Við búum nú í draumaheimi vinstrimanna. Ríkið á tvo banka, minnihluta í þeim þriðja og hálfan sparisjóð. Þetta er óeðlilegt ástand. Ríkið á ekki að reka fyrirtæki, sérstaklega ekki þau sem standa í samkeppnisrekstri. Íslenskir vinstrimenn líta oft á eignarhald sem stjórntæki. Þannig finnst þeim að ríkið þurfi að eiga eignir og fyrirtæki til að geta stjórnað í gegnum þau.

Eignarhald ríkisins á fyrirtækjum skapar óþarfa áhættu fyrir skattgreiðendur og skekkir samkeppnisstöðu, neytendum til tjóns. Rekstrarábyrgð er gríðarlega langt frá endanlegum eigendum sem þýðir að fyrirtækin eru líklegri til að vera verr rekin, skila minni skatttekjum, lægra framlagi til þjóð­ arframleiðslu, lægri gjaldeyristekjum og skapa færri störf. Þrátt fyrir allt þetta virðist vera lítil stemning fyrir einkavæðingu, bæði meðal almennings og á þingi. Þá er uppi hávær og eðlileg krafa um að sala fari fram með opnum og gagnsæjum hætti og að jafnræðis sé gætt, eftir Borgunarklúðrið.

Því vaknar sú spurning hvort ekki sé eðlilegast að skrá bankana í kauphöllina og ráðstafa hlutabréfum ríkisbankanna beint til þjóðarinnar. Hver og einn Íslendingur gæti þá ákveðið hvort hann vilji eiga bréfin áfram og hirða af þeim arð eða selja þau í gegnum kauphöllina, jafnvel til að greiða niður skuldir. Stór hluti, eða allt að 100 milljarðar, gæti skilað sér fyrr eða síðar í ríkissjóð í formi fjármagnstekjuskatts við sölu hlutabréfanna. Sé tekið mið af bókfærðu eigin fé fjármálafyrirtækjanna má reikna með að virði hlutabréfa ríkisins væri um 2,5 milljónir á hvert heimili að meðaltali. Sú fjárhæð gæti verið enn hærri ef fleiri ríkisfyrirtækjum væri ráðstafað með sama hætti. Hvaða heimili væri ekki til í nokkrar milljónir í beinhörðum rafrænum hlutabréfum? n