*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Leiðari
7. maí 2020 13:04

Framtíð Icelandair

Icelandair þarf að svara grundvallarspurningum áður en hægt er að ætlast til að lífeyrissjóðirnir og ríkið leggi því til frekara fé.

Haraldur Guðjónsson

Icelandair vinnur að því að afla sér aukins fjármagns til að lifa af á meðan flugumferð liggur að mestu niðri. Alls er óvíst hvenær samgöngur milli landa verða með þeim hætti sem við máttum venjast fyrir heimsfaraldurinn. Icelandair stefnir á að fara í 200 milljóna dollara, tæplega 30 milljarða króna, almennt hlutafjárútboð en markaðsvirði Icelandair er sem stendur 9 milljarðar króna. Þá hefur félagið fengið vilyrði frá stjórnvöldum fyrir tugmilljarða láni eða ríkisábyrgð.

Líkast til eru það að mestu lífeyrissjóðir í núverandi hluthafahópi Icelandair sem koma til greina sem fjárfestar í útboðinu.

Félagið þarf að svara grundvallarspurningum áður en hægt er að ætlast til að lífeyrissjóðirnir og ríkið leggi því til frekara fé. Í kreppum hefur það oft gerst að tjón af misheppnuðum björgunaraðgerðum verður meira en af efnahagsáfallinu sjálfu.

Reynslan úr bankahruninu ætti að vera víti til varnaðar. Gjaldeyrisvaraforðinn var lánaður Kaupþingi og litlu mátti muna að lífeyrissjóðirnir hefðu einnig lagt erlendar eignir sínar til að bjarga bönkunum sem féllu svo nokkrum dögum síðar.

Meðal þess sem lífeyrissjóðirnir hafa gert kröfu um er að Icelandair hafi gengið frá langtíma kjarasamningum við helstu stéttarfélög flugfólks, að niðurstaða sé komin í mál félagsins gagnvart Boeing um 737 MAX flugvélarnar og skýr áætlun liggi fyrir um hvernig félagið ætli að lifa af á meðan lítið sem ekkert er flogið. Vonandi halda sjóðirnir í þessar kröfur en fara ekki að leggja Icelandair til fé á öðrum en skýrum viðskiptalegum forsendum.

Líklega mun þó enginn geta svarað því með nokkurri vissu í júní hvort félagið verði arðbært þegar flugsamgöngur hefjast fyrir alvöru á ný. Óvissuþættirnir eru enn of margir.

Réttilega hefur verið bent á að verðmæti séu fólgin í vörumerkinu, viðskiptasamböndum, þekkingu og tengslaneti sem byggst hefur upp innan Icelandair — sem og lendingartímum, flugvélum og öðrum eignum. Þau verðmæti eru þó ekki óþrjótandi. Þekking og viðskiptasambönd eru til að mynda að miklu leyti bundin við starfsfólkið en ekki félagið.

Ef ekki er hægt að sýna fram á að fjárfestar og ríkið fái það fé sem þeir leggja til Icelandair til baka hlýtur annar kostur að koma alvarlega til álita. Að stofnað verði nýtt flugfélag sem er ekki með sama fortíðarvanda á bakinu. Þó að flugsamgöngur séu Íslendingum nauðsynlegar er ekki þar með sagt að núverandi kennitala Icelandair sé það.

Stjórnvöld þurfa einnig að hafa í huga hvernig þau tóku á málum þegar Wow air óskaði ríkisstuðnings. „Þó flugið væri mikilvægt mátum við það svo að ekki væri rétt að stíga inn í. Þar hef ég ekki skipt um skoðun og það myndi líka gilda fyrir Icelandair ef sú staða kæmi upp,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við Viðskiptablaðið, í ágúst. Þótt margt hafi gerst síðan stendur eftir að hluthafar og lánveitendur tóku áhættu af fjárfestingu í Icelandair og nutu góðs af því á meðan vel gekk.

Ríkið þarf að einnig að huga vel að því hvaða áhrif stuðningur við Icelandair hefur á samkeppnisaðilana. Þó að mörg erlend flugfélög sjái fram á ríkisstuðning þá gerir Icelandair fleira en að sinna millilandaflugi. Félagið á enn 25% í Icelandair Hotels og rekur fraktflutningafélagið Icelandair Cargo, ferðaskrifstofurnar Iceland Travel og Vita, Loftleiðir, sem einbeitir sér einkum að útleigu flugvéla erlendis og innanlandsflugfélagið Air Iceland Connect.

Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis, bendir á í Viðskiptablaðinu í dag að samkeppnisaðilinn Air Iceland Connect nýtur þess að vera innan samstæðu Icelandair. Icelandair fær að óbreyttu milljarða ríkisstuðning við greiðslur launa á uppsagnarfresti. Á meðan uppfyllir Ernir ekki skilyrði ríkisaðstoðar um laun á uppsagnarfresti þrátt fyrir verulegt tekjufall.

Stjórnvöld þurfa að geta svarað Herði og öðrum þeim sem eru í samkeppni við Icelandair á ýmsum sviðum hvers vegna leggja á Icelandair til fé en þeim ekki.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.