*

föstudagur, 10. júlí 2020
Leiðari
18. október 2018 13:07

Fullkomlega óraunhæfar kröfur

Með kröfum sínum leggur verkalýðsforystan til að við hefjum stærsta höfrungahlaup Íslandssögunnar.

Kjaraviðræður hófust formlega í vikunni.
Haraldur Guðjónsson

Starfsgreinasambandið og VR hafa nú kynnt kröfur sínar fyrir komandi kjaraviðræður og eru þær nánast samhljóða. Eftir orðræðu verkalýðsforystunnar síðustu misseri var alveg ljóst að farið yrði fram á miklar launahækkanir. Það verður samt að segjast eins og er að þær kröfugerðir sem lagðar hafa verið fram síðustu daga eru hreint út sagt ótrúlegar.

Eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag þá fara Starfsgreinasambandið og VR fram á að lágmarkslaun hækki á þremur árum úr 267 þúsund krónum á mánuði í 425 þúsund eða um tæplega 60%. Þar með er í raun aðeins hálf sagan sögð því forysta félaganna gerir einnig kröfu um að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að lægstu laun verði skattfrjáls. Útborguð laun hækka þar með úr 215 þúsund krónum í 408 þúsund, sem er 90% launahækkun á þremur árum. Við þetta bætist að gerð er krafa um styttingu vinnuvikunnar úr 40 klukkutímum í 32 til 35 tíma. Þar með er ljóst að kröfugerð forystu þessara tveggja stéttarfélaga hljóðar upp á að tímakaup hækki úr 1.271 krónum í 2.690 krónur hjá VR og úr 1.243 krónum í 2.942 krónur hjá Starfsgreinasambandinu. Þegar öllu er á botninn hvolft hljóðar kröfugerðin því upp á 112 til 137% hækkun tímakaups.

Einhverjir myndu halda að hér væri allt upp talið en svo er nú ekki. Í kröfugerðunum er farið fram að vextir verði lækkaðir, verðtrygging bönnuð, hið opinbera fari í átak í húsnæðismálum til hagsbóta fyrir þá tekjulægstu og að dregið verði úr skerðingum í bótakerfinu.

Lítið hefur heyrst úr stjórnarráðinu eða frá Samtökum atvinnulífsins eftir að þessar kröfugerðir voru birtar. Það verður að segjast eins og er að það er fullkomlega eðlilegt enda kröfurnar útópískar – ekki í neinum tengslum við íslenskan veruleika. Það er erfitt að bregðast við slíkum kröfum. Þar fyrir utan leggja forystumenn stéttarfélaganna þessar kröfur fram án þess að farið hafi fram kostnaðarútreikningar. Það er líklega meðvituð ákvörðun enda myndu slíkir útreikningar sýna hversu óraunhæfar, svo ekki sé notað sterkara orð, kröfurnar eru.

Það hefur kannski farið framhjá forystumönnum verkalýðsfélaganna að toppi hagsveiflunnar hefur verið náð og leiðin liggur niður á við. Vonast hefur verið eftir mjúkri lendingu en verkalýðsforkólfarnir vilja gera sitt til að gera hana eins harða og mögulegt er. Það er því miður ekki hægt að túlka þessar kröfur á neinn annan hátt.

Verkalýðsforystan vill ólm fara hina dæmigerðu íslensku leið sem er að hækka laun eins mikið og mögulegt er í uppsveiflu. Hún neitar að horfast í augu við að niðursveiflan er þegar hafin. Sögulega hefur þetta haft í för með sér aukinn kaupmátt í skamman tíma en síðan hefur allt farið til andskotans. Viðskiptahallinn hefur fljótlega aukist, krónan veikst og verðbólgan étið upp kaupmáttaraukninguna. Eina undantekningin frá þessu eru samningarnir 2015 þegar samið var um 30% launahækkun.

Eina ástæðan fyrir því að þeir samningar leiddu ekki til aukinnar verðbólgu var að allir ytri þættir voru þjóðinni einstaklega hagfelldir. Ferðaþjónustan fór á flug með tilheyrandi innflæði gjaldeyris, krónan styrktist, olíuverð lækkaði og Costco kom til landsins með tilheyrandi áhrifum á smásölumarkaðinn. Í dag eru nákvæmlega engin teikn á lofti um að ytri aðstæður verði okkur hagfelldar. Þvert á móti er krónan þegar farin að veikjast, olíuverð er að komast í hæstu hæðir, hægt hefur á uppgangi ferðaþjónustunnar og svo mætti áfram telja. Eina leið fyrirtækja til að bregðast við tuga prósenta, svo ekki sé nú talað um ríflega hundrað prósenta launahækkunum væri að hækka vöruverð og segja upp fólki. Í mörgum tilfellum myndi það ekki einu sinni duga.

Það stendur sem sagt ekki steinn yfir steini í kröfunum. Hvernig er hægt að fara fram á 137% launahækkun á sama tíma og þess er krafist að vextir verði lækkaðir? Ef laun verða hækkuð eitthvað í líkingu við það sem verkalýðsforystan fer fram á þá mun verðbólgudraugurinn vakna og þegar það gerist þá mun Seðlabankinn svo sannarlega ekki lækka vexti. Hann mun hækka þá. Og hvers vegna á að banna verðtryggingu þegar mikill meirihluti þjóðarinnar velur einmitt verðtryggð lán. Má ekki vera val?

Með kröfum sínum leggur verkalýðsforystan til að við hefjum stærsta höfrungahlaup Íslandssögunnar. Hún leggur til að við siglum inn í öldudal verðbólgu og atvinnuleysis.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.