*

laugardagur, 11. júlí 2020
Ingvaldur Thor Einarsson
12. ágúst 2019 10:01

Framtíðarbókhald

„Áhugi minn á bókhaldi snýst um vinnslu upplýsinga og notkun þeirra við ákvarðanatöku.“

Ég tilheyri minnihlutahóp. Hvorki af erfðafræðilegum né trúarlegum ástæðum. Heldur vegna djúpstæðs áhuga á bókhaldi og reikningsskilum. Áratugareynsla af atvinnurekstri hefur kennt mér að meirihluti atvinnurekenda sér bókhald sem kvöð, kvöl og pínu. Þeir sömu núa saman lófum af einskærri eftirvæntingu. Eftirvæntingu um að bókhaldið færi sig sjálft og vinnuhelgar þar sem virðisaukaskattskýrslur og ársreikningar hafa verið skrúfaðir saman verði senn fríhelgar.

Sjálfvirknivæðing bókhalds 

Áhugi minn á bókhaldi hverfist þó ekki um að handleika fylgiskjöl á fornúmeruðum pappírseyðublöðum. Ekki heldur um að apa þær upplýsingar sem þau geyma inn í bókhaldskerfi með hjálp lyklaborðs. Og allra síst um að munda gatarann og raða í möppur eftir kúnstarinnar reglum. Þetta er einföld endurtekin vinna sem nútímatækni getur leyst af hólmi. Þannig verða færri innsláttarmistök og við spörum tíma, pappír og póstburðargjöld.

Upplýsingar eru lykillinn 

Áhugi minn á bókhaldi snýst um vinnslu upplýsinga og notkun þeirra við ákvarðanatöku. Þar sem bókhald er fært í rauntíma fáum við mælaborð fyrir reksturinn. Við getum séð hvernig þróun tekna og kostnaðar þróast. Stigið á bremsurnar eða bensíngjöfina, eftir því hvernig árar. Við höfum í hendi okkar upplýsingar um hvaða vörur eða þjónusta skila okkur mestri framlegð, hvaða viðskiptavinir skipta okkur mestu máli. Frumkvöðlar sem ná árangri eru með þessar upplýsingar á takteinum og byggja sínar ákvarðanir á þeim.

Tækniumhverfið er til staðar 

Tæknin sem knýr þessar breytingar fram er til staðar og ekki lengur aðeins á færi stórfyrirtækja með ótakmörkuð fjárráð. Bókhaldskerfi í skýinu sem byggja á nýjustu tækni eru ásamt rafrænum samskiptum grundvöllur framfara. Í vegi fyrir framförum stendur svo er úrelt laga- og reglugerðabákn. Hér á landi eru gerðar eru kröfur um að frumgögn á pappír séu geymd eftir kúnstarinnar reglum í allt að sjö ár. Að rangar færslur séu leiðréttar með nýjum færslum í stað þess að þeim sé eytt og byrjað aftur með hreint blað. Hér erum við eftirbátar nágrannalanda okkar.

Í skýrslu IMD um stafræna samkeppnishæfni ríkja er Íslandi skipað í 21. sætið á meðan önnur Norðurlönd raða sér í þau sjö efstu. Þessi skýrsla er ákall til íslenskra atvinnurekenda um að fjárfesta í framtíðinni. Og ákall til íslenskra stjórnvalda um að greiða götuna með því að færa laga- og reglugerðaumhverfi til nútíðar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Uniconta á Íslandi

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.