Íslenska landsliðið í knattspyrnu lék æfingarleik við Sádi Araba síðastliðin sunnudag. Knattspyrnusambandið var gagnrýnt í fjölmiðlum í aðdraganda leiksins fyrir að hafa þekkst til boð Sádana um að leika þar. Sem kunnugt er leikur Sádi Arabía á HM í Katar og var leikurinn við Ísland hluti að undirbúningi Sádana fyrir lokamótið sem hefst í þessum mánuði.

Gagnrýnin á hendur KSÍ fólst í því að ótækt væri að sýna Sádunum þá virðingu að leika við þá æfingarleik vegna stöðu mannréttindamála þar í landi og harðstjórnar Múhameðs bin Salman krónprins. Um hörmulega stöðu mannréttindamála og ógeðfellds stjórnarfars í Sádi Arabíu verður ekki deilt. En að sama skapi má velta fyrir sér hversu sanngjörn gagnrýnin á KSÍ er. Fjölmiðlar hefðu til að mynda mátt fjalla um hvaða landslið hafi leikið æfingarleiki við Sádana á liðnum árum. Ákvörðun KSÍ verður til að mynda skiljanlegri þegar haft er í huga að Sádarnir hafa leikið við landslið Spánar, Bandaríkjanna, Póllands, Japans og Suður Kóreu svo dæmi séu tekin á liðnum árum og því fráleitt að KSÍ sé úr takt við knattspyrnusambönd annarra rótgróinna lýðræðisþjóða í þessum efnum.

Fjölmiðlar gengu býsna hart að forsvarsmönnum KSÍ vegna ákvörðunarinnar og fór knattspyrnumiðillinn Fótbolti.net fremst í flokki í þeim efnum. Sem fyrr segir er stjórnarfarið í Sádi Arabíu viðurstyggilegt en sömu sögu er því miður að segja að fleiri ríkjum sem Íslendingar keppa við í knattspyrnu í keppnis- og æfingarleikjum  án þess að stjórn KSÍ er krafin um að axla ábyrgð og gera slík ríki hornreka.

Aðgangsharka fjölmiðla varð til þess að Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ lenti í töluverðum vandræðum að svara fyrir ástæður þess að boð Sádana var þegið á sínum tíma. Það leiddi til þess að hún lét hjákátlegar yfirlýsingar um að leikurinn skapaði tækifæri fyrir stjórn KSÍ að taka upp viðræður um stöðu mannréttindamála í Sádi Arabíu í heimsókninni. En á síðustu stundu reif formaðurinn liðþófa og komst ekki með í ferðina og áfram eru mannréttindamál í Sádí Arabíu í ólestri svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

***

Alþingismenn nota óundirbúnar fyrirspurnir óspart til þess að vekja á sér athygli í fjölmiðlum. Um það er svo sem allt gott að segja en gera verður þá kröfu til fjölmiðla að eitt fréttnæmt liggi að baki þegar ákveða að gera sér mat úr slíkum fyrirspurnum. Þeir mega ekki vera meðvirkir gagnvart þingmönnum sem eru fyrst og fremst að nýta þennan dagskrárlið í störfum þingsins til að vekja á sér athygli.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins gerir mikið að því að slá slíkum fyrirspurnum upp sem stórtíðindum. Þannig var fyrsta frétt í Spegli Ríkisútvarpsins á mánudag að Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, hafi spurt Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsáðherra, hvort hann styddi fjármálaráðherra í því að færa skuldir Íbúðalánasjóðs yfir á lífeyris- og launþega í landinu.

Þetta er ekkert sérstaklega fréttnæmt og hvað þá að standa undir því að vera fyrsta frétt í aðalfréttatíma RÚV. Málefni ÍL-sjóðs eru búin að vera í brennidepli frá 26. október þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti Alþingi skýrslu um stöðu sjóðsins. Frá þeim tíma hefur verið tekist um málið á Alþingi og dægurmálaumræðunni og hefur sjónarmiðum Þorbjargar Sigríðar verið gerð ágæt skil í fjölmiðlum og er RÚV þar með talið. Þar sem ekkert nýtt kom fram í umfjölluninni er undarlegt að stjórnendur Spegilsins hafi sett fyrirspurnina í öndvegi – ekki síst í ljósi þess að eftir fylgdu áhugaverðar umfjallanir um fasteignagjöld, illa meðferð aldraðra og um umræður á Alþingi um stöðu hælisleitenda.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 10. nóvember 2022.