Hrafnarnir fylgjast grannt með störfum framtíðarnefndar Alþingis og hafa gaman af. Mikill kraftur hefur verið í starfi nefndarinnar frá því í haust. Þannig var strax á fyrsta fundi nefndarinnar þetta starfsár ákveðið að senda fulltrúa nefndarinnar ásamt nefndarritara á heimsþing framtíðarnefnda þjóðþinga sem haldið var í Helsinki síðastliðinn október. Einnig var rætt um að þiggja boð framtíðarnefndar þingsins í Litháen á ráðstefnuna The Future of the World. Hrafnarnir telja að nefndarstarfið á Alþingi sé farið taka á sig mynd ferðaskrifstofu frekar en málefnastarfs.

Ljóst er að Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir formaður nefndarinnar ætlar ekki að láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Þar með er ekki sagt að starf framtíðarnefndarinnar snúist eingöngu um ferðalög. Þannig fékk nefndin til sín Berg Ebba Benediktsson uppistandara til að rabba um framtíðina á fundi sínum í desember og þá hefur nefndin oftar en einu sinni fjallað um hugveitur og sviðsmyndagreiningar án þess þó að það sé útskýrt frekar í fundargerðum.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 2. mars 2023.