*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Týr
5. október 2018 10:18

Gagnsætt siðferði

Gagnsæi er til lögheimilis í Háskóla Íslands, þó ekki verði séð að Gagnsæi hafi skipulagsleg tengsl við HÍ.

Haraldur Guðjónsson

Ein tillagna starfshóps Jón Ólafssonar háskólaprófessors um siðareglur fyrir stjórnmálin er að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands sjái til þess að kjörnir fulltrúar fari að öðrum ráðum starfshópsins um hvernig landinu skuli stjórnað. Fyrir nú utan hvað það er skrýtið að leggja það til að almenningur borgi brúsann fyrir lobbýisma, þá lýsir þetta annarlegri sýn á lýðræðið. Þingmenn (þessir sem eiga að fara að samvisku sinni en ekki utanaðkomandi þrýstingi) eiga eftir allt frekar að vera ábyrgir gagnvart Jóni & co. en kjósendum.

Önnur tillaga var að lobbýistar yrðu að skrá sig. Jón verður þá kannski fyrstur til að skrá sig sem lobbýista Siðfræðistofnunar, en hennar helsta afrek liðin ár var að heimta að þjóðin yrði gerð ábyrg fyrir Icesave til þess að veita henni lexíu! Sjálf hefur Siðfræðistofnun hins vegar ekki staðið sig í upplýsingagjöf um eigin mál, því ekki er stafur um fjármálin á vef hennar og ársskýrslur fyrir 2016 og 2017 óbirtar. Pukur og leyndarhyggja, myndi Týr kannski segja ef hann væri gáfumenni á Kjarnablogginu.

Sjálfur er Jón Ólafsson formaður Gagnsæis sem nefna sig „samtök gegn spillingu" en er lítið annað en enn ein sýndarsamtök vinstrimanna til að fleyta mönnum í viðtal við Spegilinn, Silfrið, Víðsjá og Samfélagið. Í ársreikningi þeirra fyrir árið 2016 (ársreikning 2017 vantar enn) kemur í ljós tekjuliðurinn „styrkir" að fjárhæð kr. 375.000, án þess að gerð sé grein fyrir hverjir styrktu. Spilling, myndi Týr hrópa ef hann væri virkur í athugasemdum.

Gagnsæi er til lögheimilis í Háskóla Íslands, þó ekki verði séð að Gagnsæi hafi skipulagsleg tengsl við HÍ. Hýsir háskólinn pólitísk samtök svona almennt? Ef Týr væri að skrifa í Stundina myndi hann orða það sem svo að samkvæmt áður óbirtum gögnum, sem Stundin hafi undir höndum, hafi umdeild samtök svindlað sér í háskólann. Birta með heilsíðumynd af Jóni gretta sig á Samfylkingarfundi með Panamagjaldkerann að kynna ársreikning í bakgrunni.

Við flakk um vef Gagnsæis rak Týr augun í að varaformaður þessara miklu samtaka gegn spillingu er maður sem varð þjóðkunnur um árið fyrir að skrifa pólitíska níðgrein í Morgunblaðið undir fölsku nafni og við mynd af erlendum manni. Sú siðfræði er glær fremur en gagnsæ.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.