*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Leiðari
27. júlí 2018 12:22

Gagnsæi á hlutabréfamarkaði

Það er augljóslega ekki markmið nýrra persónuverndarlaga að þau komi í veg fyrir að íslenskur hlutabréfamarkaður sé virkur og gagnsær.

Páll Harðarson er forstjóri Kauphallar Íslands sem hætti nýverið að gefa út lista yfir tuttugu stærstu hluthafa skráðra félaga.
Haraldur Guðjónsson

Verulegar breytingar urðu óvænt á íslenskum hlutabréfamarkaði þegar Kauphöllin, Nasdaq á Íslandi, tilkynnti að hún myndi ekki framar birta og senda út lista yfir 20 stærstu hluthafa í skráðum hlutafélögum með hlutabréf sín í opnum viðskiptum á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar. Ástæðan var hin nýju og víðtæku persónuverndarlög, en Kauphöllin telur að það fyrirkomulag, sem fylgt hefur verið um birtingu listanna, samræmist lögunum ekki.

Ekki skal efað að Kauphöllin hefur rétt fyrir sér um að birting listanna kunni að brjóta í bága við persónuverndarlögin, þó að í þeim kunni einnig að finnast viðeigandi undanþáguákvæði. Eftir stendur að þorri viðskipta í Kauphöllinni á sér stað milli lögaðila og því fráleitt að ákvæði persónuverndarlaga standi birtingu á hluthafalistum hvað þá varðar fyrir þrifum.

Kauphöllin hefur bent á að félögin sjálf geti samt sem áður haldið og birt lista sína, en þurfi þá að leita samþykkis viðkomandi hluthafa. Það kann að vera fræðilegur möguleiki á því, en það myndi reynast þungt í vöfum og útiloka að hlutaskráin væri rétt frá degi til dags. Eins mætti taka upp breytta viðskiptaskilmála í Kauphöllinni, þar sem einstaklingar afsöluðu sér persónuvernd í afmörkuðum tilgangi vegna viðskipta með bréf í skráðum félögum, en það er einnig löng og tímafrek leið að einföldu markmiði.

Viðskipti með skráð verðbréf eru sérstök eins og kemur fram í orðinu „skráð“. Þar ræðir um viðskipti og fjármögnunaraðferð, sem er beinlínis háð því að þau séu skráð, eigi sér stað fyrir opnum tjöldum og að aðilar á markaði – hvort heldur ræðir um stóra sjóði eða þau Jón og Gunnu – hafi jafnan og greiðan aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um félögin. Það á ekki síður við um það hverjir hafa þar tögl og hagldir en hvernig rekstri og fjárhag félaganna er háttað.

Tilgangur persónuverndarlaganna er skýr og markmiðin ágæt. En það er augljóslega ekki markmið laganna, heldur ófyrirætluð afleiðing, að þau komi í veg fyrir að íslenskur hlutabréfamarkaður sé virkur og gagnsær, líkt og hér virðist hafa gerst.

Óli Björn Kárason, stofnandi þessa blaðs, nú þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hefur sent Persónuvernd fyrirspurn um hvort ný persónuverndarlög vinni gegn gegnsæi og miðlun upplýsinga af þessu tagi. Það er þörf fyrirspurn, ekki síst eftir á daginn er komið að Kauphöllin lét undir höfuð leggjast að leita ráða hjá Persónuvernd um þessi mál.

Þingmaðurinn minnti á að undir lok liðinnar aldar hafi það tekið mörg ár að sannfæra forráðamenn helstu fyrirtækja landsins um að birta hluthafaupplýsingar, en að atvinnulífinu hafi orðið ljós nauðsynin á gagnsæi um helstu hluthafa. Það sé enda ein af forsendum þess að hér á landi sé virkur og lífvænlegur hlutabréfamarkaður, greið og kvik fjármögnun öflugs atvinnulífs, að upplýsingar um eigendur og hvernig eignarhaldi sé háttað séu opinberar. Þetta er hárrétt athugað hjá Óla Birni og Viðskiptablaðið tekur heils hugar undir þá skoðun hans, að komi ný persónuverndarlög í veg fyrir gegnsæi á hlutabréfamarkaði, þá verði að breyta lögunum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is