*

miðvikudagur, 21. apríl 2021
Týr
3. apríl 2021 10:02

Gallaðar siðareglur?

„Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en að starfsfólkið, sem nú gagnrýnir reglurnar, hafi sjálft sett þær.“

Aðsend mynd

Píratar eru iðnir við að saka aðra stjórnmálamenn um spillingu eða aðra misbresti. Það kom því vel á vondan þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, braut blað í sögu Alþingis þegar hún varð fyrsti þingmaðurinn til að brjóta siðareglur Alþingis. Þingflokkur Pírata brást við með því að segja að hún hefði ekkert gert rangt, reglurnar væru bara gallaðar. Þar með var því máli lokið og það má ekki ræða frekar.

* * *

Nú hefur siðanefnd RÚV komist að þeirri niðurstöðu að starfsmaður ríkisfjölmiðilsins hafi gerst brotlegur við siðareglur RÚV með skrifum sínum á samfélagsmiðlum. Viðbrögðin nú ríma við viðbrögð Pírata, það er ekkert að hegðun viðkomandi heldur eru reglurnar gallaðar.

* * *

Þessi viðbrögð vekja athygli því í formála að siðareglum RÚV segir að til þess að „stuðla að faglegum vinnubrögðum, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og auka traust setur starfsfólk Ríkisútvarpsins sér siðareglur". Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en að starfsfólkið, sem nú gagnrýnir reglurnar, hafi sjálft sett þær. Af hverju er það fyrst nú, þegar siðanefnd hefur úrskurðað, að krefjast breytinga?

* * *

Greinin sem starfsmaðurinn braut gegn hljóðar svo: „Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólítísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum." Týr er þeirrar skoðunar að stíga eigi varlega til jarðar í að skerða tjáningarfrelsi. Hins vegar búa ýmsar stéttir við reglur sem skerða tjáningarfrelsi þeirra og brjóti þær þessar reglur þá getur það í mörgum tilfellum skapað vanhæfi. Þetta þurfa fréttamenn RÚV að hafa í huga. Þeir, eins og aðrir blaðamenn, geta auðveldlega gert sig vanhæfa til þess að fjalla um ákveðna menn eða málefni.

* * *

Í gær bárust fréttir af því að útvarpsstjóri og stjórn RÚV hefðu látið undan þrýstingi og ætli að ráðast í endurskoðun á siðareglunum. Heilt yfir er það ekki til eftirbreytni að breyta reglum séu þær brotnar. Gera verður þær kröfur til starfsmanna stofnunar, sem býr við þann munað að fá 5 milljarða af almannafé árlega, að þeir geti sett sér einfaldar siðareglur og farið eftir þeim. Það er líka ágætt að sýna almenna skynsemi á samfélagsmiðlum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.