*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Leiðari
25. apríl 2015 12:10

Fyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er allt of algengt að óbeinum afleiðingum lagasetningar sé enginn gaumur gefinn.

Haraldur Guðjónsson

Fyrst í stað hækkar leiguverð,“ segir Sigurður Jóhannesson hagfræðingur um afleiðingar þess ef húsaleigubætur verða hækkaðar til jafns við vaxtabætur, eins og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, vill gera. Fjallað var um það í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að ráðherrann vildi færa húsaleigubætur upp til jafns við vaxtabætur, sem þýðir allt að 50% hækkun húsaleigubótanna.

Sigurður heldur áfram: „Líklega breytist framboð á leiguhúsnæði lítið fyrst um sinn. Það þýðir að hækkun leigu étur upp stóran hluta af hækkun bóta.“

Þetta er stóri vandinn við margar af þeim aðgerðum sem stjórnvöld beita til að leiðrétta eitthvert raunverulegt eða ímyndað misrétti í samfélaginu. Lækningin getur orðið hættulegri en sjúkdómurinn sjálfur. Þegar ákveðið var að hækka hámarkslánshlutfall Íbúðalánasjóðs á miðjum síðasta áratug leiddi það til þess að húsnæðisverð hækkaði. Afleiðingum slíkra aðgerða, hvort sem þær eru í formi hærra lánshlutfalls, beinna styrkja eða bóta frá hinu opinbera, má líkja við verðbólgu á afmörkuðum markaði. Þegar allir kaupendur á markaði hafa 50.000 krónum meira á milli handanna, svo dæmi sé tekið af handahófi, en framboð eykst ekki, þá leiðir þetta að öðru óbreyttu til þess að verð hækkar um 50.000 krónur.

Þetta er kaldhæðnislegt í ljósi þess að margar tillögur af þessum meiði hvað varðar húsnæðismál eiga að auðvelda fólki að festa kaup á sinni fyrstu íbúð. Það stendur engin ung manneskja betur ef ríkið færir henni 50.000 króna styrk til að kaupa íbúð sem er 50.000 krónum dýrari fyrir vikið.

Það er allt of algengt að óbeinum afleiðingum lagasetningar sé enginn gaumur gefinn. Nánast er eins og að stjórnmálamenn séu skeytingarlausir um raunverulegar afleiðingar lagabreytinga og hugsi aðeins um að gefa „rétt skilaboð“ með lagasetningunni. Lagasetning á ekki að vera hluti af almannatengslum stjórnmálamanna eða -flokka, en er það allt of oft.

Íslenskir stjórnmálamenn eru langt frá því að vera einir sekir um þessa afleitu nálgun á starfsskyldur sínar. Mikið hefur rætt um það í Bandaríkjunum síðustu ár að kostnaður við háskólanám þar sé orðinn svo mikill að liggi við bólu á þeim markaði. Ein stór ástæða fyrir þessu er sú að opinberir aðilar hafa veitt styrki til háskólanáms og eru styrkirnir ákveðin fjárhæð og er ætlast til þess að nemendurnir brúi bilið á milli styrksins og raunverulegs námskostnaðar. Þessir styrkir hafa farið hækkandi í takt við hækkandi námskostnað án þess að stjórnmálamenn velti því fyrir sér hvert orsakasambandið þar sé á milli.

Hugsanlega eru leiðir fyrir íslenska ríkið til að létta byrðar leigjenda hér á landi, en það verður ekki gert með þessum hætti. Verð ræðst af framboði og eftirspurn. Tilraunir til að stíga inn í það ferli hafa sjaldnast gefist vel, en mjög oft illa. Sem betur fer eru fáir hér sem vilja frysta leiguverð eða takmarka það með öðrum hætti með lagasetningu, en tillögur ráðherrans eru ekki mikið heppilegri.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is