*

miðvikudagur, 14. apríl 2021
Óðinn
21. nóvember 2017 11:04

Gjaldþrot sósíalismans í Venesúela

Venesúela er nýjasta dæmið um skelfilegar afleiðingar sósíalískra tilrauna. Óðinn óttast að dæmin verði fleiri.

epa

Í vikunni voru fluttar fréttir af því að ríkissjóður Venesúela – ríkis sem býr yfir stærsta ónýtta olíuforða heims – gæti ekki staðið skil á 200 milljóna dala vaxtagreiðslum á tveimur erlendum skuldabréfum. Þá eru 420 milljóna dala afborganir á fjórum öðrum skuldabréfum komnar fram yfir gjalddaga. Það kom því fáum á óvart að matsfyrirtækið Standard & Poor’s skyldi hafa lækkað enn lánshæfiseinkunn ríkisins og telst það nú í valkvæðu greiðslufalli (e. selective default).

                               ***

Það eina sem kemur á óvart við þessar fréttir er að þetta skyldi ekki hafa gerst fyrr. Allt frá því að heimsmarkaðsverð á olíu tók djúpa dýfu um 2014-2015 hefur venesúelska ríkið verið afhjúpað sem einn versti hagstjóri heims.

                               ***

Alls ekki má þó falla í þá gryfju að kenna olíuverðinu einu um það hvernig fyrir landinu er komið. Fleiri ríki dæla upp olíu úr jörðu og selja á heimsmarkaði, en ekkert þeirra hefur upplifað skelfingarástand á borð við það sem nú ríkir í Venesúela.

                               ***

Samfélagslegar rústir

Byrjum á því að fara yfir það hvað er að gerast núna í landi, sem eitt sinn var það ríkasta í Suður-Ameríku. 

                               ***

Almenningur í Venesúela hefur ekki aðgang að brýnustu nauðsynjum á borð við vatn, mat eða heilbrigðisþjónustu annaðhvort vegna þess að óðaverðbólga hefur gert fé þess verðlaust eða vegna þess að glæpagengi hliðholl ríkisstjórninni stýra aðgenginu miskunnarlaust. Fólk er farið að flýja landið stríðum straumum og börn þjást af vannæringu.

                               ***

Verðbólgan í fyrra nam 800% og hagkerfið skrapp saman um 18,6%. Samkvæmt lífskjararannsókn sem gerð var í landinu í fyrra höfðu um 75% þjóðarinnar misst að meðaltali um 8,7 kíló vegna vannæringar. Morðtíðni í landinu var 90 á hverja 100.000 íbúa árið 2015, en var á sama tíma 5 á hverja 100.000 íbúa í Bandaríkjunum. 

                               ***

Árið 2015 voru aðeins 35% spítalarúma og um 50% skurðstofa í notkun vegna skorts á lyfjum og lækningatækjum. Malaría, sem hafði verið útrýmt í landinu árið 1961, er nú á ný orðin landlæg og árið 2013 voru um 300 af hverjum 100.000 íbúum landsins smitaðir af sjúkdómnum. Árið 2015 sagði í skýrslu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch að sjaldan hefði starfsfólk samtakanna séð aðgengi að bráðnauðsynlegum lyfjum hraka jafnhratt utan stríðssvæða. Þróunin hefur aðeins verið niður á við frá þessum tíma. Barnadauði jókst um 30,1% árið 2016 og tilfellum þar sem mæður létust í barnsfæðingu fjölgaði um 65,8%.

                               ***

Bólívarska byltingin

Allt verður þetta rekið til sósíalískrar hagstjórnar bólívarísku byltingarstjórnar þeirra Hugo Chavez og Nicolas Maduro. Þegar olíuverð var sem hæst var ráðist í gríðarlega kostnaðarsaman útblástur á velferðarkerfinu. 

                               ***

Þúsundir heilsugæslustöðva voru byggðar og matar- og húsnæðisstyrkir voru greiddir út til valinna hópa. 

                               ***

Árið 2015 gaf venesúelska hugveitan CEDICE út skýrslu þar sem segir: „markmiðið með útgjöldunum og velferðarstefnunni var að búa til samfélag skjólstæðinga sem myndu kjósa með stjórnarflokknum og gera hann ósigrandi.“ 

                               ***

Þessi útgjöld fóru svo saman við verðlags- og gjaldeyrishöft sem áttu að halda aftur af verðbólgu, en gerðu það að sjálfsögðu ekki. Strangar verðlagsreglur á matvælum gerðu það að verkum að framboð á matvælum dróst saman. Chavez neyddi matvælaframleiðendur til að framleiða mat undir kostnaðarverði og þjóðnýtti fjölda bændabýla. „Land er ekki einkaeign. Það er eign ríkisins,“ sagði Chavez við það tilefni. Afleiðingin var sú að ræktarland, sem áður framleiddi mat fyrir venesúelsku þjóðina liggur nú í órækt undir óstjórn ríkisins. 

                               ***

Chavez hrifsaði einnig matvöruverslanir af eigendum þeirra og eru hillur þeirra nú að mestu tómar. 

                               ***

Glæpamenn við völd

Ef lesendur hugsa með sér við þennan lestur að lýsingin eigi betur við um glæpagengi en ríkisstjórn fullvalda ríkis þá er það alveg rétt. Varaforseti landsins, Tareck El Aissami, liggur undir grun um tengsl við eiturlyfjasmygl og sætir bandarísku viðskiptabanni. 

                               ***

Forsetinn sjálfur, Nicolas Maduro, var í október sakaður um að hafa persónulega tekið við 35 milljóna dala mútugreiðslu frá brasilísku verktakafyrirtæki, sem sóttist eftir því að fá stórt verkefni í Caracas. Samkvæmt framburði Euzenando Prazeres de Azevedo, sem stýrði rekstri brasilíska fyrirtækisins Odebrecht í Venesúela, var Maduro þó tilbúinn að semja um múturnar. „Hann bað um fimmtíu (milljónir dala) og ég samþykkti að greiða honum 35 milljónir,“ sagði Azevedo. 

                               ***

Í sumar handtók leyniþjónusta landsins tvo leiðtoga stjórnarandstöðunnar og flutti á einhvern leynilegan stað. Mennirnir voru fyrir í stofufangelsi og er því ekki eins og þeir hafi verið frjálsir ferða sinna fyrir handtökuna. 

                               ***

Maduro hefur sýnt það eins og forverinn að lýðræði og réttarríkið eru einskis virði í hans huga, nema að því leyti sem hægt er að skrumskæla það og misnota í eigin þágu. Þegar ljóst varð að löggjafarsamkoman var ekki tilbúin að samþykkja breytingar á stjórnarskrá landsins til að auka enn frekar völd forsetans kallaði hann til þjóðaratkvæðagreiðslu til að setja á stofn sérstakt stjórnlagaþing til að gera þær breytingar á stjórnarskránni sem honum voru þóknanlegar. 

                               ***

Klappstýrurnar þagna

Ekki er langt síðan Óðinn rifjaði upp ummæli Össurar Skarphéðinssonar frá árinu 2006 og Ögmundar Jónassonar frá árinu 2010, þar sem þeir hældu Chavez og ríkisstjórn hans. Össur sagði m.a: „Daníel Ortega vann um daginn sigur í forsetakosningunum í Níkaragva, byltingarhetjan og verkalýðsforinginn Lúla var nýlega endurkjörinn í Brasilíu, Evó Mórales vann í Bólivíu og strigakjafturinn með stálhnefana, Hugó Chavez, stýrir Venesúelu. Þarmeð má segja að við jafnaðarmenn séum búnir meira og minna að leggja undir okkur Suður-Ameríku.“ 

                               ***

Ögmundur lagði hins vegar meiri áherslu á tilburði Chavez í þjóðnýtingarátt. Hrósaði hann harðdrægni Chavez í garð „fjölþjóðaauðvaldsins sem fyrir stjórnartíð forsetans var að verða talsvert ágengt í að éta upp auðlindir landsmanna.“ 

                               ***

Þeir verða, eins og aðrar klappstýrur Chavez og Maduro glæpagengisins að horfast í augu við fyrri gjörðir og axla sinn hluta ábyrgðarinnar á því að svo er fyrir Venesúela komið og raun ber vitni. 

                               ***

Það segir sitt að svissneski bankinn Credit Suisse hefur gengið lengra en hinir velmeinandi vinstrimenn í að axla ábyrgð í málinu, að því marki sem það er hægt. Í ágúst setti bankinn bann við því að starfsmenn hans ættu í viðskiptum með tvo stóra skuldabréfaflokka venesúelska ríkisins sem og öllum skuldabréfum gefnum út af venesúelskum stofnunum eftir 1. júní. Í yfirlýsingu sagði að bankinn „vildi ekki eiga hlut í viðskiptum, eða aðgerðum, sem hægt væri að túlka sem stuðning við áframhaldandi mannréttindabrot núverandi ríkisstjórnar Venesúela gagnvart venesúelsku þjóðinni.“ 

                               ***

Höfum séð þetta áður

Það sem er að gerast í Venesúela núna og hefur verið að gerast alla 21. öldina er bein afleiðing sósíalismans. Það virðist engu skipta hversu oft sósíalismi er prófaður – alltaf er niðurstaðan sú sama. Aukin fátækt og samfélagsleg þjáning. Eins og Óðinn sagði fyrr á þessu ári þá eigum við eflaust eftir að heyra það frá vinstrimönnum að ekki sé hægt að klína Chavez og Maduro á sósíalismann – þetta hafi ekki verið alvöru jafnaðarmennska, heldur eitthvað annað og verra. Það er rangt. 

                               ***

Það má vel vera að Chavez og Maduro hafi beitt fyrir sig sósíalismanum í eigingjörnum tilgangi, en það breytir ekki þeirri staðreynd að stefna ríkisstjórna þeirra er hreinn sósíalismi. Þjóðnýtingin, verðstýringin og taumlaus útgjöld til velferðarmála eru beint upp úr reglubók jafnaðarstefnunnar. 

                               ***

Venesúela er nýjasta dæmið um skelfilegar afleiðingar sósíalískra tilrauna. Óðinn óttast að dæmin verði fleiri.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.