Fréttir voru sagðar af fundi þjóðaröryggisráðs, þar sem rætt var um „lýðræðislega framkvæmd kosninga og lögmæta meðferð persónuupplýsinga í aðdraganda þeirra“. Áður hafði verið greint frá úrskurði Persónuverndar um lögbrot Reykjavíkurborgar þegar stakir kjósendahópar voru sérstaklega hvattir til að kjósa. DV sagði frá fundinum, en gekk lengra en aðrir og fullyrti í fyrirsögn: „Brot Reykjavíkurborgar rætt í Þjóðaröryggisráði“. Efni og heimildir fréttarinnar stóðu ekki undir þeirri fyrirsögn. Það má vera sennilegt (ekki hefur verið greint frá sams konar lögbrotum annarra sveitarfélaga), en það vissi blaðið augljóslega ekki. Við getum öll dregið ályktanir, en það er hið sérstaka hlutverk fjölmiðla að leita heimilda og segja staðfestar fréttir. Þarna var DV bara að giska, en ekki hefði verið erfitt að taka upp símann og leita nánari fregna. Fundir þjóðaröryggisráðs eru auðvitað bundnir trúnaði, en þennan fund sátu 12 fulltrúar og vel reynandi að ganga á röðina og spyrja hvort þar hafi verið rætt um eitt sveitarfélög eða fleiri. Það er tæpast ríkisleyndarmál.

* * *

Önnur frétt var þó á DV/Eyjunni í liðinni viku, sem tók þessari langt fram í óvönduðum vinnubrögðum, eiginlega þannig að tala má um fals. Hún var um nýafstaðna hringferð sjálfstæðisþingmanna í kjördæmaviku, en þeir ákváðu að fara saman í öll kjördæmi í stað þess að hver sinnti sínu. Frétt DV/Eyjunnar birtist undir fyrirsögninni „Þetta kostar hringferð Sjálfstæðisflokksins skattgreiðendur á Íslandi – Ferðast um á VIP rútu“, en uppistaðan í henni var uppspuni blaðamanns um að skattgreiðendur borguðu fyrir herlegheitin, án þess að vitnað væri til neinnar heimildar því til staðfestingar. Meginefnið var þetta: Í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eru 16 þingmenn. […] Alþingi endurgreiðir allt uppihald þingmanna, gistingu og fæði, í ferðalagi sínu um landið. Í þessu er það eitt rétt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru 16 talsins, en annað eru óstaðfestar fullyrðingar um óorðinn hlut og eftir því sem fjölmiðlarýnir kemst næst beinlínis rangt. Bæði þingmenn og starfsmenn flokksins hafa síðan sagt fullum fetum að Alþingi greiði hvorki fyrir uppihald, gistingu, fæði né annan ferðakostnað vegna hringferðar þingflokksins, sumt greiði þeir sjálfir, flokkurinn annað. Ekki síður virtust þeir þó hissa á þeirri lýsingu á rútunni að hún væri hátindur íburðar og bruðls – nánast slegin fílabeini, purpura og pelli með kampavín vellandi af gullkrönum – og birtu sumir þeirra myndir úr henni á félagsmiðlum. Þetta virtist vel boðleg rúta, en rúta er rúta.

* * *

Í fréttinni fór blaðamaðurinn afar langa leið að fréttapunktinum, en það var gert með því að finna á vef Alþingis hvaða heimildir gætu mögulega verið fyrir endurgreiðslum (raunar rangt eftir haft) og síðan gengið út frá að þingmennirnir fái endurgreiddan gisti- og matarkostnað. Þar er um tóma og tilhæfulausa ágiskun að ræða og óskiljanlegt hvernig það getur orðið forsenda fréttar hvað blaðamanni finnst að geti verið satt. Í framhaldinu er svo áfram giskað, fullyrt að engin takmörk séu á endurgreiðslum Alþingis „svo vitað sé, þannig að ef þingmenn kjósa að kaupa dýrustu gistinguna sem í boði er og borða dýrindis veislumat á hverju kvöldi, fá þeir allt endurgreitt úr ríkissjóði“. Eftir þann ávæning um hóglífi þingmanna á kostnað almennings var þó af hófsemi sleginn skrýtinn varnagli „til að gæta sannmælis“ og ekki miðað við hæsta mögulegan kostnað „heldur notast við slembimeðaltal“. „Slembimeðaltal“ mun vera slembið samheiti við ágiskun, en út frá henni er reiknað áfram samkvæmt vafalaust hávísindalegri en ótilgreindri „jöfnu“. Þrátt fyrir að játað sé að „allur gangur [sé á] því hverjir gista hvar og hvort allir í þingflokknum komi með“, er nú samt reiknað með því að þingmennirnir séu „allir taldir með, en tekið skal fram að um áætlaðan kostnað er að ræða“ og upplýst að „neðri mörk meðaltalskostnaðar“ hafi verið fundinn með „slembi aðferðum“. Hvað sem það nú er. Áfram er haldið og tekið til við að reikna matarkostnað, fullkomlega út í bláinn, og síðan fullyrt að öllu samanlögðu að skattgreiðendur þyrftu því – „að gefnum forsendum“ – að greiða um 2,5 milljónir króna fyrir ferð þingmannanna. Sá yfirlætislausi fyrirvari um gefnar forsendur, segir allt sem segja þarf um þessa „frétt“, því hún byggir öll á „slembiforsendum“ sem blaðamaður galdrar sjálfur upp úr hatti sínum.

* * *

Það sem gerir þessa röngu hugarflugsfrétt hálfu alvarlegri en ella er að hún virðist rituð gegn betri vitund, án nokkurra heimilda um meginefni hennar og beinlínis andstætt þeim heimildum, sem blaðamaður hafði leitað. Yðar einlægur er vel kunnugur Sjálfstæðisflokknum og hefur m.a. unnið fyrir hann í kosningum, en þegar hann spurðist fyrir um þetta mál kom á daginn að Erla Dóra Magnúsdóttir, blaðamaður DV, hafði hringt í starfsmann flokksins, spurt um ferðatilhögun og kostnað og fengið um það afdráttarlaus svör að Alþingi greiddi ekki fyrir. Frá því greindi hún í engu, enda voru þau svör augljóslega ekki í samræmi við þá frétt, sem blaðamaðurinn vildi skrifa. Áhugaleysi blaðamanns á sannleikanum er þó greinilegast af því að hann gerði ekki hið augljósa og eðlilega: að leita til skrifstofustjóra Alþingis til þess að fá staðfest hvort mat og hefð um endurgreiðslureglur þingsins vegna ferða þingmanna leyfðu slíkt og hvort eftir hefði verið leitað. Það er meira en leti eða vanræksla að láta það vera. Það segir svo sína sögu um heilindin, að blaðamaðurinn merkti sér ekki fréttina, líkt og venja er, heldur var hún aðeins merkt ritstjórn og birt á ábyrgð miðilsins. Ekki var þó minna skrýtið að eftir að þingmennirnir andæfðu þvælunni sagði DV/Eyjan frétt af því og var með snúð. Allt í skjóli þess að „ítrekað [væri] bent á í fréttinni að forsendurnar [væru] ekki nákvæmar staðreyndir, heldur áætlaðar með slembiaðferðum“! Í slíkum fyrirvörum eru engar varnir þegar ályktunum er slegið upp sem staðreyndum. Það stappar falsi næst, en umrædd frétt mun vafalaust lengi lifa sem skólabókardæmi um óvandaða og óheiðarlega fréttamennsku.