Í hvert skipti sem ný upplýsingabylting ryður sér til rúms býr það til nýjar áskoranir en einnig ný tækifæri. Þröskuldur fyrir þátttöku einstaklinga í að miðla gögnum, upplýsingum og skoðunum hefur sífellt lækkað og magn þessara gagna og upplýsinga hefur aldrei verið meira. Eins og prentið missti einokunarstöðu sína til útvarpsins hafa samfélagsmiðlar nú tekið við ótrúlega stóru hlutverki sem allir hinir hefðbundnu miðlar héldu að þeir myndu eiga óáreittir. Ábyrgir fjölmiðlar gegna því mikilvægu hlutverki ekki síst nú þegar erfitt er að greina á milli vandaðs fréttaflutnings og falsfrétta. Í nýju umhverfi verður frjáls fjölmiðlun áfram nauðsynleg í lýðræðissamfélagi en hefur átt undir högg að sækja.

Það er eðlilegt að það sé horft til stjórnvalda þegar viðlíka áskoranir blasa við starfsumhverfi fjölmiðla. Viðbragð stjórnvalda við því var að styrkja fjölmiðla með beinum hættir frekar en að bæta rekstrarumhverfi þeirra. Setja má stórt spurningamerki við hvort það sé farsæl lausn til frambúðar.

Þrátt fyrir plástursmeðferðir styrkjaframlaga standa fjölmiðlar enn frammi fyrir sömu risa áskorunum.

Það hefur enda sýnt sig að slíkir styrkir gagnast í raun í lítið en að vera í einhverju mjög tímabundnu plásturshlutverki, þar sem enn gengur brösuglega að reka fjölmiðla. Þrátt fyrir styrkina hefur Fréttablaðið til að mynda dregið úr sínu umfangi jafnvel þó þrír fjölmiðlar hafi sameinast undir merkjum Torgs. Þá sameinuðust Kjarninn og Stundin í nýja miðilinn Heimildina í von um að ná ákveðinni samlegð með sameiginlegum rekstri sem muni skila sér í bættri fjölmiðlun.

Rekstrarumhverfi frjálsra fjölmiðla áskorun

Það er því hætta á að tímabundnir styrkir til fjölmiðla skila litlu öðru en að gera þessa fjölmiðla fjárhagslega háða framlögum frá ríkinu. Það er bagalegt af mörgum ástæðum, og þá ekki síst út af þeirri bjögun að aðhaldshlutverk fjölmiðla sé fjármagnað af ríkisvaldinu.

Þrátt fyrir plástursmeðferðir styrkjaframlaga standa fjölmiðlar enn frammi fyrir sömu risa áskorunum sem er til að mynda aukin samkeppni við samfélagsmiðla þar sem allir eru í raun einhvers konar frétta- og afþreyingastjórar á sama tíma og auglýsingar færast í auknum mæli frá fjölmiðlum til samfélagsmiðla. Þar með hefur opnast gluggi fyrir þau fyrirtæki sem selja vöru sem óheimilt er að auglýsa samkvæmt íslenskum lögum s.s. tóbak, áfengi og íþróttagetraunir að auglýsa til íslenskra neytenda í gegnum samfélagsmiðla. Innlendir fjölmiðlar fá enga sneið af þessari auglýsingaköku á meðan íslenski löggjafinn þráast við leggja bann við auglýsingum á til að mynda áfengi í íslenskum miðlum.

Samkeppnisforskot Rúv er of mikið

Þegar rætt er um rekstrarumhverfi fjölmiðla þá er ekki annað hægt að ræða Ríkisútvarpið sérstaklega. Fyrir utan að Ríkisútvarpið fær milljarða króna forgjöf á aðra fjölmiðla með ríkisstuðningi sínum hafa yfirburðir Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði gert öðrum miðlum erfiðara fyrir í samkeppninni. Það er augljóst öllum sem vilja sjá að þessi staða gengur ekki upp.

Það er því brýnt að ráðast í heildarendurskoðun á rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi þar sem þeir muni ekki þurfa á sérstökum ríkisstuðningi að halda til að geta boðið upp á öfluga fjölmiðlun. Tryggja verður að rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla verði heilbrigt og raunhæfur kostur fyrir þá sem áhuga hafa á að leggja í slíkan rekstur. Það gerist ekki á meðan umfangsmesti fjölmiðill landsins er með mikið forskot á rekstrartækifærin í skjóli ríkisins.

Ísland er lítið land og rekstrarumhverfi fjölmiðla verður alltaf áskorun. Það er samt engum greiði gerður með því að fjölmiðlum verði niðurgreidd búgrein sem skrimtir óháð því hvort einhver vill kaupa afurðina. Á Íslandi eru fjöldi fjölmiðla, ljósvaka-, prent- og netmiðlar. Almenningur er í þessu sem öðru bestur til þess fallinn að velja hvers hann vill neyta. Það er þegar öllu er á botninn hvolft besti hvatinn til að bjóða vandaða og áhugaverða fjölmiðlun, en þá verður að vera samkeppnisumhverfi sem fjölmiðlar raunverulega ráða við.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 26. janúar.