Óðinn fjallaði í Viðskiptablaði gærdagsins um fjármál Reykjavíkurborgar og 15 milljarða hallarekstur í ár, samkvæmt endurskoðaðri áætlun.

Óðinn fer yfir tekjur borgarinnar, rekstrarkostnaðinn og matsbreytingar Félagsbústaða hf. Þær virðst vera bæði byggðar röngum forsendum auk þess verðmætaaukningin muni ekki koma í kassann þar sem ekki stendur til að selja eignirnar.

Hér er brot úr pistlinum en áskrifendur geta lesið hann í heild hér.

Hlægilegar tillögur

Skýrsla fjármálasviðs Borgarinnar segir mestan hluta sögunnar. Þar starfar fólk sem gætir að faglegu starfi sínu en lætur ekki pólitískan moðreyk trufla sig.

Þar er fjallað um fjárhagsáætlun og rauntölur. Þar er bent á að laun og tengd gjöld voru 1 milljarði króna yfir fjárheimildum á fyrstu níu mánuðum 2022 og annar rekstrarkostnaður var 1,5 milljörðum yfir heimildum. Hallinn í ár er áætlaður 15 milljarðar króna. Kostnaður umfram fjárheimildir verður ekki undir 3 milljörðum króna. Þá kemur meirihlutinn í borginni og leggur til 92 niðurskurðartillögur sem þýða um milljarð í sparnað.

Hvar annars staðar en á Ríkisútvarpinu

Einar mætti til Boga Ágústssonar í beina útsendingu í fréttatíma Ríkisútvarpsins á fimmtudagskvöld. Þangað sem Einar mun snúa til starfa fyrr en seinna.

Það er ekki laust við að Óðinn hafi vorkennt Einari, en það virðist loks vera að renna upp fyrir honum hversu mikil mistök það voru að gerast varadekkið undir meirihluta Samfylkingarinnar.

Það er ekki gaman að vera nýkjörinn fulltrúi og þetta sé fyrsta verkefnið, að ráðast í svona mikla hagræðingu.

Síðan sagði hann:

Við erum að leita innávið í verkefnabundna hagræðingu ofan á hagræðingu á laun, því hlutfall launa af tekjum er orðið allt of hátt. Þannig að við erum að fara í mjög tímabæra tiltekt. Við höfum velt við hverjum einasta steini. Þetta eru hátt í hundrað tillögur.

***

Pólitísk froða

Einar Þorsteinsson, verðandi fyrrverandi borgarfulltrúi frá og með næstu kosningum, viðurkennir hvar vandinn liggur.

Hann liggur í launakostnaði borgarinnar. Því hlýtur Einar að samþykkja tillögur Sjálfstæðismanna í borgarstjórn um 5% lækkun launakostnaðar sem þeir meta á 7 milljarða króna. Þar er of skammt gengið en þó ákveðið skref í rétt átt.

Hins vegar er annað sem Einar segir þarna innihaldslaus froða í anda Dags B. Eggertssonar. Tiltektin er tímabær en hún er aðeins á yfirborðinu. Þeir félagar Dagur og Einar eru jú einmitt menn yfirborðsins en ekki inntaksins.

Einar og Dagur eru ekki einu sinni að „hagræða“ sem nemur eyðslunni sem ekki var heimild fyrir á þessu ári. Líklega aðeins um þriðjungi hennar. Það er ekki verið að velta við hverjum steini því þá væri sparnaðurinn nær 15-20 milljörðum, þegar horft er til útgjaldaaukningar síðustu ára.