*

þriðjudagur, 16. júlí 2019
Örn Arnarson
14. september 2018 15:01

Gilda önnur efnahagslögmál á Íslandi?

Einn af forsætisráðherrum Íslands lét eitt sinn þau orð falla að hefðbundin efnahagslögmál gilda ekki á Íslandi. Þessi skoðun er furðu lífseig meðal íslenskra stjórnmálamanna og annarra áhrifamanna.

Haraldur Guðjónsson

Einn af forsætisráðherrum Íslands lét eitt sinn þau orð falla að hefðbundin efnahagslögmál gilda ekki á Íslandi. Þessi skoðun er furðu lífseig meðal íslenskra stjórnmálamanna og annarra áhrifamanna. Ágætt dæmi um þetta sást á dögunum þegar þingmaður fór mikinn í fjölmiðlum og furðaði sig á að afnám tolla og vörugjalda á fatnaði hefði ekki skilað sér til neytenda.

Í stað þess að kanna sannleiksgildi þessarar fullyrðingar kröfðust fjölmiðlar svara talsmanna verslunarinnar. Betur hefði farið á því að þeir hefðu gert það fyrrnefnda. Svona í nafni sannleiksástar og upplýsingar almennings. Staðreynd málsins er sú – eins og auðvelt er að kynna sér af verðlagskönnunum – að afnám tolla og vörugjalda á skó og fatnaði hefur leitt til verulegrar verðlækkunar, sé almenn þróun verðlags og launa höfð til hliðsjónar. Hið sama gildir um verðþróun á innfluttum aðföngum á undanförnum árum vegna gengisstyrkingar krónunnar. Að því leyti hefur kaupmáttur aukist verulega, eins og margoft hefur fram komið.

Aftur á móti hefur launakostnaður vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Hann hefur þannig vaxið um 40% af raunvirði frá árinu 2012. Launakostnaður á hverja framleidda einingu hefur þannig aukist mun hraðar en í helstu viðskiptalöndum okkur og er í dag margfalt hærri en annars staðar þekkist. Í þeim ríkjum þar sem hefðbundin efnahagslögmál gilda leiðir slík þróun til örrar hrörnunar á samkeppnisfærni útflutningsgreina hagkerfisins og launakostnaðurinn skilar sér á endanum út í verðlag óháð þróun annarra kostnaðarliða.

Ef þessi hefðbundnu efnahagslögmál ríktu hér á landi mætti draga þá ályktun af efnahagsþróun undanfarinna ára, að leiðrétting sé rétt handan við hornið. Ekki væri ósennilegt að hún kæmi fram í gegnum veikingu á nafngengi krónunnar með tilheyrandi verðbólgu og almennum leiðindum. Við því þarf að bregðast með öllum ráðum og þar eru engir undanskildir, hvorki ríki, atvinnurekendur né launþegahreyfing.

Höfundur er sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is