*

sunnudagur, 25. október 2020
Óðinn
20. desember 2016 11:03

Frjálst flæði vinnuafls

„Staðreyndin er sú að innflutningur á vinnuafli hefur jákvæð áhrif á hagkerfi og samfélög.“

Haraldur Guðjónsson

Málefni innflytjenda eru e.t.v. ekki sama stórmálið í íslenskum stjórnmálum og þau eru víða í löndunum í kringum okkur. Með nokkrum sanni má segja að úrslit kosninganna í Bretlandi um útgöngu landsins úr Evrópusambandinu hafi – auk annars – ráðist af áhyggjum þarlendra kjósenda af fjölgun innflytjenda, einkum frá AusturEvrópuríkjum. Hér voru málefni innflytjenda ekki hitamál í alþingiskosningum, en þó er að finna þess merki að áhyggjur af innflytjendum meðal Íslendinga fari vaxandi og er framboð Íslensku þjóðfylkingarinnar ein birtingarmynd þess. Sem betur fer naut þjóðfylkingin ekki mikils kjörfylgis, en frjálslynt fólk þarf engu að síður að hafa það á bak við eyrað að þessi viðhorf eru til staðar í íslensku samfélagi.

***

Eins og með svo margt stjórnlyndi þá byggir þessi andstaða við innflytjendur á tilfinningum, en ekki rökum. Staðreyndin er sú að innflutningur á vinnuafli hefur jákvæð áhrif á hagkerfi og samfélög. Stjórnmálamenn eins og Donald Trump hafa náð að afla sér fylgis með því að halda hinu gagnstæða fram og eru innflytjendur gjarnan sakaðir um að „stela“ störfum af innfæddum. Þegar rýnt er í raunveruleikann kemur í ljós að fólk hefur tilhneigingu annars vegar til að ofmeta mjög fjölda innflytjenda í viðkomandi samfélagi og vanmeta mjög jákvæð áhrif innstreymis á fólki.

***

 

Jákvæð áhrif fólksflutninga stafa einmitt af þeim þáttum sem helst eru gagnrýndir af þeim sem tortryggnir eru gagnvart innflytjendum. Sú staðreynd að innflytjendur eru öðruvísi, hafa aðra hæfileika, þekkingu, menntun, lífsafstöðu og reynslu, gerir það að verkum að þeir bæta upp það sem á vantar í við- komandi samfélagi og hagkerfi.

***

Í raun má líta á fólksflutninga sem ákveðna tegund alþjóðaviðskipta, að því leyti að frjálsir fólksflutningar auka framleiðni og bæta lífskjör, líkt og frjáls viðskipti almennt. Með því að fjölga þeim hugmyndum og hæfileikum sem hagkerfið hefur úr að nýta fara hjól þess að snúast hraðar og nýsköpun eykst.

***

Þeir sem vilja takmarka enn frekar innflutning vinnuafls hunsa þessar staðreyndir. Vissulega er auðvelt fyrir íbúa EES-ríkja að flytja hingað og hefja störf, en fyrir aðra getur það reynst þrautin þyngri. Íslensk fyrirtæki hafa sérstaklega kvartað undan því að erfitt getur reynst að fá atvinnuleyfi fyrir sérfræð- inga, sem þau þurfa nauðsynlega á að halda. Það er í raun fáránlegt að ríkisvaldið telji sig geta ákveðið hverjar þarfir hagkerfisins og samfélagsins eru hvað þetta varðar. Engum dettur lengur í hug að láta embættismenn ákveða fyrir almenning hversu marga bíla, eða hvaða tegundar, fólk á að geta keypt á hverju ári. Engu að síður erum við með embættismenn sem hafa það hlutverk að ákveða hversu margir útlendingar mega flytja hingað til að vinna – okkur öllum til bóta – og hvaðan þeir mega koma.

***

Rétt eins og viðskipti almennt eiga að vera eins frjáls og unnt er segja fræðin og staðreyndirnar okkur að sama ætti að gilda um fólksflutninga. Frjálst og ótakmarkað flæði vinnuafls myndi skila mestum efnahagslegum ávinningi fyrir heildina. Þetta má meðal annars sjá á þeim árangri sem þó hefur náðst á EES-svæðinu. Að sjálfsögðu eiga ríki að takmarka möguleika glæpamanna, hryðjuverkamanna og útsendara fjandsamlegra ríkisstjórna til að koma til viðkomandi lands og eins má færa fyrir því rök að sama eigi að gilda um þá sem bera bráðsmitandi og hættulega sjúkdóma. Frjáls flutningur vinnuafls þarf ekki að fela það í sér að allir sem hingað kæmu fengju sjálfkrafa eða samstundis ríkisborgara- eða kosningarétt.

***

En líklega er ekki samfélagslegur eða pólitískur vilji fyrir svo umfangsmiklum breytingum á innflytjendalöggjöfinni. Önnur leið, köllum hana næstbestu leiðina, væri að fara að fyrirmynd frændfólks okkar í Svíþjóð. Sænsk fyrirtæki mega ráða hvern sem er, hvaðan sem er, á endurnýjanlegum tveggja ára atvinnuleyfum. Enginn kvóti er á fjölda innflytjenda sem komið getur inn í landið með þessum hætti. Þetta er opið, sveigjanlegt kerfi sem ekki mismunar fólki á grundvelli þjóðernis.

***

 

Önnur leið væri að fara þá leið sem gjarnan er farin í viðræðum milli landa um vöruviðskipti. Hægt væri að gera tvíhliða samninga milli landa um frjálst flæði vinnuafls. Þetta hefði þau jákvæðu hliðaráhrif að draga úr líkum á að tollamúrar yrðu seinna reistir á milli landanna. En hægt er að fara enn skemur, en þó í rétta átt. Þeir sem hafa fengið atvinnutilboð frá íslenskum fyrirtækjum ættu sjálfkrafa að fá atvinnuleyfi. Erlendir háskólanemar ættu að fá að vera hér áfram og vinna að námi loknu og hælisleitendur ættu að fá að vinna á meðan umsókn þeirra er tekin til afgreiðslu. Bæði myndi það minnka kostnað samfélagsins vegna hælisleitenda – en einnig gera þeim auðveldara að aðlaga sig samfélaginu fari svo að þeir fái hér hæli.

***

Allt þetta myndi gera innflytjendalöggjöfina sanngjarnari og hagkvæmari fyrir hagkerfi og samfélag.

***

Atvinnuleysi er nú svo gott sem horfið á Íslandi og mikil þörf fyrir erlent vinnuafl blasir við. Vissulega getum við sótt vinnuafl til EES-ríkjanna, eins og gert hefur verið til lengri tíma með góðum árangri. En það er í raun stórfurðuleg afstaða að draga línuna við þau ríki ein. Ef fólk sam- þykkir á annað borð þá forsendu að þörf sé á erlendu vinnuafli, af hverju ætti að takmarka okkur við það vinnuafl sem hægt er að sækja til Evrópu? Hvað gerir Austurríkismann eða Dana að betri vinnukrafti en Filippseying eða Nepala?

***

Eins er mikilvægt að hafa í huga að breytingar á löggjöf um innflytjendur eru alfarið í höndum íslenskra kjósenda og stjórnvalda. Fráfarandi ríkisstjórn sýndi svart á hvítu að hægt er að auka viðskiptafrelsi með því að fella einhliða niður tolla og vörugjöld án þess að til þurfi að koma samningar við önnur ríki eða ríkjabandalög.

***

Þvert á móti myndi innganga í Evrópusambandið – eins fjarlægur möguleiki og hún nú er – takmarka möguleika okkar til að auðvelda erlendu vinnuafli að koma hingað. Ákvörðunin myndi ekki liggja hjá Alþingi, heldur í Brussel. Því miður er auðvelt að ímynda sér að embættismennirnir þar muni bregðast við auknum vinsældum öfgaflokka til hægri og vinstri með því að frekar takmarka ferðafrelsi inn í álfuna en auka það.

***

Áhyggjur þeirra sem óttast að íslenskt samfélag og menning geti drukknað í flóði innflytjenda eru e.t.v. skiljanlegar, en þær eiga ekki – að mati Óðins – við rök að styðjast. Það er með vinnuafl eins og aðra vöru. Framboð og eftirspurn eru ráðandi drifkraftar. Það er einfaldlega ekki pláss – í hagfræðilegum skilningi – fyrir hálfa milljón innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði, svo tala sé tekin af handahófi. Fólk mun hætta að leita hingað þegar eftirspurnin eftir vinnu þeirra er ekki lengur fyrir hendi. Eins er ómögulegt í núverandi lagaumhverfi að undirbjóða íslenskt launafólk – lög og kjarasamningar sjá til þess, þótt alltaf séu ómerkilegir að- ilar sem reyna að komast hjá þeim.

***

Mikilvægt er hins vegar að breytingar í meiri frjálsræðisátt séu ræddar opinberlega og af yfirvegun. Ekki á að keyra í gegn breytingar sem meirihlutanum hugnast ekki. Það er ekki annað en forskrift fyrir því að Íslenska þjóðfylkingin nái meiri árangri í framtíðinni. Engu að síður ber frjálslyndu fólki að tala fyrir auknu frelsi í þessum hlutum eins og öðrum. Það verð- ur hins vegar ekki gert með því að setja alla þá undir sama hatt sem ekki eru jafn áfjáðir í að opna landið meira fyrir innflytjendum. Það er ekkert fengið með því að úthrópa alla, sem ekki eru sammála Óðni í þessum efnum, sem kynþáttahatara. Fólk þarf ekki að hata aðra til að hafa skiljanlegar efasemdir um ágæti aukins innstreymis erlends vinnuafls. Þær efasemdir á að rökræða, en ekki keyra í kaf með hrópum og köllum.

 

 

Stikkorð: innflutningur flæði Vinnuafl
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.