Mikið hefur verið rætt og ritað um áhrif innrásar Rússa inn í Úkraínu á alþjóðlega hrávörumarkaði. Íslendingar, líkt og aðrar þjóðir, eru farnir að finna smjörþefinn af þeim verðhækkunum sem framundan eru.

Sú óvenjulega staða er nú komin upp að verðbólga á Íslandi er með því lægsta sem mælist í heiminum. Sömu kraftar eru að verka til verðhækkana um allan heim um þessar mundir – matvælaverð og orkuverð.

Íslendingar finna fyrir sömu hækkunum á matvælum og aðrar þjóðir. Hins vegar er áhugavert að líta til hvernig orkuverð mótar verðbólguna um allan heim. Það mælist meiri verðbólga í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og á Spáni og Ítalíu, en á Íslandi. Öll eiga þessi lönd (utan Íslands) sameiginlegt að vera afar háð jarðgasi eða kolum við raforkuframleiðslu.

Hins vegar er minni verðbólga í Noregi, Svíþjóð og Frakklandi. Í Noregi er mikið af uppsettu vatnsafli og Frakkland er að mestu keyrt áfram á kjarnorku. Svíþjóð nýtir bæði vatnsafl og kjarnorku. Hækkanir á orkuverði hafa því ekki komið jafnilla við þau ríki.

Raforkuverð stýrir verðbólgunni

Það er því ekki hráolíuverð sem er ráðandi í verðbólguþróun í löndum heims um þessar mundir, heldur miklu heldur raforkuverð. Vissulega hefur hækkandi olíuverð haft áhrif til aukinnar verðbólgu um allan heim, en þau áhrif dreifast tiltölulega jafnt. Einnig má nefna að hráolíuverð er ennþá ríflega þriðjungi lægra að raunvirði en þegar það náði hámarki sínu 2008, skömmu áður en fjármálakreppan hófst. Skattar eru þar að auki svo stór hluti af smásöluverði kolefnisorkugjafa í hinum vestræna heimi að verðhækkun hráolíu hefur ekki sömu, hörðu áhrif og oft áður. Heimshagkerfið er því, enn sem komið er, nokkuð frá sársaukamörkum þegar kemur að hráolíuverði.

Þeir sem brenna kolum og gasi finna mikinn sársauka, en raforka sem framleidd er með kjarnorku og vatnsafli og vindi lýtur ekki sömu lögmálum. Þar erum við Íslendingar stikkfrí, í það minnsta í bili.

Matvælaverðbólgan er, eins og áður sagði, þáttur sem ekki verður komist undan hér á landi frekar en annars staðar. Skammtímaáhrifin felast í þeim vörum sem Úkraína og Rússland flytja út. Þar er helst um að ræða landbúnaðarafurðir á borð við hveiti, bygg og sólblómaolíu, en stór hluti útflutnings á heimsvísu kemur frá þessum löndum.

Í Úkraínu er vinna við uppskeru og sáningu nú illmögulegur. Allar hafnir landsins hafa lokast og flutningur á sjó því ekki inni í myndinni. Þrátt fyrir að lestarsamgöngur frá Rússlandi séu í lagi í mörgum tilfellum eru Rússar einnig háðir úkraínskum höfnum. Þó svo að einhverjar útflutningshafnir yrðu opnaðar í Svartahafi þá myndu fá ef engin skipafélög vilja sækja farm þangað.

Stærsti áhrifaþátturinn á landbúnaðarmarkaði snertir allan heiminn, en það er áburður. Rússland og Hvíta-Rússland eru stærstu áburðarframleiðendur heims. Viðskiptabann hefur verið í gildi gagnvart Hvítrússum síðan í júní 2021 og Rússland er nú í sömu sporum. Kínverjar framleiða köfnunarefnisáburð úr kolum en hafa sett á útflutningsbann.

Áburðarframleiðsla er orkufrek og jafnframt er helsta hráefnið í vissum tegundum áburðar jarðgas. Evrópskir áburðarframleiðendur voru margir hverjir þegar lentir í vandræðum síðasta haust og lokuðu sumir hverjir vegna hækkandi gasverðs.

Verðbólgan verður þrálát

Engar líkur eru á að staðan lagist til skemmri tíma þar sem Evrópusambandið hefur ákveðið að draga úr innflutningi á gasi frá Rússlandi um tvo þriðju fyrir árslok og alfarið láta af innflutningi af kolum á næstu þremur mánuðum. Í staðinn verður fljótandi jarðgas flutt inn frá Bandaríkjunum. Að viðbættri nauðsynlegri innviðafjárfestingu til að taka við þeim innflutningi er bandarískt jarðgas eðli málsins töluvert dýrara til notkunar í Evrópu en rússneskt. Miklu hærra orkuverð en álfan á að venjast er því komið til að vera í Evrópu ef heldur fram sem horfir.

Samkvæmt tölum Alþjóðabankans hefur áburðarverð á heimsvísu tvöfaldast á fyrsta ársfjórðungi frá lokum síðasta árs og margfaldast frá árinu 2019. Þeirra áhrifa mun gæta í landbúnaði um allan heim, en þegar hafa borist fréttir af því að bændur í Norður- og Suður-Ameríku þurfi nú að velja á milli þess að nota áburð eða skordýraeitur vegna hækkandi kostnaðar hvors tveggja.

Sama hvor leiðin er valin eru verðhækkanir og minni uppskera alltaf afleiðingin. Því má telja líklegt að heimshagkerfið sé statt í aðeins fyrstu bylgju þeirra verðhækkana sem eru nú í pípunum.

Höfundur er hagfræðingur og hefur starfað við greiningar á hrávörumörkuðum.