*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Einar K. Guðfinnsson
4. mars 2018 10:29

Framtíðin er í fiskeldinu

Það blasir líka við öllum sem kynna sér málin, að meginvöxturinn til framtíðar, hér á landi líkt og annars staðar, er í sjókvíaeldi.

Haraldur Guðjónsson

Viðskiptablaðið greindi nýverið frá því að tvö fyrirtæki í Bandaríkjunum, þar af annað norskt, hygðust reisa tvær stórar landeldisstöðvar, til framleiðslu á laxi. Þetta eru sannarlega jákvæð tíðindi. Laxeldi er atvinnugrein sem hefur verið í stöðugum vexti undanfarin ár og heildarframleiðslan í heiminum nemur núna um 2,5 milljónum tonna. Þessar tvær stöðvar sem Viðskiptablaðið greinir okkur frá munu framleiða um 53 þúsund tonn að sögn blaðsins. Það er álíka framleiðslumagn og áhættumat Hafrannsóknastofnunarinnar gerir ráð fyrir að framleiða megi á Vestfjörðum einum, án neikvæðra áhrifa á umhverfið, þar með talið villta laxastofna.

Vöxturinn í heiminum hefur komið úr sjókvíaeldi

Sá vöxtur sem orðið hefur í laxeldi í heiminum hefur að langmestu leyti verið í laxeldi í sjókvíum. Það hefur augljóslega ekki komið til af einhverri tilviljun. Þar hafa ráðið hagkvæmnis- og umhverfisrök, enda er eldi fiska í sjó í senn umhverfisvæn og fjárhagslega arðbær leið til að búa til prótein og svara þannig mikilli og stöðugt vaxandi fæðuþörf mannkyns. Og hvað laxinn varðar sérstaklega eru aðstæður í sjókvíum hagfelldar fyrir velferð hans og vöxt við sem náttúrulegastar aðstæður.

Hæg uppbygging

Á Íslandi hefur fiskeldi byggst upp afar hægt á síðustu árum. Gera má ráð fyrir að á næstu árum muni fiskeldið halda áfram að vaxa hægt og bítandi. Reynslan sýnir að undirbúningstími er langur og drjúgan tíma tekur að fá leyfi til fiskeldis. Gildir það bæði um fiskeldi í sjó sem og á landi. Nær undantekningarlaust nemur það mörgum árum frá því að hafist er handa við að fá leyfi og þar til þau fást og gildir það bæði um landeldi og sjókvíaeldi. Eins og kunnugt er, krefst fiskeldi mikillar fjárbindingar, enda líður langur tími (allt að 5 árum) frá því að leyfi fást og fyrstu krónurnar fara að streyma í kassann.

Landeldi er umtalsverður hluti fiskeldis á Íslandi

Þó að mesti vöxturinn í fiskeldi hér, líkt og annars staðar, hafi verið á sviði sjókvíaeldis, er ljóst að landeldi er umtalsverður hluti fiskeldisframleiðslunnar á Íslandi. Þessi þáttur fiskeldis okkar hefur farið vaxandi og verður svo á þessu ári og komandi árum, gangi áform fyrirtækjanna eftir.

Næststærsta fyrirtækið innan vébanda Landssambands fiskeldisstöðva, bæði hvað varðar veltu og framleiðslumagn, er Íslandsbleikja, dótturfyrirtæki Samherja. Ánægjulegt er að nefna, að Íslandsbleikja opnaði í lok október sl. með formlegum hætti, nýja stækkun við eldisstöð sína að Stað í Grindavík. Um er að ræða 8 ný eldisker, samtals 16.000 rúmmetrar, sem bætast við 28.000 rúmmetra eldisrými sem þegar er á svæðinu. Af þessu tilefni kom fram að liðnir voru áratugir síðan byggð voru svipuð mannvirki á landi til bleikjueldis. Það er einnig vert að vekja athygli á því að Íslandsbleikja er stærsti framleiðandi á bleikju í heiminum og framleiðir tæp 3.000 tonn af þessari eftirsóttu hágæða afurð árlega. Með þessari nýju eldiseiningu er áætlað að auka heildarframleiðslu á bleikju um 25% á ári þegar öll kerin verða komin í fulla framleiðslu. Fyrir liggur að Íslendingar eru hvað bleikjuna áhrærir, leiðandi á markaðnum á heimsvísu. Hér á landi eru allmörg fyrirtæki sem framleiða bleikju með miklum sóma og sinna bæði innanlandsmarkaði og erlendum mörkuð- um af miklum krafti.

Meginvöxturinn verður á laxeldi í sjó

Af þessu má sjá að fiskeldi í landstöðvum skipar hér veglegan sess og sannarlega eru margvísleg tækifæri á því sviði hérlendis og einnig erlendis, eins og frétt Viðskiptablaðsins minnir á. Hitt er þó einnig jafn ljóst að meginvöxturinn í fiskeldi – ekki síst laxeldi – verður í sjókvíum. Það er eðlilegt að við Íslendingar séum þátttakendur í þeirri uppbyggingu, enda er „laxeldið komið til að vera“ hér á landi, líkt og umhverfisráðherrann okkar komst svo vel að orði nú nýverið. En það blasir líka við öllum sem kynna sér málin, að meginvöxturinn til framtíðar, hér á landi líkt og annars staðar, er í sjókvíaeldi, rétt eins og þjóðirnar við Norður-Atlantshaf hafa komist að raun um.

Höfundur er formaður Landssambands fiskeldisstöðva.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.