*

þriðjudagur, 21. september 2021
Týr
11. október 2020 16:05

Frelsið er forgangsmál

Hluti af auglýsingarherferð ríkisfélagsins felur í sér að hvetja viðskiptavini til að koma fyrri hluta dagsins til að fækka smitleiðum.

ÁTVR er eina fyrirtækið sem fær að auglýsa áfengi með óbeinum hætti óáreitt.
Haraldur Guðjónsson

Vínbúðin, eins og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur fengið að markaðssetja sig, auglýsir nú grimmt í öllum helstu miðlum landsins. Hluti af auglýsingarherferð ríkisfélagsins felur í sér að hvetja viðskiptavini til að koma fyrri hluta dagsins, þá er minna að gera og þannig hægt að fækka smitleiðum. Öllu jafna væri þetta ekki eitthvað sem Týr hefði sterka skoðun á, nema fyrir þær sakir að öðrum söluaðilum áfengis, sem er lögleg vara, er meinað að auglýsa vörur sínar. Auðvitað hafa menn um árabil sneitt framhjá þessu ákvæði laganna með ýmsum krókaleiðum en ÁTVR er eina fyrirtækið sem fær að auglýsa áfengi með óbeinum hætti óáreitt.

                                                          ***

Hér á landi gilda mun strangari lög en í flestum nágrannaríkjum okkar hvað aðgengi að áfengi varðar. Umræðan um vín í búðir hefur staðið yfir lengi án niðurstöðu, veitingamönnum er bannað að afhenta óopnað áfengi yfir borðið (t.d. í heimsendingu á mat), brugghúsin mega ekki selja öðrum áfengi en þeim sem hafa vínveitingaleyfi og innlendum aðilum er bannað að starfrækja netverslanir. Reyndar getur Týr pantað sér áfengi í gegnum erlendar netverslanir eins og honum sýnist, sem hann fær síðan sent heim að dyrum. Hann getur meira að segja eftir tilvikum pantað frá íslenskum framleiðendum, en fyrst þarf að sigla framleiðslunni til útlanda og svo aftur heim til Íslands.

                                                          ***

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur nú kynnt frumvarp sem heimilar mönnum að stíga lítil skref í átt að auknu frjálsræði í verslun með áfengi, t.d. að starfrækja netverslun. Er þetta nú forgangsmál?, kynni einhver að spyrja eins og alltaf þegar hin svokölluðu frelsismál eru til umræðu. Líklega er þetta ekki forgangsmál hjá ríkisstjórninni, því miður. Það ætti þó að vera það enda myndi aflétting þessara gamaldags reglna létta undir með veitingastöðum, sem nú berjast í bökkum, og brugghúsum sem skapa störf víða um land. Að mati Týs mætti ganga enn lengra og leyfa íslenskum fjölmiðlum að auglýsa áfengi, sem er lögleg neysluvara. Þannig væri hægt að renna styrkari stoðum undir tekjuöflun einkarekinna fjölmiðla sem nú þiggja flestir stuðning frá ríkisvaldinu sem bannar þeim að birta áfengisauglýsingar.

                                                          ***

Týr deilir ekki áhyggjum forsjárhyggjumanna í þessu máli, ekki frekar en fyrir 30 árum þegar bjórinn var leyfður. Hann deilir þó áhyggjum þeirra sem sífellt þurfa að sætta sig við það að frelsismálin fari aftast í röðina.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.