*

fimmtudagur, 24. september 2020
Leiðari
7. febrúar 2020 13:03

Fríverslun, Bretar og Íslendingar

Íslendingar eiga að skipa sér í sveit fríverslunarþjóða með afdráttarlausum hætti.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
epa

Um liðna helgi gengu Bretar formlega úr Evrópusambandinu (ESB), þótt fram undan sé aðlögunartími og strangir samningar fyrir höndum um viðskiptasamband þeirra við nágranna þeirra á meginlandinu, auk alls kyns samstarfs annars. Það verður ekki auðvelt að koma því öllu í kring á innan við ári — ómögulegt, segja sumir — en á móti er ástæðulaust að hafa of miklar áhyggjur af því hvernig úr því rætist. Þarna ræðir um vini, granna og bandamenn, allt lýðræðisríki þar sem lögfesta, réttarríki og borgararéttindi eru í hávegum höfð.

Einhverjir benda á að þó að sanngirni og sáttfýsi sé ríkjandi í aðildarríkjum ESB, þá sé því ekki endilega þannig farið hjá möppudýrunum í Brussel, sem telji sig hafa harma að hefna. Má vera, en það er ólíklegt að aðildarríkin eftirláti þeim að láta samninga sigla í strand vegna slíks hégóma, til þess eru hagsmunirnir of ríkir. Þá má ekki gleyma hinu, að þó finna megi að hinu og þessu hjá skrifstofubákninu í Brussel, þá ræðir þar um einhverja mögnuðustu samningavél mannkynssögunnar.

Nú rétt áður en gengið verður til samninga láta menn þó í sér heyra og setja fram ýmsar „ófrávíkjanlegar kröfur“, sem vafalaust verða ófrávíkjanlegar alveg þar til vikið verður frá þeim. Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, hefur gengið mjög langt í því, líkt og ESB hafi öll tromp á hendi. Sem er fjarri sanni, því Bretar flytja miklum mun meira inn frá löndum ESB en meginlandsbúarnir kaupa frá Bretlandi.

Ekki má heldur gleyma því að Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hefur Trump á hendi, en Bandaríkjaforseti hefur hamrað á því að hann vilji gera umfangsmikinn fríverslunarsamning við Breta og að hann vilji vera fljótur að því. Fyrir sitt leyti hafa Bretar látið í það skína að þeir setji þær samningaviðræður í forgang um leið og þeir hafa vísað á bug öllum hugmyndum um reglugerðarjöfnun við ESB. Þeir hafi ekki gengið úr sambandinu til þess eins að setja sig áfram undir Brusselvaldið með óbeinum hætti og fyrirgera öllum ávinningi þess að losna úr viðjum ESB.

Boris Johnson flutti ræðu í vikunni, þar sem hann lýsti framtíðarsýn sinni nú þegar Brexit væri loks afstaðið og Bretar þyrftu að sinna sínum málum sjálfir. Ræðan var flutt í hinum glæsilega flotaskóla í Greenwich, svona til þess að undirstrika forna frægð Breta sem sæfarenda og eyríkis, sem ætti allt undir tryggum og góðum viðskiptum. Orð Borisar tóku svo af allan vafa um það, en segja má að þar hafi hann flutt eldmessu um nauðsyn fríverslunar og að Bretar myndu vera merkisberi hennar á tímum þegar blikur væru á lofti alþjóðaviðskipta.

„Það er verið að kæfa fríverslun… kaupauðgismennirnir eru hvarvetna og verndarsinnarnir sækja á,“ varaði hann við og vitnaði svo til þeirra Adams Smith og Davids Ricardo um skaðann og sóunina, sem óhjákvæmilega hlytist af því þegar ríki reyndu að verja eigin framleiðslugreinar með því að leggja verndartolla á innflutning vöru frá öðrum löndum.

Hann vitnaði ekki til Jóns Sigurðssonar forseta, en það hefði hann þó allt eins getað gert, því sá sómi Íslands, sverð og skjöldur, var óþreytandi talsmaður fríverslunar og vissi sem var að hún væri vísasti vegur Íslendinga frá fátækt til bjargálna. Þess vegna eiga Íslendingar að taka hraustlega undir þessi sjónarmið og skipa sér í sveit fríverslunarþjóða með afdráttarlausum hætti.

Bretar kunna að hafa ýmsu brýnna að sinna en að semja við litla Ísland um fríverslun, en samt hafa stjórnvöld þar tekið umleitunum Íslendinga þar um af mikilli velvild og vilja ljúka sem flestum fríverslunarsamningum sem fyrst. Það járn ber að hamra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.