*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Týr
5. júní 2017 11:18

Fréttin lak út

Hélt stjórn SI að hún gæti tekið sér nokkra klukkutíma til að semja fréttatilkynninguna eftir að hafa sagt framkvæmdastjóra samtakanna upp störfum, að því er virðist með litlum fyrirvara?

Guðrún Hafsteinsdóttir er formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins.
Haraldur Guðjónsson

Óhætt er að segja að illa hafi verið haldið á spöðunum innan Samtaka iðnaðarins þegar ákveðið var að skipta um framkvæmdastjóra. Frétt af því að stjórnin hefði sagt Almari Guðmundssyni upp störfum birtist á Vísi áður en tilkynning var send frá samtökunum sjálfum. Hvorki formaður stjórnar né fjölmiðlafulltrúi voru reiðubúnar að ræða málið við fjölmiðla og var raunar eins og það hafi komið þeim báðum mjög á óvart að fréttin skyldi hafa lekið út.

***

Í tilkynningunni sem send var út um fimmleytið á þriðjudag kom fram að Almar léti af störfum samdægurs og auk þess fylgdi með í tilkynningunni lofgjörð Guðrúnar um störf Almars. Var hann sagður hafa gegnt starfinu af trúmennsku og dugnaði og hafa gegnt lykilhlutverki í að auka slagkraft þeirra og sýnileika. Hins vegar var engin tilvitnun í Almar sjálfan, eins og gjarnan er gert þegar starfslok verða og báðir aðilar ganga sáttir frá borði.

***

Þetta tvennt sýnir berlega að ákvörðun um starfslok Almars var einhliða tekin af stjórn SI. Sérstaklega í því ljósi er vanbúnaður stjórnarinnar varðandi tilkynningu fréttarinnar illskiljanlegur. Það er merkilegt að ekki hafi verið betur staðið að svo mikilvægri ákvörðun. Tilkynning og viðbragðsáætlun varðandi samskipti við fjölmiðla á að liggja fyrir áður en þetta er gert. Hélt stjórn SI að hún gæti tekið sér nokkra klukkutíma til að semja fréttatilkynninguna eftir að hafa sagt framkvæmdastjóra samtakanna upp störfum, að því er virðist með litlum fyrirvara?

***

En þetta er svosem ekki í fyrsta skipti sem styr stendur um stöðu framkvæmdastjóra SI. Svana Helen Björnsdóttir var formaður samtakanna þegar Kristrún Heimisdóttir var ráðin framkvæmdastjóri. Mjög fljótlega kom á daginn að nýi framkvæmdastjórinn naut ekki trausts stórs hluta aðildarfélaga SI. Það átti því ekki að koma neinum á óvart að á næsta aðalfundi Samtaka iðnaðarins kom fram framboð gegn Svönu Helen. Guðrún Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Kjörís, var kjörin formaður í mars 2014 og í ágúst sama ár var Almar ráðinn framkvæmdastjóri. Kristrún náði því aðeins að gegna starfinu í níu mánuði.

Stikkorð: Samtök iðnaðarins stjórn rak Lak
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.