Nokkur umræða hefur spunnist undanfarið um stöðu sparisjóðakerfisins, ekki síst vegna „fjandsamlegra yfirtaka stórbankanna“ nýlega. Vegna vinnu minnar hef ég haft nokkra innsýn í stöðu þessara sjóða og fylgist því með af áhuga.

Nú virðist allt í einu sem innlendir og jafnvel erlendir aðilar telji að íslenskir sparisjóðir séu góður fjárfestingarkostur en hafi bara ekkert fengið að kaupa vegna ofríkis bankanna. Þessi mikli og að því er virðist skyndilegi áhugi kemur að vissu leyti á óvart því í nokkrum nýlegum söluferlum sparisjóða - m.a. salan á Sparisjóði Svarfdæla, söluferli Sparisjóðs Norðfjarðar og opinberu söluferli Arion Banka á Afli „hinu fyrra“ – fer litlum sögum af miklum áhuga.

Ástæður þess að fjárfestar hafi ekki keypt sparisjóð eða sett í þá fjármuni undanfarið hafa m.a. verið nefndar (i) ofríki bankanna stóru og (ii) að staða sjóðanna hafi verið verri en tilefni hafi verið til að trúa í fyrstu. Megum við þá ekki eiga von á að þessir áhugasömu aðilar stofni bara nýja sparisjóði? Það er hægt. Hvað ætli það sé langt síðan nýr sparisjóður var stofnaður á Íslandi? Gefur það vísbendingu um hvort rekstrarformið sé í takt við tímann ef ekki hefur verið stofnaður sparisjóður lengi?

Flestir eru sammála um að tryggja þurfi samkeppni á fjármálamarkaði, hvar stóru bankarnir þrír hafa nú yfirburðastöðu. Ég er þeirrar skoðunar enda hef ég starfað hjá litlu verðbréfafyrirtæki alla mína tíð. En verður samkeppni á fjármálamarkaði best tryggð með því að endurlífga sparisjóðina?

Í þessu samhengi má benda á að eiginfjárgrunnur sparisjóðanna í lok árs 2014 var innan við 0,5% af eiginfjárgrunni bankakerfisins. Reyndar hefur verið erfitt að treysta tölum um eigið fé þeirra undanfarið en líklega má að minnsta kosti líta á stöðuna í lok síðasta árs sem efri mörk á eigin fé þeirra. Erfitt er að sjá að svo agnarsmáir (og hratt minnkandi) sparisjóðir veiti nokkrum raunverulega samkeppni.

Á sama tíma og ráðamenn tala um að auka samkeppni á fjármálamarkaði auka þeir stórkostlega kröfur til þeirra sem stunda fjármálastarfsemi. Á það bæði við um alla rekstrarumgjörð og fjárhagslegan styrk, svo ekki sé talað um nýja og hækkaða skatta. Ráðamönnum á Íslandi til varnar þá er þetta alþjóðleg þróun eftir síðustu fjármálakrísu. Niðurstaðan um allan heim virðist því miður vera sú að bankar verða færri og stærri.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna segir: „Athugun rannsóknarnefndarinnar á kjarnarekstri sparisjóðanna sýnir að tap hefur verið á honum samfellt frá árinu 1999 fyrir sparisjóðina í heild. Löggjafinn getur haft áhrif á þann kostnað sem fylgir rekstri sparisjóðs því undir hann falla meðal annars ýmsir skattar og gjöld og kostnaður við eftirlit með fjármálastarfsemi.“

Nú rúmi ári eftir að skýrslan var kynnt fyrir alþingismönnum segir Össur Skarphéðinsson í ræðu sinni á Alþingi nú í Júní: „Það er einfaldlega staðreynd að sparisjóðakerfið er nánast fallið á vakt hæstvirts fjármálaráðherra. Það er staðreynd að undir forsæti hæstvirts forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem hefur nú marga sparisjóði í sínu kjördæmi, eru sparisjóðirnir í reynd að falla þessa dagana.“ (i) Af lestri áðurnefndar skýrslu að dæma er morgunljóst að sparisjóðakerfið hefur ekki haft rekstrargrundvöll í næstum tvo áratugi hið minnsta og (ii) hvað kemur kjördæmi Sigmundar Davíðs þessu máli við?

En ráðamenn hafa ekki tekið þessari góðfúslegu ábendingu rannsóknarnefndarinnar um kostnað við regluverk og eftirlit. Þvert á móti. Á okkar litla landi ganga ráðamenn jafnvel enn lengra en kollegar þeirra í Evrópu. Ekki nóg með að í flestum tilvikum sé svigrúm sem gefið er í tilskipunum Evrópusambandsins til reglusetninga nýtt til fulls þá er bætt við sér íslenskum íþyngjandi reglum sem ganga enn lengra en sá rammi sem embættismenn í Brussel smíða. Svo skilur enginn neitt í því að „stórbankar“ séu hér ráðandi og séu allt of dýrir í rekstri.

Við þurfum að móta framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á þeim grunni að þjónusta við almenning og fyrirtæki verði sem allra best og veitt á þeirra forsendum. Ekki á forsendum stórbanka, bankamanna eða kröfuhafa. Í stað þess að bísnast yfir löngu orðnum örlögum sparisjóðakerfisins ættu ráðamenn þjóðarinnar að nota dýrmætan tíma sinn í hið raunverulega verkefni sem er að skapa hér heppilega umgjörð fyrir fjölbreyttara fjármálakerfi. Fjármálakerfi þar sem jafnvel „smábankar“ þrífast innan um „stórbankana“.