*

fimmtudagur, 6. ágúst 2020
Hildur Ösp Gylfadóttir
16. apríl 2019 12:12

Framtíðin kemur – verum tilbúin

Nýsköpun er ekki bara eitthvað til að hampa á tyllidögum heldur nauðsynleg ef við ætlum ekki að sitja eftir.

Aðsend mynd

Vinnuveitandinn íslenska ríkið, hér eftir nefndur VÍR, er langtum stærsti vinnuveitandinn á Íslandi. Í krafti stærðar sinnar hefur VÍR einstök tækifæri til að vera í fararbroddi í mannauðsmálum og hafa þannig marktæk áhrif á líðan stórs hluta þjóðarinnar sem og samkeppnishæfni hennar. Að sama skapi gæti aðgerðarleysi af hálfu VÍR í þróun mannauðsmála orðið samfélaginu dýrkeypt.

Samkeppnishæfni

Aðilar á vinnumarkaði berjast um öflugasta starfsfólkið. Fæstar ríkisstofnanir hafa verið samkeppnishæfar í launum við sterkustu einkafyrirtækin en hafa þess í stað reynt að draga fram aðra áhrifaþætti sem umsækjendur setja inn í jöfnuna sína við ákvarðanatöku t.d. sveigjanleika, starfsöryggi, starfsþróunarmöguleika, orlofs- og veikindarétt og framlag í lífeyrissjóð. Samkeppnin er, og mun í auknum mæli verða alþjóðleg.

Hins vegar má færa rök fyrir því að samkeppnisstaða VÍR fari versnandi og geti orðið að miklum vanda nema lagabreytingar, kröftug stefnumótun og fjárfestingar í mannauðstengdri upplýsingatækni komi til.

Kíkt fyrir hornið

Vinnumarkaðurinn hefur tekið hröðum breytingum og því er spáð að á næstu árum verði framþróun og breytingar í veldisvexti. Meðal þeirra breytinga sem eru hafnar eða spáð er fyrir um er aukin sjálfvirknivæðing starfa og að til verða ný störf sem við eigum erfitt með að gera okkur í hugarlund í dag hver verða. Starfsmenn munu starfa skemur á hverjum vinnustað og gera meiri kröfur um að standa ekki í flóknu umsóknarferli. Þá munu verkefnabundnar ráðningar aukast verulega auk þess sem hlutfall vinnutíma þar sem starfsmenn eru í húsnæði vinnustaðarins verður mun minna. Að auki metur starfsfólk frítíma sinn sífellt meira og vekur það ekki lengur aðdáun að mæta fyrstur og hætta síðastur. Með kynslóðarskiptum koma ávallt nýjar áskoranir sem við þurfum að vera tilbúin að mæta. Það getur t.d. verið þörf fyrir meiri endurgjöf en nú þekkist, breytt samskiptamynstur og fjölbreyttara tækniumhverfi.

Hættan

Áskoranirnar eru því fjölþættar og spurningin er hvort VÍR sé tilbúið til að takast á við þær?

Víkjum að hluta þeirra og byrjum á byrjuninni, ráðningarferlinu. Ef spár framtíðarfræðinga ganga eftir þá verða umsækjendur ekki tilbúnir að leggja mikla vinnu í skráningu umsókna og vilja að starfsumsóknir séu lagðar fram með einföldum hætti. Slíkt fyrirkomulag fer illa saman við þær kröfur sem eru hjá VÍR um að rannsaka og meta gögn umsækjenda á faglegan hátt, sinna rannsóknarskyldu ef upplýsingar vantar og geta rökstutt öll skref og ákvarðanir í ferlinu. Því er hætta á að eftirsóknarverðir umsækjendur muni hreinlega ekki nenna að sækja um hjá VÍR. Annar vandi er hversu tímafrekt ráðningaferlið er hjá VÍR. Vísbendingar eru um að eftirsóknarverðasta starfsfólkið hafi skipt um vinnu um 10 dögum eftir að það ákvað að það vilji skipta um vinnu en vart er raunhæft að ráðningarferill hjá VÍR taki minna en mánuð, og þá er vel haldið á spöðunum.

Starfsmenn munu skipta oftar um störf. Það þýðir hærri starfsmannaveltu sem þýðir að vinnan við ráðningarferlið mun aukast til muna. Ráðningaferlið er tímafrekt í dag enda ein mikilvægasta ákvörðun stofnana og vanda þarf til verka. Gera má því ráð fyrir að það fari aukinn tími í það í framtíðinni sem og að skilgreina verkefni, semja og setja árangursmælikvarða vegna verkefnaráðninga. Það er því mikilvægt að VÍR sé tilbúið að mæta þeim áskorunum og hefji af krafti undirbúning með stefnumótun, hönnun verkfæra og nauðsynlegum lagabreytingum. Nýsköpun þarf að eiga sér stað til að hraða ferlum, hanna þarf fyrirkomulag sem gerir VÍR kleift að meta á hraðan en öruggan hátt mikilvæga þætti hjá umsækjendum s.s. samskiptahæfni, drifni, og frumkvöðlahugsun. Nýsköpun er ekki bara eitthvað til að hampa á tyllidögum heldur nauðsynleg ef við ætlum ekki að sitja eftir.

Höfundur er sviðsstjóri hjá Fiskistofu og situr í stjórn Félags mannauðsstjóra hjá ríkisstofnunum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.