*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Ásta Sigríður Fjeldsted
26. nóvember 2018 13:57

Frelsi og fjötrar

Ásta Fjeldsted veltir því fyrir sér hvort almennt ríki nægur skilningur á mikilvægi frjálsra viðskipta og fólksflutninga.

Ásta nefnir meðal annars að hún hafi kynnst fólki víðsvegar að frá Evrópu í gegn um skiptinámskerfi Evrópusambandsins: Erasmus.
Haraldur Jónasson

Þeir sem ekki hafa þekkt annað en frelsi eiga erfitt með ímynda sér heim fjötra og hindrana. Þó ég hafi verið 12 ára þegar EES-samningurinn tók gildi og muni því ekki tímana tvenna, óttast ég tilhugsunina um að einhverjir trúi því að hagsmunum smáríkis eins og Íslands sé betur borgið utan þessa samnings. Hvað hefði orðið um skólagöngu mína í Danmörku eða Erasmus-félaga minna víðsvegar um Evrópu? Eða um alþjóðlegu íslensku fyrirtækin sem starfa á meginlandinu og alþjóðleg fyrirtæki sem hér starfa, ef landamæri Evrópulanda væru hindranir fjölbreyttrar starfsemi þeirra.

Í ár eru 100 ár frá því Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Íslendingar gengu formlega í samfélag þjóðanna og um leið hófst samleið með vestrænum ríkjum sem búa við frelsi, lýðræði og frjálst hagkerfi. Í ár eru jafnframt 26 ár frá undirritun umfangsmesta og mikilvægasta viðskipta- og samstarfssamnings sem íslenska lýðveldið hefur gert – EES-samningsins. Þegar hann tók gildi árið 1994 stækkaði heimamarkaður okkar úr 265 þúsund manns í 350 milljónir, og í 500 milljónir með síðari stækkun Evrópusambandsins. Við urðum fullgildir aðilar að innri markaði ESB – stærsta fríverslunarmarkaði heims – og viðskiptaumhverfi okkar varð loksins sambærilegt við það sem þekktist á meginlandi Vestur-Evrópu.

Sjálfstæðishetja þjóðarinnar, Jón Sigurðsson, sagði: „Frelsið er ekki í því að lifa einn sér og eiga ekki viðskipti við neinn [...], ekkert frelsi sem snertir mannfélagið kemur fram nema í viðskiptum og þau eru því nauðsynleg til frelsis.“ Í ljósi ummæla ýmissa í umræðum dagsins velti ég því fyrir mér hvort almennt ríki nægur skilningur á mikilvægi frjálsra þjónustuviðskipta, vöruviðskipta, fjármagnsviðskipta og fólksflutninga. Ég leyfi mér a.m.k. að efast um að sjálfstæðishetjan myndi taka þátt í að fórna fjórfrelsinu á altari æsings og upphrópana yfir þriðja orkupakkanum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.