*

föstudagur, 28. janúar 2022
Anna Hrefna Ingimundard.
24. desember 2021 13:03

Framtaksleysi í fjárlögum

Ósjálfbær útgjaldavöxtur í tilfærslukerfum hins opinbera, þ.e. bótakerfum, hefur rutt fjárfestingu og viðhaldi frá.

Eyþór Árnason

Við erum um margt í góðri stöðu. Áhersla á skuldalækkun og ábyrgð í opinberum fjármálum skilaði hóflegu skuldahlutfalli við upphaf faraldursins. Lög um opinber fjármál stuðluðu að trúverðugleika sem áður hafði skort í íslenskum ríkisfjármálum. Það traust endurspeglaðist í bættu lánshæfismati og betri lánakjörum sem skiptu sköpum þegar mikil lánsfjárþörf raungerðist. 

Þó að efnahagurinn sé að þróast til betri vegar en á horfðist reynir enn á lögin og stefnumörkunina. Gert er ráð fyrir töluvert betri afkomu en áður. Þó stefnir áfram í hallarekstur og skuldasöfnun til næstu fimm ára hið minnsta. Ný fjármálastefna nýrrar ríkisstjórnar frestar enn frekar að tekið sé á ójafnvæginu sem myndast hefur í opinberum fjármálum og var reyndar þegar tekið að myndast áður en faraldurinn skall á. Ný fjárlög og stefna bera með sér að alfarið er treyst á aukinn kraft atvinnulífsins til að bæta stöðu ríkisfjármála á komandi árum. 

Bjartsýnar áætlanir hafa slæm áhrif á afkomu 

Það er rétt metið að íslensk fyrirtæki muni gera sitt þegar kemur að verðmætasköpun næstu ára. En það mun ekki duga til. Bjartsýnar efnahagsáætlanir eru iðulega notaðar sem réttlæting fyrir auknum útgjöldum eða frestun á nauðsynlegum hagræðingaraðgerðum. Sagan sýnir að hagvexti er oftar en ekki ofspáð í opinberri áætlanagerð. Tregða er til að uppfæra áætlanir í takt við nýjan veruleika – ef hann er verri en gert var ráð fyrir. Niðurstaða umfram væntingar leiðir hins vegar gjarnan til aukinna útgjalda í stað ráðdeildar. Afleiðingin er ítrekaður hallarekstur og skuldasöfnun, þekkt vandamál í opinberum fjármálum víða um heim. 

Þetta vitum við. Af hverju er þessi skekkja þá ekki innbyggð í áætlanagerðina? Varfærni ætti að birtast með skýrari hætti í stefnumótun um opinber fjármál enda eitt af grunngildum laganna. Þó nú séu bornar á borð sviðsmyndir, sem sýna næmni ríkisfjármálanna við mismunandi efnahagsþróun, þyrfti að tilgreina viðbragð við þeim sviðsmyndum sem bornar eru upp. Sviðsmyndir hafa enga þýðingu nema til að móta viðbragðsáætlanir. 

Stefna til meðallangs og langs tíma ætti að ná utan um aðstæður aðrar en hagfelldar jafnvægisaðstæður. Þróun opinberra fjármála þarf að taka mið af því að áföll geta dunið yfir, sem þau gera reglulega. Jafnvel þó gert sé ráð fyrir spegilsléttum sjó í efnahagslífinu næstu fimm árin mun samt sem áður reynast erfitt að ná viðmiðum laga um afkomu og skuldir, sem ætlað er að taki gildi aftur þegar næsta ríkisstjórn tekur við. Hvað gerum við ef önnur alvarleg ágjöf verður? 

Vandi ríkisrekstrar er sá að hann er jafnan í járnum þó enginn heimsfaraldur ríki, né efnahagsleg áföll af öðru tagi. Stærsti vandinn felst í því hversu erfitt reynist að hemja útgjaldavöxt hins opinbera við eðlilegar kringumstæður. 

Gæði ríkisútgjalda skipta máli 

Á undanförnum árum hefur orðið gífurlegur vöxtur í tilfærslukerfum hins opinbera, þ.e. bótakerfum. Þessi ósjálfbæri útgjaldavöxtur í málaflokknum hefur rutt fjárfestingu og viðhaldi frá. Fjárfesting verður að rúmast innan opinbers rekstrar svo byggja megi upp mikilvæga innviði sem leggja grunn að verðmætasköpun framtíðar og tækifærum komandi kynslóða. Opinber útgjöld hafa ekki verið hagvaxtarhvetjandi á umliðnum árum, en ráðgerður bati í ríkisfjármálunum veltur þó alfarið á því að hér verði sterkur hagvöxtur. Þetta felur í sér ákveðna mótsögn. 

Þegar tímabili fjármálastefnu sleppir taka aðrar áskoranir við. Þjóðin er að eldast. Því fylgir að hlutfallslega færra fólk verður á vinnufærum aldri og skatttekjur munu skerðast til samræmis. Á sama tíma munu heilbrigðisútgjöld aukast hraðar en hagvöxtur og taka til sín sístækkandi hluta ríkisútgjalda. 

Öldrun þjóðar mun reynast stór áskorun þó hún eigi sér stað með seigfljótandi hætti. Skýrsla um langtímahorfur í opinberum fjármálum, sem kom nýlega út í fyrsta sinn, veitir okkur innsýn inn í þróun opinberra kerfa í samhengi við lýðfræðilega þróun og hagvaxtargetu. Samkvæmt grunnsviðsmynd hennar mun heildarafkoma hins opinbera ekki uppfylla afkomuskilyrði laga um opinber fjármál. 

Viðbrögð óskast

Þessi vitneskja knýr á um viðbrögð. Hlutverk stjórnmálanna er að móta stefnu sem hefur áhrif á feril opinberra fjármála. Stefnuna þarf að rökstyðja ítarlega og forgangsröðun þarf að vera skýr. Viðbrögð eru hins vegar vandfundin í nýrri stefnu eða fjárlögum stjórnvalda. Í ljósi sögunnar má telja áætlanir um kröftugan hagvöxt og hóflegan útgjaldavöxt bjartsýnar. 

Við erum um margt í góðri stöðu. En ef fram fer sem horfir er ekki gefið að svo verði áfram. Ungt fólk hefur þegar borið skarðan hlut frá borði í faraldrinum. Ótækt væri að skrifa reikninginn á þennan hóp um leið og við eftirlátum honum þær áskoranir sem öldrun þjóðarinnar mun hafa í för með sér. Við verðum að bregðast við.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.