*

laugardagur, 29. janúar 2022
Leiðari
9. janúar 2022 15:04

Gjörbreyttur markaður

Skilvirkur og sterkur hlutabréfamarkaður er mikilvægur hlekkur í efnahagskerfinu.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, þegar bankinn var skráður á markað í lok júní í fyrra.
Eyþór Árnason

Íslenskur hlutabréfamarkaður nýtur meðbyrs um þessar mundir. Hann er ekki síst til kominn vegna vaxandi þátttöku almennings á markaðnum með skráð hlutabréf. Nú í ársbyrjun hafa ríflega 30 þúsund einstaklingar varið hluta af sparnaði sínum í kaup á bréfum fyrirtækjum, sem eru skráð i Kauphöllinni. Það eru fjórfalt fleiri einstaklingar en áttu hlutabréf við árslok 2019. Með öðrum orðum þá hefur algjör umbylting orðið á íslenska hlutabréfamarkaðnum á síðustu tveimur árum.

Þrír þættir skýra þessa þróun. Í fyrsta lagi hefur lækkandi vaxtastig leitt til þess að þeir sem eiga sparnað hafa farið með fé sitt úr innstæðum yfir í aðrar eignir á borð við hlutabréf sem bera hærri ávöxtun. Ber því þessi þróun vitni um ágæta stöðu flestra heimila.

Traust er önnur forsenda fyrir almennri þátttöku á hlutabréfamarkaðnum. Þróunin undanfarin ár ber þess glögglega merki að traust almennings hefur farið vaxandi og það hefur rutt leið fyrir þriðja þættinum í þessu samhengi: Að fleiri fyrirtæki kjósa að nýta sér þau tækifæri sem felast í skráningu á markað og gangast að sama skapi undir þær skyldur sem á skráðum félögum hvíla. Allt þetta stuðlar að eflingu markaðarins og eykur virkni hans og skýtur styrkum stoðum undir gegnsæi í efnahagslífinu. Skráningarferlið er mikil naflaskoðun á rekstri þeirra fyrirtækja sem ákveða að fara þá leið. Öllum steinum er velt við.

Það sem er sérstaklega áhugavert við vaxandi þátttöku almennings á hlutabréfamarkaðnum í fyrra er að hún átti sér stað þrátt fyrir andstöðu verkalýðshreyfingarinnar og fylgihnatta hennar í umræðunni. Varla hefur farið fram hlutafjárútboð hér á landi á undanförnum árum án þess að helstu leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafi reynt að bregða fyrir því fæti. Þrátt fyrir þær úrtöluraddir tók almenningur þátt í hlutabréfaútboðum Íslandsbanka, Síldarvinnslunnar og flugfélagsins Play á liðnu ári. Ber það fjármælalæsi almennings fagurt vitni og varpar um leið ljósi á fornaldarlegar skoðanir þeirra sem telja að einungis auðvaldið hagnist á hlutafjárútboðum og að arðgreiðslur til hluthafa séu á einhvern hátt annarlegar.

Fastlega má búast við því að þátttaka almennings á hlutabréfamarkaðnum muni vaxa enn frekar á næstu árum. Eins og fram kemur í viðtali við Magnús Harðarson, framkvæmdastjóra Kauphallarinnar, í blaði dagsins þá eru væntingar um að nýskráningum muni fjölga enn frekar á næstu árum. Þrátt fyrir bakslög á borð við heimsfaraldur og önnur leiðindi er slagkraftur hagkerfisins mikill og mikil gerjun einkennir nýsköpun í efnahagskerfinu. Þátttaka og traust almennings á hlutabréfamarkaðnum er frjór farvegur fyrir fyrirtæki í slíku árferði og ætti að stuðla að enn frekari fjölgun fyrirtækja á hlutabréfamarkaðnum. Að sama skapi er fátt sem bendir til þess að grundvallarbreytingar verði á þróun vaxtastigsins í fyrirsjáanlegri framtíð. Þrátt fyrir að stýrivextir kunni að hækka til að spyrna við verðbólgu er fátt sem bendir til þess að íslenska hagkerfið sé í þann mund að sigla úr því lágvaxtaumhverfi sem það hefur verið í.

Við þetta bætist að íslenski hlutabréfamarkaðurinn er orðinn sýnilegur á ratsjá alþjóðlegra fjármálamarkaða. Eins og Magnús bendir á i viðtalinu þá er útlit fyrir að íslenski markaðurinn verði hækkaður enn frekar um flokka hjá erlendum vísitölufyrirtækjum. Slíkt ætti að auka innflæði á markaðinn og styrkja verðmyndun hans til muna. Á undanförnum vikum höfum við séð að erlendir fjárfestar hafa nú þegar brugðist við slíkum væntingum.

Skilvirkur og sterkur hlutabréfamarkaður er mikilvægur hlekkur í efnahagskerfinu. Hann umbreytir sparnaði í fjárfestingu og skiptir sköpum þegar kemur að því að efla nýsköpun og framþróun efnahagslífsins. Það er mikilvægt að þeir sem koma að stjórn landsins hafi þetta í huga við löggjöf og stefnumótun. Stjórnvöld hafa viðrað hugmyndir um að auka frelsi fólks til að ráðstafa þeim hluta afraksturs vinnu sinnar sem nú rennur í séreignarsparnað til hlutabréfakaupa. Full ástæða er til þess að styðja við slíkar hugmyndir og aðrar þær sem efla virkni þátttöku almennings á verðbréfamarkaði enda þjónar það hagsmunum allra. Þátttaka almennings á verðbréfamarkaði eflir ekki einungis atvinnulífið heldur veitir fólki innsýn í efnahagsmálin. Þeir sem eiga hlutabréf skynja betur þegar eitthvað bjátar á og skilja um leið nauðsyn þess að grípa þurfi til aðgerða ef svo ber undir. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.