Um miðjan mars á þessu ári tók ég við starfi bankastjóra Landsbankans og er þar með komin heim eftir nær tveggja áratuga nám og starf erlendis. Það er ómetanlegt að fá að kynnast íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum um land allt og skilja hvaða þátt bankinn getur átt í þeirri uppbyggingu og framþróun sem á sér stað í þjóðfélaginu.

Það hefur verið ánægjulegt að sjá hversu mikil alþjóðavæðing hefur orðið í öllum fyrirtækjarekstri hérlendis. Við sjáum bæði framleiðslu og sölu erlendis á vegum íslenskra fyrirtækja sem og þjónustu sem veitt er út fyrir landsteinana, líkt og ferðaþjónustan sem keppir ávallt á alþjóðamörkuðum. Sagan sýnir okkur að hver einasta vel heppnaða frumraun hefur margfeldisáhrif og skapar þekkingu og reynslu til fleiri ára.

Bankastarfsemi hefur tekið stakkaskiptum síðustu ár og undanfarið hefur mikið verið rætt um stærð og endurskipulagningu bankakerfisins. Staðreyndin er sú að bankakerfið er í gríðarlegri endurskipulagningu og á næstu árum mun bankaþjónusta gjörbreytast frá því sem var fyrir nokkrum árum. Það er einnig mikilvægt að huga að fjárhagslegri endurskipulagningu, með losun á eignarhaldi og áframhaldandi arðgreiðslum, en Landsbankinn hefur nú þegar greitt 107 milljarða í arð á undanförnum árum.

Árið 2017 var viðburðaríkt í rekstri Landsbankans. Einna hæst bar að bankinn, í samvinnu við Reiknistofu bankanna, tók í nóvember í notkun nýtt innlána- og greiðslukerfi, fyrstur íslenskra banka. Verkefnið var umfangsmikið og telst örugglega til stærri hugbúnaðarverkefna sem ráðist hefur verið í hér á landi. Löngu var orðið tímabært að endurnýja gömlu grunnkerfin sem voru orðin allt að 40 ára gömul. Í tengslum við yfirfærsluna urðu nokkrar truflanir á þjónustu bankans.

Viðskiptavinir okkar tóku röskunum af mikilli þolinmæði og skilningi og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir, sem og samstarfsaðilum og kollegum okkar í öðrum bönkum, því uppfærslan hafði áhrif á allt greiðslukerfi landsins. Það hefur ekki farið eins hátt að þessi innleiðing var sú fyrsta í veröldinni sem gerð er á rauntíma.

Endurskipulagning bankakerfisins og þróun snýst samt um meira en rauntímakerfi og hraða, hún snýst líka um skilvirkni og hagnýtingu upplýsinga. Skilvirkni næst með því að sjálfvirknivæða alla ferla. Þetta þýðir að vinna sem var framkvæmd handvirkt með því að leita í kerfum, prenta út, skrifa undir og endurtaka, mun heyra sögunni til.

Þetta er ekki bara til aukinna þæginda fyrir viðskiptavini heldur sparast mörg handtök innan bankakerfisins. Þetta er augljós framþróun en vinnan við umbreytinguna er yfirgripsmikil og tekur tíma. Annar lykilþáttur er hagnýting upplýsinga, sem verður að haga þannig að viðskiptavinurinn njóti sem mest hagræðis og ráðgjöf sé viðeigandi.

Á nýju ári tekur gildi ný löggjöf um vernd persónuupplýsinga. Með henni er einstaklingum gefið aukið vald yfir því hvernig upplýsingar þeirra eru nýttar. Það er mikilvægt fyrir hvern og einn að taka upplýsta ákvörðun og við í Landsbankanum teljum að það muni skipta fólk máli hvar þeirra upplýsingar eru geymdar og að viðskiptavinir skilji í hvaða tilgangi gögn eru unnin. Af þeirri ástæðu leggjum við mikla áherslu á öryggismál, gagnsæi og gagnavernd.

Það sem þó er mest skrifað um eru breytingar í kjölfar nýrra laga um greiðsluþjónustu. Lögin marka kaflaskil í því hvernig fólk og fyrirtæki geta framkvæmt dagleg bankaviðskipti. Breytingin felst til dæmis í því að allir bankar munu veita óhindrað aðgengi að ákveðnum upplýsingum, gegn samþykki reikningseiganda. Þar geta skapast mörg tækifæri fyrir bankana sem geta boðið upp á enn fjölbreyttari þjónustu.

Samtímis er mannauður bankanna að taka breytingum. Sérhæfð tækni og skapandi þróun verða hryggjarstykkið í bankastarfsemi og samhliða því verður enn meiri áhersla lögð á þjónustu, fræðslu og ráðgjöf.

Landsbankinn stendur vel að vígi fyrir næstu ár. Við byggjum á traustum grunni, höfum áratuga reynslu af persónulegri þjónustu og skiljum okkar hlutverk sem leiðandi þjónustufyrirtæki. Við sjáum mörg tækifæri framundan og munum áfram vinna ötullega að framþróun bankakerfisins.

Fyrir hönd Landsbankans óska ég lesendum öllum gleðilegs árs, heilla og farsældar á komandi tímum.

Höfundur er bankastjóri Landsbankans.

Skoðunargreinin birtist í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .