Raforkuverð á Íslandi til almennings og fyrirtækja er lágt og hefur verið það alla tíð. Ákvörðun Landsvirkjunar um að láta upprunaábyrgðir ekki fylgja með í heildsölu breytir engu þar um. Verðlagning á raforkunni er óbreytt en raforkukaupendum, þ.e. heimilum og fyrirtækjum, stendur til boða að kaupa upprunavottaða raforku. Engin skylda hvílir á þeim að kaupa upprunaábyrgð, það er þeirra frjálsa val.

Fyrir meðalstórt heimili má ætla að viðbótarkostnaðurinn gæti numið um 140 kr. á mánuði, enda raforkan sjálf einungis um fjórðungur af raforkureikningi heimilanna en annar kostnaður er t.d. vegna dreifingar eða flutnings. Ef dæmi er tekið af fremur stóru fyrirtæki má ætla að viðbótarkostnaðurinn gæti numið um 2%. Víða heyrast þó þær fullyrðingar að kerfi upprunaábyrgða muni með einhverjum hætti leiða til stórhækkunar á raforkuverði. Slíkt er hreinn uppspuni. Upprunaábyrgðakerfið skýtur hins vegar enn styrkari stoðum undir rekstur orkufyrirtækis þjóðarinnar, Þá staðreynd getum við ekki hunsað.

Landsvirkjun hefur unnið orku úr endurnýjanlegum auðlindum þjóðarinnar frá 1965 í þágu almennings og atvinnulífs. Kerfi upprunaábyrgða, sem 28 lönd eiga nú aðild að, var innleitt hér á landi með lögum árið 2008 en Landsvirkjun hóf sölu ábyrgðanna þremur árum síðar. Ísland er aðili að EES og okkur er skylt að gefa raforkusölum hér kost á að fá útgefnar upprunaábyrgðir og taka þátt í viðskiptum með þær. Hins vegar er engum þó skylt að kaupa þær. Núna er kerfið farið að virka eins og til var ætlast: Þau fyrirtæki sem vinna endurnýjanlega orku, eins og Landsvirkjun, njóta þess með hærra verði og geta þannig eflt enn frekar græna orkuvinnslu sem mun skipta sköpum til að mæta óhjákvæmilegum orkuskiptum.

Ef við seljum upprunaábyrgðir fyrir grænu orkunni okkar úr landi þurfum við að færa sambærilegt magn grárrar, evrópskrar orku til bókar hjá okkur.

Í Fjölmiðlarýni síðasta tölublaðs Viðskiptablaðsins var því haldið fram að með kerfi upprunaábyrgða væri verið að hækka raforkuverð til fyrirtækja og þar með verið að flytja fé frá framleiðslufyrirtækjum til „ríkiseinokunarfyrirtækis“ að ástæðulausu. Landsvirkjun er vissulega markaðsráðandi fyrirtæki en því fer fjarri að það sé í einokunarstöðu á íslenskum orkumarkaði.

Önnur orkufyrirtæki selja einnig upprunaábyrgðir. Um þær gildir hið sama og um upprunaábyrgðir sem stafa frá vinnslu Landvirkjunar: Engum er skylt að kaupa. Þeir einir kaupa sem sjá sér hag í að gera það, t.d. vegna markaðssetningar vöru eða til að styðja við aðgerðir gegn loftslagsvánni.

Bókhaldið verður að stemma

Til að tryggja að upprunaábyrgðir fyrir endurnýjanlega orku séu ekki seldar tvisvar þarf að færa bókhaldið rétt. Það þarf að færa aðra orkuvinnslu í kredit-dálkinn, til dæmis kolaorkuna sem fyrirtæki á Spáni notaði í raun eða kjarnorkuna sem systurfyrirtæki þess í Þýskalandi neyddist til að nota, en bæði keyptu hins vegar upprunaábyrgðir á móti til að styðja við endurnýjanlega orkuvinnslu.

Þetta er bókhald. Við vitum öll að hér á landi notum við hvorki kol né kjarnorku. En bókhaldið verður að stemma. Ef við seljum upprunaábyrgðir fyrir grænu orkunni okkar úr landi þurfum við að færa sambærilegt magn grárrar, evrópskrar orku til bókar hjá okkur. Flóknara er það ekki. Eftir sem áður vinnum við græna orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta er bókhaldskerfi, ekki flutningur á raforku milli landa.

Landsvirkjun seldi upprunaábyrgðir fyrir 1 milljarð kr. árið 2021 og um 2 milljarða kr. á nýliðnu ári. Væru seldar upprunaábyrgðir vegna allrar orkuvinnslu okkar næmi upphæðin um 15 milljörðum kr. árlega, miðað við meðalverð nú á nýliðnum haustmánuðum. Á orkufyrirtæki þjóðarinnar að kasta þeim verðmætum á glæ?

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 12. janúar 2023.