Nýlega óskaði jafnréttisráð eftir tilnefningum til fjölmiðlaviðurkenningar ráðsins 2015. Viðurkenningin verður veitt þeim sem skarað hafa fram úr í umfjöllun um mál sem tengjast jafnrétti kynjanna. Þetta er svo sem göfugt hjá ráðinu þó ég telji reyndar að það eigi að nýta tíma sinn í eitthvað annað en að verðlauna blaðamenn. Það eru ótal mál sem ættu frekar að vera á verkefnalista ráðsins.

Hlutverk Jafnréttisráðs er að starfa í nánum tengslum við Jafnréttisstofu. Það er sem sagt til heil stofnun, sem hefur beinlínis það hlutverk að reyna að jafna stöðu kynjanna. Það er tilfinning mín að Jafnréttisstofa sé frekar kvenlæg stofnun. Af sjö starfsmönnum er einn karl og sex konur. Stofnunin gæti til dæmis byrjað á að leiðrétta þennan mun, nú eða fært rök fyrir honum.

Launamisréttið hefur eðlilega tekið mikinn tíma frá jafnréttissinnum enda hallar þar enn of mikið á konur. Um það deilir held ég enginn hugsandi maður. Það er aftur móti líka mín tilfinning að of mikil orka fari í jafnréttismál á vinnumarkaði. Það er margt annað sem skiptir meira máli, til dæmis fjölskyldan og umgengni foreldra við börnin sín. Þar hallar á karlmenn.

Ég hefur áður bent á misréttið sem fólgið er í því að feður þurfi að greiða fyrir að fá að gista með barni sínu og konu á fæðingardeildinni. Gjaldið er auðvitað fullkomin tímaskekkja og sendir þau skilaboð að feður séu ekkert sérstaklega velkomnir á fæðingardeildina. Annað ótrúlegt mál er að þegar leikskólabarn þarf að fara í heildstætt þroskamat þá á móðirin að leggja mat á barnið og fylla út langan lista í heftaðri bók. Framan á þessari bók stendur „fyllist út af móður barns". Þetta er náttúrlega algjör della.

Það er skekkja í hugsun yfirvalda þegar kemur að jafnréttismálum sem snerta fjölskyldumál og börn. Í janúar var skipaður starfshópur sem átti að kanna hvernig jafna megi stöðu foreldra sem fara með sameiginlega forsjá barna. Hópurinn var skipaður fjórum konum og einum karli og stangast skipanin á við jafnréttislög, sem er ótrúlegt þegar maður pælir aðeins í því.

Árið 2008 skipaði ráðherra nefnd til að semja frumvarp til laga um breytingar á barnalögum en þessi lög taka á öllum réttindum barna og foreldra, þar á meðal forræði, lögheimili, umgengni og meðlagi. Nefndin var skipuð þremur konum og engum karli.

Frestur til að skila tilnefningum til fjölmiðlaviðurkenningar jafnréttisráðs rennur út á þriðjudaginn. Ég tilefni hér með þennan pistil til verðlaunanna.