Það er hlutverk ríkisins að tryggja umgjörð um fjármálakerfið sem dregur úr óhóflegri áhættu og kostnaði skattgreiðenda. Ríkið átti vitaskuld að gegna þessu sama hlutverki fyrir rúmum áratug, en brást. Ísland var ekkert einsdæmi hvað það varðar. Dæmin mátti finna víða.

Af þessum sökum er er skiljanlegt að margir telji að forsenda fyrir áframhaldandi stöðugleika í íslenska fjármálakerfinu sé að ríkið fari með ríkjandi eignarhlut í bankakerfinu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ríkið er meirihlutaeigandi í bankakerfinu á Íslandi.

Eftir gjaldþrot Íslandsbanka árið 1930 var grunnur lagður að bankakerfi með þremur stórum bönkum í ríkiseigu, Útvegsbankanum, Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Í hálfa öld var bankakerfið að stórum hluta í höndum ríkisins. Á þeim tíma urðu litlar framfarir í íslenskum fjármagnsviðskiptum. Eignarhald ríkisins reyndist engin trygging fyrir því að bankarnir kæmust hjá fjárhagsvandræðum.

Seint á níunda áratug síðustu aldar varð Útvegsbankinn gjaldþrota. Bankinn var í framhaldinu endurreistur af ríkinu í formi hlutafélags og sameinaðist Alþýðubankanum, Iðnaðarbankanum og Verslunarbankanum í Íslandsbanka árið 1990.

Bankinn var öflugur og veitti ríkisbönkunum harða samkeppni sem þeir höfðu ekki búið við áður. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mat sem svo að hreinn kostnaður ríkissjóðs við fall bankanna þriggja í fjármálahruninu hefði verið 19 prósent af landsframleiðslu á tímabilinu 2008-2011.

Sá kostnaður var að fullu endurheimtur nokkrum árum síðar m.a. með tilkomu stöðugleikaframlaga slitabúa. Tap fyrrum eigenda og kröfuhafa bankanna nam aftur á móti þúsundum milljarða króna. Það var því lán í óláni að eignarhaldið var ekki í höndum ríkisins þegar alþjóðlega fjármálakreppan skall á fyrir rúmum áratug.

Nú þegar umgjörð bankakerfisins hefur tekið miklum breytingum, með stífari reglum og hertu eftirliti, er einmitt tímabært að losa um eignarhlut ríkisins í íslensku bankakerfi. Ríkissjóður á ekki að standa í áhættusömum bankarekstri. Við erum reynslunni ríkari. Umhverfið er gerbreytt. Tíminn til að sleppa takinu er núna.

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.