*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Týr
6. apríl 2014 10:29

Galin frumvörp

Almennt er ekki þess virði að elta ólar við lagafrumvörp einstakra þingmanna.

Svandís Svavarsdóttir.
Haraldur Guðjónsson

Almennt er ekki þess virði að elta ólar við lagafrumvörp einstakra þingmanna, einkum stjórnarandstöðuþingmanna, því þau verða sjaldnast að lögum. Tvö frumvörp vöktu þó athygli Týs í vikunni af mismunandi ástæðum þó. Fyrst ber að nefna frumvarp Jóns Þórs Ólafssonar um breytingu á samningalögunum þar sem færa á Neytendastofu eftirlit með ákvæðum 36. gr. laganna, en þessi grein fjallar með mjög almennum hætti um „ósanngjörn“ ákvæði í samningum. Þegar þessu ákvæði var bætt í lögin árið 1995 sætti mikilli gagnrýni vegna þess að það þótti vega með mjög harkalegum hætti að samningsfrelsinu.

Erfitt er að sjá að samningsfrelsinu sé mikill greiði gerður með því að færa þetta ákvæði í raun frá dómstólum til stjórnvalds í tilviki neytendasamninga. Samkvæmt frumvarpi þingmannsins eiga ákvarðanir Neytendastofu í þessum málum að vera bindandi og í raun myndi þetta þýða að mjög erfitt væri fyrir deilendur að bera efnisatriði máls undir dómstóla. Langeðlilegast er að telji fólk á sér brotið í samningsgerð þá leiti það réttar síns hjá dómstólum eins og vera ber í réttarríki. Telji þingmenn að dómurum sé ekki treystandi fyrir deilumálum sem þessum er vandamálið stærra en svo að það verði leyst með því að fela stjórnvaldsstofnunum hlutverk þeirra.

Eins og áður segir er ólíklegt að frumvarpið verði að lögum, en vekja ber athygli á hugmyndum sem þessum, hversu vel meinandi þeir eru sem bera þær á borð.

Hitt frumvarpið kemur frá þingmönnunum Svandísi Svavarsdóttur, Steinunni Þóru Árnadóttur og Bjarkeyju Gunnarsdóttur, en það felur í sér að öllu útsendu sjónvarpsefni á Íslandi eigi að fylgja íslenskur texti. Aftur gerir Týr ekki athugasemdir við tilganginn með lagafrumvarpinu, enda er því ætlað að rétta stöðu heyrnarlausra og heyrnarskertra. Hann grunar hins vegar að fjárhagslegum áhrifum lagasetningar sem þessarar á fjölmiðlafyrirtæki hafi lítill gaumur verið gefinn við samningu frumvarpsins.

Það er eitt fyrir stórar sjónvarpsstöðvar eins og Ríkissjónvarpið og Stöð 2 að fylgja slíkum reglum, en fjölmiðlafyrirtækin eru sem betur fer fleiri en tvö. Margir smærri miðlar senda út sjónvarpsefni, hvort sem um er að ræða hreinar og klárar sjónvarpsstöðvar eins og SkjáEinn og Miklatorg, eða prentmiðla eins og Viðskiptablaðið og Morgunblaðið. Kostnaður við textun þyrfti ekki að vera mikill til að hann leiddi til þess að útsendingu á slíku efni yrði sjálfhætt.

Varla er það tilgangur frumvarpsins?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.