*

mánudagur, 22. júlí 2019
Leiðari
9. febrúar 2018 17:55

Fylgið á fleygiferð

Björt framtíð er deyjandi afl í Reykjavík og VG og Píratar halda meirihlutanum á floti.

Haraldur Guðjónsson

Viðskiptablaðið greindi í gær frá nýrri könnun Gallup á fylgi flokkanna í Reykjavík. Könnunin er um margt áhugaverð. Fyrst ber að nefna að könnun sem blaðið birti í júní sýndi að staða meirihlutans var sterk. Þá mældust Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstrihreyfingin - grænt framboð (VG) og Píratar með samtals 61,4%, sem er nánast sama fylgi og flokkarnir fengu í kosningunum 2014 en þá fengu þeir 61,7%. Nýja könnunin sýnir að heldur hefur hallað undan fæti.

Meirihlutinn mælist nú með 54,7% fylgi. Björt framtíð, sem hvarf af sjónarsviði landsmálanna í alþingiskosningunum í október, er líka deyjandi afl í borginni. Það muna það kannski ekki allir en Björt framtíð var þriðji stærsti flokkurinn í borginni eftir kosningarnar 2014 en þá fékk flokkurinn 15,6% fylgi. Aðeins Samfylkingin með 31,9% og Sjálfstæðisflokkurinn með 25,7% fengu betri kosningu. Nú mælist Björt framtíð með 2,4% fylgi. Það er ekki hægt að rekja örlög Bjartrar framtíðar til stöðu flokksins í landsmálunum. Spilaborgin var byrjuð að hrynja löngu fyrir þingkosningarnar. Í könnun Viðskiptablaðsins í júní mældist flokkurinn til að mynda með 4,6%. Nærtækasta skýringin á fallinu er að S. Björn Blöndal er ekki Jón Gnarr og Björt framtíð er ekki Besti flokkurinn.

Þó Samfylkingin bæti sig á milli kannana, fer úr 22,3% í 25,7% þá er flokkurinn en vel undir kjörfylgi sínu. Niðurstaðan er því sú að meirihlutastarfinu er haldið á floti af VG og Pírötum. Báðir flokkarnir mælast með 13,3% fylgi, sem er vel yfir kjörfylgi flokkanna. VG fékk 8,3% í kosningunum og Píratar 5,9%. Staða VG er reyndar mjög áhugaverð því í könnuninni í júní mældist flokkurinn með 20,8% fylgi. Þá er eðlilegt að fólk spyrji hvað hafi gerst síðan þá. Það þarf engan stjórnmálafræðing til þess að benda á það. Einfalda svarið er að VG leiðir nú ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.

Píratar hafa líkt og VG oft mælst vel í könnunum. Má til dæmis rifja upp að flokkurinn mældist með 27,5% fylgi í könnun Gallup í september 2015, sem þýddi að Píratar voru stærstir í Reykjavík.

Það er alveg ljóst að ýmislegt á eftir að gerast í borgarmálunum á næstu mánuðum. Mikil hreyfing er á fylginu og hún á bara eftir að aukast því enn eiga nýju flokkarnir eftir að stimpla sig almennilega inn og ber þá helst að nefna Viðreisn, Flokk fólksins og Miðflokkinn. Þessir þrír flokkar gætu gjörbreytt hinu pólitíska landslagi í borginni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið í tilvistarkreppu í borginni. Eftir að hafa verið með um 50% fylgi frá miðri síðustu öld og til aldamóta fór að halla undan fæti í byrjun þessarar. Frá árinu 2006 og til ársins 2014 lækkaði fylgið úr 42% í 25,7%. Í kosningunum 2014 leiddi Halldór Halldórsson, sem verið hafði bæjarstjóri á Ísafirði, flokkinn. Hann náði engan veginn að feta stíginn í stjórnarandstöðu og mistókst algjörlega að reisa flokkinn við.

Leiðtogakjörið 27. janúar virðist hafa blásið lífi í Sjálfstæðisflokkinn. Eyþór Arnalds hefur verið óhræddur við að benda á nýjar leiðir og andmæla þeirri stefnu sem meirihlutinn hefur til dæmis í húsnæðismálum og samgöngumálum. Hafa ber í huga að könnunin, sem birtist í blaðinu, var gerði frá 4. til 31. janúar en Eyþór var kjörinn 27. janúar. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróuninni til kosninga.

Í talnagögnum Gallup kemur fram að einungis 65% þeirra sem kusu Samfylkinguna í kosningunum 2014 hyggjast gera það núna. Fyrir Sjálfstæðisflokkinn er þetta hlutfall 88%. Hægt er skoða ýmsar breytur í talnagögnunum. Það vekur til dæmis athygli að 19% kvenna segjast styðja VG en einungis 8% karla. Það er ekkert nýtt að það sé kynjahalli á stuðningsmönnum einstakra flokka en þessi munur verður samt að teljast óvenju mikill svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.