*

þriðjudagur, 24. nóvember 2020
Týr
8. nóvember 2020 12:03

Gangi þér vel, Svanhildur

Týr hefur trú á að Svanhildur Hólm rífi Viðskiptaráð upp úr kulnun sinni, ef 38 manna stjórn ráðsins þorir.

Svanhildur Hólm Valsdóttir tekur við starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands.
Gígja Einars

Svanhildur Hólm Valsdóttir er að taka við starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands. Týr átti eftir að óska henni til hamingju með starfið og gerir það hér með.

                                                                   ***

Týr er nokkuð áhugasamur um starfsemi Viðskiptaráðs og hefur áður fjallað um ráðið hér í þessum dálki. Í byrjun árs 2018 velti Týr því fyrir sér hvort Viðskiptaráð væri orðið tilgangslaust og gekk svo langt að segja að Viðskiptaráð væri orðið að „hugveitu án hugmynda". Einhverjum kann að þykja sú fullyrðing ómálefnaleg. Þá má á móti spyrja: hvenær lagði síðasta Viðskiptaráð fram hugmynd eða stefnu sem tekin var til alvarlegrar umræðu eða hafði yfirhöfuð einhver áhrif á þjóðfélagsumræðu?

                                                                   ***

Í stjórn Viðskiptaráðs sitja 38 manns, meginþorri forstjóra og stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins. Týr fær ekki séð að svo stór hópur skili af sér afkastamikilli hugmyndavinnu um það hvernig best sé að styðja við og efla hið frjálsa markaðshagkerfi. Flestir forstjórar vilja frið og ró við störf sín og kæra sig lítið um að rugga bátum, hvað þá pólitískum. Fátt hræðir þá meira en frétt á vinstri sinnuðum fjölmiðli um að þeir sjálfir hafi einhver afskipti af pólitík eða hafi pólitískar skoðanir yfirhöfuð. Fyrir vikið er Viðskiptaráð orðið að nokkurs konar kaffiklúbbi þar sem fólk kemur saman og skilur ekkert í því að skattar skuli ekki lækka, að stjórnsýslan skuli stækka og að enginn sé að berjast fyrir hagsmunum frelsisins.

                                                                   ***

Þess heldur ætti 38 manna stjórnin að fela starfsfólki Viðskiptaráðs að taka slaginn í víðu samhengi. Á móti kemur að um árabil hefur ungt fólk litið á starf hjá Viðskiptaráði sem nokkurs konar stökkpall fyrir frekari frama í atvinnulífinu. Það er gefandi að vinna hjá ráðinu, mynda tengsl við alla þessa stjórnendur og passa sig að vera nógu óumdeild/ur til að einhver þeirra vilji ráða þig í vinnu síðar.

                                                                   ***

Týr gerir ekki athugasemd við að fyrirtæki greiði aðildargjöld í þennan fína klúbb kjósi þau að gera það. Samtök atvinnulífsins hafa frá því að Halldór Benjamín Þorbergsson var ráðinn framkvæmdastjóri beitt sér af miklum þunga í hugmyndafræðilegri baráttu fyrir frjálsa markaðshagkerfið og geta gert það áfram. Týr hefur þó trú á því að Svanhildur Hólm rífi Viðskiptaráð upp úr þessari kulnun, það er ef 38 manna stjórnin þorir. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.