Ein vitlausasta framkvæmd Íslandssögunnar er án efa Vaðlaheiðargöng. Þegar lög um ríkisábyrgð á lánum til gangagerðarinnar voru samþykkt áttu göngin að kosta 8,7 milljarða króna. Framkvæmdakostnaðurinn reyndist vera 17,7 milljarðar króna. Að auki hefur félagið um reksturinn tapað 2 milljörðum króna og eigið fé þess er neikvætt um 800 milljónir króna í árslok 2020.

Gjaldþrotið

Félagið skuldaði þá 18,6 milljarða en ætla má að skuldir félagsins séu á bilinu 19-20 milljarðar í dag. Í raun er félagið gjaldþrota en ríkið hefur ekki gengið að félaginu í tvö ár þrátt fyrir að skuldir þess séu gjaldfallnar. Sú linkind sést ekki í öðrum innheimtumálum ríkisins, til dæmis þegar skattskuldir eiga í hlut.

***

Fréttir voru fluttar af því í haust að verið væri að reyna að semja um skuldina með því að breyta kröfu ríkisins í hlutafé. Ef það verður gert þá er loks verið að viðurkenna að þessi leið sem farin var við framkvæmdina var frá fyrsta degi sýndarmennska. Hún var aðeins farin til að flýta framkvæmdinni, framhjá samgönguáætlun og auðvitað aðeins til atkvæðaveiða fyrir Steingrím J. Sigfússon, þingmann Norðausturkjördæmis, og félaga hans í Vinstri grænum.

Þjóðhagslegt tap

Árið 2012 gerði Vilhjálmur Hilmarsson hagfræðingur lokaverkefni sitt í hagfræðideild um þjóðhagslega arðsemi Vaðlaheiðarganga. Hann mat þjóðhagslegt tap af göngunum 4,3 milljarða króna. Þá var framkvæmdakostnaðurinn metinn um 10 milljarðar króna. Þjóðhagslegt tap var því miklu mun hærra. Að mati Óðins væri rétt að reikna út þjóðhagslega arðsemi að loknum stórframkvæmdum á ábyrgð ríkisins þegar raunkostnaður liggur fyrir og aftur nokkrum árum eftir að mannvirki hefur verið tekið í gagnið. Þá þurfa stjórnmálamenn, og aðrir sem ábyrgð bera, að standa reikniskil ákvarðana sinna.

Forgangsröðun

Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi innviðaráðherra, lagði fram fyrirspurn á Alþingi árið 2012 um lokanir vega á hringveginum.

Í svari þáverandi samgönguráðherra kom fram að á tímabilinu nóvember 2011 til febrúar 2012 var Víkurskarði lokað 7 daga og Hellisheiðinni lokað 6 daga, í stuttan eða langan tíma í senn.

Ein helstu rökin fyrir byggingu Vaðlaheiðarganga voru tíðar lokanir á Víkurskarði vegna ófærðar. Síðasta mánuðinn hefur Hellisheiði ítrekað verið lokað vegna ófærðar. Óðni sýnist þetta hafa verið fimm dagar frá áramótum. Það er merkilegt hvað þessi vegkafli hefur fengið litla athygli með tilliti til ófærðar. Árið 2019 var meðalumferð um Hellisheiði 9.390 bílar á dag. Til samanburðar var umferðin í Vaðlaheiðargöngum það ár 1.924 bílar en síðan þá hefur umferðin minnkað í göngunum.

Í jarðgangaáætlun frá janúar 2000 er lítillega minnst á hugsanleg jarðgöng undir Hellisheiði. Þar segir:

Jarðgöng undir Hellisheiði hafa verið lauslega skoðuð á korti, vegna umræðna sem urðu um málið fyrir fáum árum. Engar athuganir hafa verið gerðar, en ljóst er að jarðfræðilegar aðstæður eru ekki hagstæðar. Svæðið er hluti af Hengilssvæðinu sem er mjög virkt, bæði hvað varðar jarðskjálfta og jarðhita. Líkur eru á að göngin yrðu að fara gegnum háhitasvæði, sem sjá má hluta af við Hveradali. Eðlilegast virðist að hafa munna í u.þ.b. 280 m y.s. við Kolviðarhól og um 80 m y.s. undir Kömbum á móts við neðstu beygju á núverandi vegi. Göngin yrðu um 8,4 km á lengd.

Nú er Óðinn ekki að leggja til að boruð séu göng undir Hellisheiði en það hlýtur að vekja nokkra undrun að þessi leið hafi ekki verið könnuð meira í ljósi þess hve mikil umferð er um þennan vegarkafla.

Það styður mjög við þær kenningar að vegabætur á Íslandi byggist ekki á þjóðhagslegri hagkvæmni heldur miklu frekar á kjördæmapoti.

***

Að aftengja raunveruleikann

Sigurður Ingi var með aðra fyrirspurn og hana gerði hann nú í vikunni. Hann spurði hvers vegna Hagstofan hætti ekki að mæla fasteignahækkun inn í vísitölu neysluverðs. Reyndar var þetta frekar í formi tilmæla, eða áskorunar, frekar en fyrirspurnar.

Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri brást við og benti ráðherranum á að það væri ákveðið í lögum og stofnunin réði engu þar um. Hann sagði að auki að aðferðafræðin væri góð. Í yfirlýsingu frá Hagstofunni segir að í tengslum við gerð kjarasamninga árið 2019 lofaði ríkisstjórnin að gerð skyldi athugun á þeirri aðferðafræði sem Hagstofa Íslands notar við útreikning vísitölu neysluverðs. Síðan sagði:

Skipaður var starfshópur um þá athugun og fenginn einn færasti sérfræðingur á þessu sviði til þess að vinna greininguna. Samkvæmt niðurstöðu hennar, sem birt var 19. júní 2020, er aðferð Hagstofunnar í fullu samræmi við alþjóðlegar aðferðafræðilýsingar.

Úr smiðju Sovétmanna

Þessi hugmynd Sigurðar Inga minnir nokkuð á aðferðafræðina frá Sovétríkjunum sálugu þar sem öllum vandamálum var sópað undir teppi með því að mæla þau ekki.

Í bók sinni, Soviet Studies , eftir David H. Howard var bent á að verðbólga var mjög vanmetin í Sovétríkjunum með því að byggja aðeins á opinberu verði vara við mælingar. En framleiðendur fóru framhjá þessum verðum með hugmyndaríkum aðferðum. Til dæmis með því að breyta þeim lítillega svo þeir gátu hækkað verðið verulega en mælingar náðu ekki til nýrra vara.

***

Þetta er reyndar þekkt í verðbólgufræðunum að fikta við vöruna þó að verðið haldist eins. Súkkulaðistykkið er minnkað eða bjórmagnið minnkað þó að verðið haldist óbreytt.

Þetta er dálítið vandræðalegt mál fyrir innviðaráðherrann. Þegar ekki er nægt framboð á húsnæði, vegna lóðaskorts, þá vill ráðherrann taka raunveruleikann úr sambandi.

Rót verðbólgu á Íslandi í janúar má að helmingi rekja til hækkunar á húsnæðisliðnum. Þessi stórkostlegu vandræði valda nær öllum erfiðleikum, bæði þeim sem nú reyna að komast inn á húsnæðismarkaðinn og þeim sem eru þar fyrir og hafa tekið lán vegna kaupanna.

En ráðamennirnir eru sofandi. Ekki bara þeir sem stýra skipulagsmálunum í Reykjavík þar sem skipulagsmálin eru í algjörum ólestri og lóðaskorturinn í algleymingi. Ekki síður 46 starfsmenn innviðaráðuneytisins. Eða hvaða innviðir ætli séu mikilvægari en einmitt þak yfir höfuð venjulegs fólks?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .