*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Óðinn
12. mars 2020 11:19

Fundur um ekki neitt og viðbrögð seðlabanka

Fullkomið forystuleysi formanna ríkisstjórnarflokkanna kom í ljós á fréttamannafundi um að hugsanlega myndi eitthvað vera gert.

Bjarni Benediktsson er fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og formaður VG, og Sigurður Ingi Jóhannsson er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Formenn ríkisstjórnarflokkanna héldu fréttamannafund í fyrradag. Þar kom í ljós fullkomið forystuleysi þessa annars ágæta fólks. Margir hefðu haldið að ráðherrarnir hefðu lært á sínum heldur langa ferli í stjórnmálum að halda ekki fréttamannafundi um ekki neitt og sleppa frekar slíkum fundum ef ekki er unnt að tala með skýrum og ákveðnum hætti.

Jafnvel lært af mistökum Geirs H. Haarde þegar hann bað Guð að blessa Ísland og olli þar með enn meiri sálarangist meðal landsmanna, sem töldu að mjög hefði styst í förina úr þessum táradal.

                                                       ***

Hugsanlega eitthvað...

Niðurstaða fundarins var sú að hugsanlega myndi eitthvað vera gert. Til dæmis yrðu hugsanlega veittir greiðslufrestir á sköttum og hugsanlega yrðu skattar felldir niður, þó helst á ferðaþjónustuna.

                                                       ***

Óðinn hafði svo sem ekki miklar væntingar um að íslenskufræðingurinn Katrín og dýralæknirinn Sigurður áttuðu sig á því hversu miklir erfiðleikar steðja að íslensku atvinnulífi þessi dægrin. En að fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, sé algjörlega úti á túni kom honum í opna skjöldu.

                                                       ***

Svo segja menn að Donald Trump sé vitleysingur. Hann hafði þó rænu á að lækka tryggingagjaldið án þess að hika. Þetta er gríðarlega mikilvæg ákvörðun og minnkar líkurnar á því að fyrirtækin segi upp fólki, en örvar einnig lífvænlegri fyrirtæki til þess að ráða til sín nýtt fólk um leið og hin leggja upp laupana.

                                                       ***

Gjaldþrot blasa við

Staðan hjá fyrirtækjunum í landinu er sú - ekki síst þeim minni og meðalstórum - að eftirspurn eftir vöru og þjónustu hefur í mörgum tilfellum hrunið á nokkrum vikum, jafnvel dögum. Greiðsluerfiðleikar vegna lausafjárskorts er að hríslast út um allt kerfið.

Fyrirtæki sem voru veik fyrir eru á hraðleið í gjaldþrot. Bankakerfið heldur mjög að sér höndum og gerir miklar kröfur veð og tryggingar, sem veikari fyrirtækin geta ekki veitt, og greiðslumiðlanir herða á þumalskrúfunum. Greiðslufrestur á sköttum mun ekkert gera fyrir þessi fyrirtæki.

                                                       ***

Hvað er ferðaþjónusta?

En skilja forystumenn ríkisstjórnarinnar, ef forystumenn skyldi kalla, virkilega ekki að við slíkar aðstæður tapa mun fleiri. Sá sem gerir við rúturnar, sá sem leigir húsnæðið, sá sem selur þeim klósettpappírinn. Svo má ekki gleyma öllum einyrkjunum sem eru í þessum bransa, sem eru verktakar og munu tapa „laununum" sínum. Hvað ætla Kata og Bjarni að gera þegar hungrið sverfur að því fólki?

                                                       ***

Þess utan verða aðrar atvinnugreinar beint fyrir því að reksturinn dregst saman vegna þess að fólk forðast að vera í kringum fólk. Fólk veigrar sér meira að segja við því að mæta á heilsugæslustöðvar og hringir heldur.

                                                       ***

Samdrátturinn og gjaldþrotahrinan sem allir sjá fyrir, nema „forystumennirnir" mun valda enn meira atvinnuleysi. Heimilin í landinu munu þar af leiðandi verða líka fyrir barðinu á þessari kreppu.

                                                       ***

Einkennilegast á þessum ekkifréttamannafundi ríkisstjórnarinnar var að nú ætti að færa innstæður gamla Íbúðalánasjóðs í viðskiptabankana ef ástæða væri til. Hinn 14. október 2019, fyrir fimm mánuðum síðan, var tilkynnt um að gamli Íbúðalánasjóður gæti ekki lagt peninga inn á Seðlabankann frá og með 1. apríl 2020. Það er beinlínis villandi að slá þessu fram sem sérstakri aðgerð.

                                                       ***

Það er nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að halda fréttamannafund að nýju, og hafa þar eitthvað fram að færa. Tilkynna um ákvarðanir. Til dæmis að fella niður tryggingagjald tímabundið í nokkra mánuði. Gera eitthvað sem skiptir máli og fær fólkið í landinu og fólkið sem rekur fyrirtækin í landinu til að öðlast trú á að hér sé ekki annað hrun í uppsiglingu.

                                                       ***

Heimatilbúinn lausafjárskortur

Óðinn hefur haft miklar áhyggjur af lausafjárskortinum í efnahagslífinu, sem hefur gert það að verkum að vaxtalækkanir Seðlabankans hafa alls ekki skilað sér að fullu, sérstaklega ekki til fyrirtækjanna, sem mest þurfa á því súrefni að halda.

                                                       ***

En það er augljóst að dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er meðvitaður um stöðuna. Lækkun stýrivaxta í gær og minnkun bindisskyldunnar, sem ætti að losa um 40 milljarða króna hjá viðskiptabönkunum, er gríðarlega mikilvægt skref til að takast á við enn verri stöðu.

                                                       ***

Ásgeir upplýsti einnig í gær á vaxtaákvörðunarfundinum um að fjármálastöðugleikanefnd myndi koma saman á allra næstu dögum og ræða eiginfjáraukana. Auðvitað verða þeir lækkaðir eitthvað.

                                                       ***

Í síðustu viku var skipað í fjármálastöðugleikanefndina samkvæmt nýjum lögum um Seðlabankann. Sjö einstaklingar eru í nefndinni, þar af fimm frá Seðlabankanum. Dettur einhverjum í hug að þetta ágæta fólk sem starfar í Seðlabankanum muni beita sér gegn sjálfum seðlabankastjóranum, yfirmanni sínum? Fyrir nú utan hitt, að falli atkvæði jafnt þá ræður atkvæði seðlabankastjórans.

                                                       ***

Óðinn hefur áður gagnrýnt nefndaskipan í kringum seðlabankann, og þá vegna peningastefnunefndar. Það er einfaldlega ekki trúverðugt að meirihluti nefndarmanna séu starfsmenn Seðlabankans og lúti húsbóndavaldi ef ekki boðvaldi seðlabankastjórans. Þetta er óþarfa leikrit og eykur ekki trúverðugleika bankans. Þar er kannski ekki við Seðlabankann að sakast heldur löggjafarvaldið. En nóg um það.

                                                       ***

Ástæða til bjartsýni

Það er ljóst að næstu vikur og mánuðir verða mjög erfiðir í íslensku atvinnulífi. Ólíklegt er að þetta verði langvinnir utanaðkomandi erfiðleikar, þó auðvitað muni taka margar atvinnugreinar og fyrirtæki tíma að jafna sig á miklum tekjusamdrætti.

                                                       ***

Miklu skiptir að undirliggjandi staða efnahagsmála á Íslandi hefur líklega aldrei verið betri. Seðlabankinn er með 800 milljarða króna gjaldeyrisforða. Bankinn getur lækkað vexti enn frekar og rýmkað íþyngjandi reglur á bankana.

                                                       ***

Ríkissjóður stendur mjög vel og skuldar í kringum 680 milljarða króna í beinar skuldir. Því getur ríkið auðveldlega lækkað skatta og gjöld, bæði á einstaklinga og fyrirtæki.

                                                       ***

Það er alltaf ástæða til að lækka skatta, en ef við tökum mark á Keynesistum og öðrum vinstrisinnuðum hagfræðingum, sem ber almennt að varast, þá á einmitt að lækka skatta ekki seinna en strax.

                                                       ***

Eins getur ríkissjóður farið í verulegar innviðafjárfestingar. Þá skiptir öllu að þær fjárfestingar séu arðsamar, en ekki pólitísk hrossakaup í aðdraganda kosninganna á næsta ári.

                                                       ***

Íslendingar hafa áður komist í hann krappan, en borið gæfu til þess að vinna sig út úr vandanum. Það var gert með því að horfast í augu við vandann, ekki reyna að fresta honum. Með því að átta sig á aðalatriðum vandans í stað þess að festast í smáatriðunum. Þann lærdóm þurfum við - ríkisstjórnarforystan líka - að hafa í huga nú. Þá blessast þetta í stað þess að Guð segi bless við Ísland.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu þann 12. mars 2020. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.