á svig við lög um fjármál stjórnmálaflokka, þ.e. að enginn vissi hver fjármagnaði baráttu þeirra en þau væru engu að síður að taka þátt í pólitískri baráttu eða að reyna að hafa áhrif á pólitíska ákvörðunartöku.

                                                          ***

Týr hefur þó ekki orðið var við sama pirring í garð þeirra sem nú berjast fyrir því sem kallað er ný stjórnarskrá. Stjórnarskrárfélagið hefur á undanförnum mánuðum staðið fyrir langdregnustu undirskriftarsöfnun sem sögur fara af í þeim tilgangi að ná yfir 25.000 undirskriftum. Til gamans, en þó aðallega til samanburðar, söfnuðust á örfáum vikum um 65.000 undirskriftir til stuðnings veru flugvallarins í Vatnsmýri og um 56.000 undirskriftir gegn Icesavesamningunum.

                                                          ***

Eftir nokkra mánaða baráttu hefur félagið nú brugðið á það ráð að fá fræga einstaklinga til að tala af miklu yfirlæti í stuttum kynningarmyndböndum um það hversu frábær „nýja“ stjórnarskráin er. Jafnvel þó að allt þetta góða fólk leggi málefninu lið í sjálfboðastarfi þá fellur alltaf til einhver kostnaður við gerð myndbanda, hönnum vefsíða, dreifingu á samfélagsmiðlum o.s.frv. Að mati Týs er þó öllum frjálst að verja eða eyða peningum sínum í áhugamál eins og pólitíska baráttu. Góðu álitsgjafarnir hljóta á næstu dögum að krefjast þess að fá að vita hver borgar brúsann.

                                                          ***

Flest af því sem kemur fram í myndböndunum er útúrsnúningur eða villandi upplýsingar, tal um að búið sé að samþykkja nýja stjórnarskrá – og auðvitað hvað við gætum gert við alla peningana sem sjávarútvegurinn skuldar þjóðinni. Meingölluð umfjöllun Krakkafrétta RÚV um fall Berlínarmúrsins var betur unnin en þetta.

                                                          ***

Týr ætlar þó ekki að gera lítið úr umræðu um breytingar á stjórnarskrá. Henni hefur margoft verið breytt til hins betra í þverpólitískri sátt og það er engin ástæða til að ætla annað en að það sé hægt að gera aftur. Fyrsta skrefið í þeirri vinnu væri kannski að fara rétt með staðreyndir og tala ekki við almenning í landinu eins og hann sé fífl.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.