Framsóknarflokkurinn er stjórnmálaafl háleitra markmiða. Flestum er í fersku minni þegar flokkurinn boðaði fíkniefnalaust Ísland árið 2000 undir lok síðustu aldar. Hrafnarnir sjá að Einar Þorsteinsson, oddviti flokksins í borginni, og hans fólk settu mark á stjórnarsáttmála nýs meirihluta og eru þar háleit markmið í fyrirrúmi. Þannig er í sáttmálanum boðað að allt ofbeldi verði upprætt undir dyggri stjórn Dags B. Eggertssonar og Einars en það ætla þeir að gera með „taka enn stærri skref í átt að ofbeldislausri Reykjavík með því að hrinda nýrri aðgerðaáætlun gegn ofbeldi hratt í framkvæmd“.

Hrafnarnir sjá að borgarstjórnarflokkur Framsóknar er nú þegar farinn að bregðast ákalli kjósenda sinna um breytingar í stað innantóms orðagjálfurs. Þess sjást skýr merki í sáttmálanum sem meðal annars kveður á um að Reykjavík verði „aldursvæn borg“ og styrkingu „rekjanleika ákvarðana og með samþættu og bættu aðgengi að þeim gögnum sem er að finna í gagnagrunnum.“

Huginn og Muninn er skoðanadálkur en þessi birtist í Viðskiptablaðinu 9. júní 2022.