Í Viðskiptablaðinu á fimmtudag fjallaði Óðinn um kosningaloforð Viðreisnar frá því fyrir alþingiskosningarnar í september um að Íslendingar myndu tengja krónuna við evru, líkt og Danir hafa gert, og það myndi færa okkur langþráðan stöðugleika.

Óðinn skoðaði því stöðuna í Danmörku þar sem Viðreisn segir að ríki stöðugleiki.

Hér er brot úr pistlinum frá því á fimmtudag.

Hvers vegna þegir Viðreisn nú?

Efnahagsmál snúast um daglegt líf okkar allra. Og við sjáum aftur mynd sem við þekkjum. Íslandsbanki spáir því að stýrivextir hækki um 2 prósentustig á næstu tveim árum. Það hækkar mánaðarlegar greiðslur af óverðtryggðu 40 m.kr. láni um 75.000 kr. Vextir eru margfalt hærri en á Norðurlöndunum. Þessi staða er hins vegar ekki lögmál heldur afleiðing af pólitískri stefnu. Viðreisn vill tengja krónuna við evru, líkt og Danir hafa gert. Það mun færa stöðugleika sem hér vantar og það mun lækka kostnað fólks við að eignast heimili og að reka það."

Úr aðsendri grein í Morgunblaðinu 25. september 2021.

Flestir húsnæðiseigendur í Danmörku taka fasta vexti á lán sín til langs tíma. Vextirnir voru að meðaltali 1,9% í upphafi ársins. Í dag eru þeir 4,9%.

Því er spáð að vextirnir muni hækka mun meira í haust og vetur. Bjartsýnir menn segja 7%, þeir svartsýnu allt að 9%. Hæst fóru húsnæðisvextirnir í Danmörku í 8,2% í júlí árið 2000.

En þá er ekki sagan öll. Danskir bankar spá því að húsnæðisverð muni lækka um 10-15% í Danmörku til loka árs 2023. Að nafnverði. Raunverðslækkanir gætu orðið mun meiri þar sem verðbólga í Danmörku mældist 8,9% í ágúst.

***

Gjaldþrota efnahagsstefna

Þessi tilvitnuðu orð eru úr grein Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar frá því fyrir rétt um ári síðan. Það má segja að þau hafi elst alveg sérstaklega illa.

Það er einfaldlega alrangt að tenging íslensku krónunnar við evru tryggi stöðugleika. Það sýna vaxtahækkanir í Danmörku og það sýna húsnæðisverðslækkanir í Danmörku einnig.

***

Ófær leið

Þess utan þá jarðaði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri þetta kosningamál Viðreisnar fyrir ári. Ásgeir mætti á Reikningsskiladag Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) sem fór fram rúmri viku fyrir kosningarnar.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn, 22. september 2022.