*

mánudagur, 13. júlí 2020
Týr
2. júlí 2018 10:01

Gegnsæi í Ráðhúsinu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur, líkt og fleiri stjórnmálamenn, talað fallega um gegnsæja stjórnsýslu, en það er þó ekki að merkja af störfum hans að honum sé hún mjög hugleikin nema á tyllidögum.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Haraldur Guðjónsson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur, líkt og fleiri stjórnmálamenn, talað fallega um gegnsæja stjórnsýslu, en það er þó ekki að merkja af störfum hans að honum sé hún mjög hugleikin nema á tyllidögum. Þetta kom vel í ljós á fyrsta fundi nýkjörinnar borgarstjórnar, þar sem hverri tillögunni á fætur annarri var að hans ráði vísað til nefnda og ráða borgarinnar. Öfugt við fundi í borgarstjórn eru fundir ráða og nefnda borgarinnar lokaðir og aukin heldur hvílir trúnaður á þeim. Borgararnir geta því ekki vitað hvernig umfjöllun þeirra er háttað eða með hvaða hætti kjörnir trúnaðarmenn þeirra ganga þar fram. 

Vitanlega er þar stundum fjallað um trúnaðarmál, en það eru undantekningar. Það er sjálfsagt að loka fundum þegar svo háttar, en það á fráleitt við um alla fund, allan fundartímann, alltaf. Trúnaðurinn er ætlaður til hlífðar einstaklingum, sem fjallað er um, en hann er helst notaður sem skálkaskjól stjórnmálamanna til þess að hafa uppi ofríki og ómerkilegan málflutning, persónuárásir eða henda gaman að langveiku fólki, eins og borgarstjóra þótti svo fyndið á dögunum. Það er ömurlegt afspurnar. Virðing stofnana samfélagsins hefur mjög farið þverrandi á undanförnum árum, en leiðin til þess að auka hana á ný felst ekki í virðingarleysi innan þeirra og með því að sveipa stjórnsýsluna leyndarhjúp gagnvart almenningi. 

Það er þó ekki þannig að allan trúnað þurfi að virða í Ráðhúsinu. Það kom í ljós á dögunum þegar embættismönnum þess þótti við hæfi að greina meirihlutanum frá pólitískum áformum minnihlutans. Þeir verða að átta sig á því að þeir eru þjónar almennings, ekki pólitískra húsbænda hverju sinni. Þeir eiga ekki, mega ekki, skipta sér af pólitískum umræðum kjörinna fulltrúa. Sé þeim það ómögulegt ættu þeir að finna sér annan starfsvettvang. Furðulegt „minnisblað“ Helgu Bjarkar Laxdal, skrifstofustjóra borgarstjórnar, þar sem hún les borgarfulltrúum pistilinn af þessu tilefni, bendir til þess að hún átti sig ekki vel á stöðu sinni. Það væri ráð að yfirmaður hennar, borgarstjórinn í Reykjavík, geri Helgu Björk grein fyrir henni. Sem væri í þokkabót fyndið ef það er rétt að hún hafi samið það að frumkvæði hans.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.