*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Huginn og muninn
21. nóvember 2020 10:01

Gaf álitsgjöfum falleinkunn

Seðlabankastjóri gefur lítið fyrir gagnrýni á störf sín. Sumir óttuðust að hann væri uppteknari við jólabókaflóðinu en stefnu bankans.

Gígja Einars

Þrýst hefur verið á Seðlabankann síðustu vikur að beita sér með kaupum á ríkisskuldabréfum líkt og bankinn boðaði í vor, sem á mannamáli má kalla peningaprentun. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur ekki viljað tjá sig um málið opinberlega undanfarnar vikur.

Einhverjir innan fjármálageirans hafa velt því fyrir sér hvort Ásgeir væri fremur með hugann við jólabókaflóðið. Hann var að gefa út bók um sveitunga sinn, Jón Arason, síðasta kaþólska biskupinn á Hólum í Hjaltadal, sem var hálshöggvinn árið 1550.

Ásgeir gaf ekki mikið fyrir gagnrýni á störf sín á kynningarfund Seðlabankans í vikunni vegna vaxtaákvörðunar og hélt ítarlega tölu yfir hagfræðingum greiningardeildanna. Gamli háskólakennarinn gaf flestum þeim sem tjáð sig hafa um málið að undanförnu falleinkunn. Seðlabankastjóri sagði skorta á skilning á peningahagfræði í smáum opnum hagkerfum eins og Íslandi.

Það væri algjör misskilningur að Seðlabankinn væri orðinn barnapía fyrir skuldabréfamarkaðinn sem oft sé hálf móðursjúkur. Hækkun vaxta væri ekkert sérstakt áhyggjuefni og tól Seðlabankans virkuðu ágætlega. Það gerist ekki oft að seðlabankastjóri sé svo orðhvass í garð þeirra sem rýna í störf bankans.

Þá sagði Ásgeir mikilvægt að fyrirsjáanlegur halli ríkissjóðs á næstunni yrði nýttur í meira mæli til fjárfestinga til að undirbyggja hagvöxt til framtíðar en ekki með tekjutilfærslum milli hópa. Tala þyrfti af ábyrgð um hvernig þetta fé væri nýtt. „Þetta eru peningar okkar skattborgaranna,“ sagði Ásgeir. Hrafnarnir taka heils hugar undir það.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.