Á undanförnum árum hafa fastgengismyntir (e. stablecoins) verið að ryðja sér til rúms í rafmyntaheiminum. Fastgengismyntir eru á einföldu máli staðgenglar hefðbundinna gjaldmiðla (e. fiat) í rafmyntaheiminum. Stærstu fastgengismyntirnar eru USDT og USDC en þær eru báðar festar við gengi dollara. Sá sem á dollara getur skipt yfir í þessa raf-dollara á genginu 1:1 og fært þannig fjármuni inn í rafmyntaheiminn. Sá sem á raf-dollara getur með sama skapi skipt yfir í dollar á genginu 1:1. Margir aðrir gjaldmiðlar hafa einnig verið færðir yfir í rafmyntaheiminnm, s.s. raf-evra (EUROC, EURT), raf-pund (GBPT) raf-franki (DCHF), raf-yen (GYEN), raf-yuan (TCNH), raf-rúpíur (IDRT), og svo mætti áfram telja. Rafmyntasjóður Íslands hefur nú gefið út íslenskar raf-krónur (ISKT) en það er rafmynt sem fest er við gengi íslensku krónunnar 1:1.

Rafmyntaútgáfa tryggð með krónum í eignasafni

Algengt er að útgefandi fastgengismyntar geymi fjárhæð í banka eða aðrar lausafjáreignir sem samsvara virði útgefinna rafmynta, þeim til tryggingar. Í tilviki ISKT er ein króna geymd í banka fyrir hvert útgefið ISKT á markaði hverju sinni. Til að skapa gagnsæi er óháður endurskoðandi sem kannar með reglubundnum hætti hvort að eignasafn standi undir útgefnu ISKT. Framangreind aðferðafræði samrýmist nokkuð vel drögum að reglugerð Evrópusambandsins um eignir á rafmyntamarkaði (MiCA) sem sætir nú meðferð hjá Evrópuþinginu og verður líklega kosið um í febrúar 2023.

Gjaldeyrisviðskipti í rafmyntaheiminum

Á rafmyntamörkuðum er nú er hægt að stunda viðskipti með rafkrónu (ISKT) á móti raf-dollara (USDC) en stefnt er að opnun fleiri markaða á næstunni. Rafmyntamarkaðir gera notendum kleift að stilla upp sínum eigin kaup- og sölutilboðum og geta aðilar því sjálfir ákveðið á hvaða verði þeir vilja stunda sín gjaldeyrisviðskipti í stað þess að vera bundnir við það verð sem bankarnir ákveða. Á rafmyntamarkaði raungerast svo viðskiptin þegar verðtilboð tveggja aðila mætast og uppgjör viðskiptanna verður sjálfvirkt. Algengt er að verðbil á milli kaup- og sölutilboða á gjaldeyri íslenskra banka sé um 0,65% en ekkert er því til fyrirstöðu að aðilar mætist á miðgengi á rafmyntamarkaði. Auk þessa eru rafmyntamarkaðir opnir 24 tíma sólarhrings allan ársins hring og aðilar því ekki bundnir af því að eiga gjaldeyrisviðskipti milli kl 8 og 16 á virkum dögum. Íslensk félög í inn/útflutningi kunna að sjá sér leik á borði að færa gjaldeyrisviðskipti sín yfir í rafmyntaheiminn þar sem meiri sveigjanleiki er til staðar og möguleikar á hagstæðari verðum.

Höfundur er einn stofnenda Rafmyntasjóðs Íslands.