Rafræn undirskrift er ferlið þegar notast er við stafrænar aðferðir til að undirrita skjöl. Tæknin er sífellt að verða vinsælli valkostur fyrirtækja hérlendis, en hún býður upp á marga kosti umfram hefðbundnar undirskriftir.

Notkun rafrænna undirskrifta hefur vaxið hratt á Íslandi og er innleiðingin til marks um skuldbindingu landsins til að bæta skilvirkni, ­öryggi og þægindi í skjalavinnslu. Með áframhaldandi vexti og þróun tækninnar er líklegt að rafrænar undirskriftir muni halda áfram að vaxa og dafna. Það eru margar tækniframfarir sem gætu haft áhrif á rafrænar undirskriftir í náinni framtíð – við skulum skoða nokkur dæmi sem geta mótað framtíðina.

Gervigreind

Ein helsta tækniframför nútímans er innleiðing gervigreindar í ýmsa tækni. Gervigreindir eru forritaðar til að læra af reynslu, leysa vandamál og framkvæma verkefni sem venjulega krefjast mannlegra inngripa. Gervigreind er þegar byrjuð að breyta lífi okkar með því að því að gera ýmsa ferla einfaldari og skilvirkari – og rafrænar undirskriftir ættu ekki að vera undantekning.

Einn mögulegur ábati gervi­greindar í rafrænni undirskriftartækni er sjálfvirk skjalagerð. Með gervigreind væri hægt að búa til skjöl sjálfkrafa og fylla þau með gögnum frá öðrum ­aðilum, sem myndi draga úr þörf ­fyrir handvirkan innslátt gagna og auka skilvirkni rafræna undirskriftar­ferlisins. Þannig gæti gervigreind útrýmt mannlegum mistökum við skjalagerð og auðveldað ferlið.

Uppgötvun svika og persónustilling

Gervigreind er vinsælt tól til að greina svik og falsanir. Tæknin getur greint rafræna undirskriftar­ferlið og uppgötvað hugsanleg svik, svo sem falsaðar undirskriftir eða hagræðingu á skjölum. Með því að greina svik áður en þau verða stærra vandamál getur gervigreind hjálpað til við að tryggja öryggi rafrænna undirskrifta og takmarkað skaða.

Það er hægt að bæta notendaupplifun með því að skapa persónulegt undirritunarferli. Gervigreind gæti greint þarfir og óskir undirritara til að benda á bestu undirskriftarmöguleikana fyrir þá, til dæmis öryggisstig undirskriftar með tilliti til gerðar skjalsins. Þetta gæti hjálpað til við að gera rafræna undirskriftar­ferlið þægilegra og notendavænna – og þannig bætt innleiðingu hjá ­hópum sem kunna lítið á tæknina.

Bálkakeðjutækni

Ein umtalaðasta tækniframför nútímans er svokallaðar bálkakeðjur (e. blockchain). Tæknin er oft sam­ofin rafmyntum, en bálkakeðjur eru nýttar í mun víðara samhengi. Líkja má bálkakeðju við opinbera minnisbók sem allir geta séð og bætt við, en enginn getur breytt því sem þegar hefur verið skrifað niður.

Í hvert skipti sem einhver vill bæta við upplýsingum verða þær að vera samþykktar af öllum öðrum aðilum. Þannig vita allir hvað er að gerast og geta fylgst með upplýsingum. Bálkakeðjur eru dreifstýrðar, sem þýðir að enginn einstaklingur eða fyrirtæki er í forsvari. Allir hafa aðgang að upplýsingunum, sem gerir það nánast ómögulegt að þær glatist eða einhver geti falsað þær.

Örugg skjalavarsla og aukið gagnsæi

Með bálkakeðjutækni í rafrænum undirskriftum er hægt að auka öruggi og gagnsæi skjalahalds. Þar sem bálkakeðjur bjóða ekki upp á breytingar á skráðum upplýsingum er ekki hægt að eiga við skjöl eftir að þau hafa verið undirrituð. Þar sem allir aðilar sem taka þátt í rafræna undirskriftarferlinu geta séð viðskiptasöguna og sannreynt áreiðanleika undirskrifta myndi það draga úr hættu á svikum og bæta öryggi þeirra. Vissulega er ekki hægt að eiga við skjöl og breyta þeim eftir að það hefur verið undirritað með rafrænni undirskrift – en þar sem tækni er sífellt að þróast er mikilvægt að hafa augun á því hvernig hægt sé að fyrirbyggja framtíðaráhættu.

Augljósasti ávinningur sýndarveruleika er bætt notendaupplifun.

Bálkakeðjur geta staðfest og geymt rafrænar undirskriftir í samræmi við reglur iðnaðarins (GDPR og eIDAS). Með auknu gagnsæi er auðveldara fyrir eftirlitsaðila að fylgjast með að allir staðlar og lög séu uppfyllt. Sömuleiðis er hægt að geyma og sannreyna rafrænar undirskriftir á stöðluðu sniði – þar sem allir hlutaðeigendur hafa aðgang að sama gagnasafni – sem auðveldar mismunandi kerfum og hugbúnaði að tala saman. Þetta gæti aukið skilvirkni og dregið úr þörf fyrir handvirka verkferla.

Sýndarveruleiki

Sýndarveruleiki hefur möguleika á að breyta því hvernig við höfum samskipti við tækni og framkvæmum verkefni í ýmsum atvinnu­greinum.

Stærstu tæknifyrirtæki heims keppast við að leggja fjármagn í þessa tækni, þar sem þau sjá fyrir sér vinnustað framtíðarinnar. Rafrænar undirskriftir gætu notið góðs af þessum framförum líka.

Augljósasti ávinningur sýndarveruleika er bætt notendaupplifun. Tæknin getur veitt undirritendum yfirgripsmeiri og gagnvirkari upplifun, sem gerir þeim kleift að skoða og undirrita skjöl í sýndarumhverfi. Þetta getur gert rafræna undirskriftarferlið notendavænna ­fyrir fólk sem er illa við að skrifa undir rafrænt.

Aukið öryggi og betri skilningur á gögnum

Sýndarveruleiki getur búið til öruggt umhverfi fyrir undirritendur, þar sem aðeins auðkenndir aðilar hafa aðgang að fundum. Undirritendur geta svo skoðað og undirritað skjöl í þessu umhverfi – til dæmis í auðkenndri skrifstofu Sýslumanns – sem gæti dregið úr hættu á svikum og bætt öryggistilfinningu notenda.

Tæknin gæti eflt rafrænar undirskriftir með því að veita notendum betri skilning á skjölunum sem þeir undirrita. Með sýndarveruleika geta notendur skoðað og notað skjöl í sýndarumhverfi, sem gerir það auðveldara að skilja flókna samninga og dregur úr hættu á misskilningi við undirritun.

Rafræn undirskriftartækni hefur vaxið á undanförnum árum og mun halda áfram að þróast og stækka í komandi framtíð. Þrátt fyrir að rafrænar undirskriftir séu gríðarlega öruggar og hentugar í dag getur samþætting gervigreindar, bálkakeðjutækni og sýndarveruleika gert þær enn öruggari, þægilegri og skilvirkari. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig tækninýjungar þróast á komandi árum og hvernig þær samþættast núverandi tækni.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 2. mars 2023.