*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Leiðari
11. desember 2020 12:09

Framtíð fríverslunar

Alþjóðleg fríverslun á undir högg að sækja á Vesturlöndum þessa dagana, en hefur fengið liðsinni úr óvæntri átt.

Kwai Tsing skipahöfnin í Hong Kong er sú áttunda veltumesta í heimi. Allar hafnir ofar á listanum eru í asíu, og fimm þeirra í Kína.
epa

Þann 15. nóvember síðastliðinn undirrituðu 15 lönd í Asíu og Eyjaálfu fríverslunarsamning sín á milli, sem gengur undir nafninu RCEP, og bjuggu þar með til stærsta fríverslunarsvæði heims.

Auk aðildarríkjanna 15 hafði Indland lengst af verið þátttakandi í viðræðunum, en dró sig úr þeim í lok síðasta árs. Ástæðan var sögð áhyggjur af áhrifum aukinnar erlendrar samkeppni á litla innlenda framleiðendur, en fáum duldist að þar lá einnig að baki spenna út af nýlegum útistöðum og versnandi samskiptum við Kína. Indverjum stendur þó til boða að gerast aðili að samningnum síðar meir.

Samningurinn er ekki sagður munu hafa stórvægileg áhrif á hag svæðisins í náinni framtíð. Tollar, sem voru þegar afar lágir, lækka örlítið meira og tollareglur og flokkar verða samræmd og einfölduð. Áætlað er að samanlögð landsframleiðsla svæðisins verði 0,4% hærri en ella að áratug liðnum vegna samningsins.

En samningurinn er ekki síður pólitískur en efnahagslegur. Auk tíu Suðaustur-Asíulanda eru Ástralía, Nýja-Sjáland, Suður-Kórea, Japan og Kína aðilar að RCEP, sem tók hátt í áratug að semja. Niðurstaðan er álitin mikill sigur fyrir Kína, sem með henni hefur tekist að styrkja ítök sín á svæðinu, og þar með áhrif sín um allan heim.

Samhliða viðræðum um RCEP höfðu lengi staðið yfir viðræður um fríverslunarsamning meðal Kyrrahafsríkja undir nafninu TPP, sem til stóð að Bandaríkin yrðu aðilar að. Eitt af fyrstu embættisverkum fráfarandi forseta, Donalds Trump, var hins vegar að draga landið út úr þeim viðræðum og þar með voru örlög TPP ráðin.

Á sama tíma og helsti málsvari fríverslunar og alþjóðavæðingar svo lengi sem elstu menn muna, Bandaríkin, draga sig í hlé og horfa inn á við, er forseti síðasta vígis kommúnismans, Kína, nú farinn að tala fjálglega um sig og þjóð sína sem verndara fríverslunar gegn lýðskrumsöflum nær og fjær, sem vinni gegn henni.

Þótt Trump hafi tapað kosningunum í síðasta mánuði, og arftaki hans sé ögn jákvæðari gagnvart alþjóðaviðskiptum, hefur hann gefið út að hann muni fara hægt í gerð nýrra fríverslunarsamninga. Annað væri enda ávísun á enn meira ósætti meðal samlanda hans, sem kusu Trump þrátt fyrir allt í tugmilljóna tali, meðal annars vegna afstöðu hans til alþjóðavæðingarinnar.

Hinum megin við Atlantshafið stendur áralöng útganga Bretlands úr Evrópusambandinu enn yfir, og ef ekki nást samningar á næstu vikum lýkur henni um áramótin án samnings. Íslensk yfirvöld hafa blessunarlega tryggt óbreytt tollkjör verði það niðurstaðan, en Íslendingar búsettir í Bretlandi munu að óbreyttu þurfa að sækja um landvistarleyfi eða eiga á hættu að vera vísað úr landi, og það sama gildir um nemendur þar í landi sem ekki hafa enn flust utan vegna faraldursins.

Fríverslun og alþjóðasamstarf eru svo vitanlega mikilvæg fyrir fleiri en íslenska tilvonandi nemendur í Bretlandi. Á tveimur áratugum frá lokum kalda stríðsins, þegar hið svokallaða Wash-ingtonsamkomulag var við lýði og alþjóðavæðingin í hávegum höfð, helmingaðist sárafátækt í heiminum úr 36% mannkyns í 18%, fimm árum fyrr en lagt hafði verið upp með, og hlýtur það að teljast söguleg stund fyrir alþjóðastofnanir og yfirvöld hvers konar, að markmið náist ekki bara samkvæmt áætlun, heldur fyrir áætlun.

Á meðan Kína tekur við kyndli alþjóðaviðskipta af Bandaríkjunum og Evrópuþjóðir bítast um skilmála þeirra og torvelda viðskipti hver við aðra – meira að segja þjóð jafn háð alþjóðaviðskiptum og Íslendingar hvetur nú samborgara sína til að versla frekar við innlenda aðila – hefur Afríkubandalagið samið um stofnun 54 ríkja fríverslunarsvæðis. Svæðið mun að vísu aðeins standa undir tæpum 3% heimsframleiðslunnar sín á milli, og ná yfir um 16% mannkyns, auk þess að samningurinn tekur ekki að fullu gildi fyrr en eftir áratug, þó að ferlið hefjist strax nú um áramótin.

Það er því ólíklegt að Afríka verði miðpunktur alþjóðaviðskipta eða Kína taki forystu á sviði alþjóðasamvinnu á næstunni, en hver veit – ef þróunin heldur áfram og Trump og hans stuðningsmenn fá sínu fram – nema Vesturlönd verði einn daginn farin að framleiða ódýr raftæki, föt, leikföng og annað fyrir þekkingariðnað núverandi þróunarlanda.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.