*

sunnudagur, 5. desember 2021
Björg A. Kristinsdóttir
30. maí 2020 13:43

Glæpsamleg áhrif samfélagslegar fjarlægðar

„Á sama tíma og aðstæður í umhverfi okkar gera kröfu um aukinn náungakærleik, heiðarleika og samviskusemi, þá er ljóst að ekki telja allir sig falla undir slíkar samfélagslegar kröfur.“

Fæst okkar hefði órað fyrir þeirri stöðu sem komin er upp á heimsvísu. Að vormánuðirnir yrðu litaðir af miklum takmörkunum á samkomum fólks, virða bæri fjarlægðatakmörk og milljónir manna væru fastir heima. Þetta er hins vegar staðreyndin og mjög ólíkur veruleiki sem blasir nú við samanborið við síðastliðið haust og upphaf yfirstandandi árs.

Hjá Íslendingum litaðist árið 2019 og upphaf árs 2020 af þeirri staðreynd að landið lenti á gráum lista hjá FATF, alþjóðlegum starfshópi um aðgerðir gegn peningaþvætti, og aðgerðir eftirlitsaðila voru hertar til muna. Í dag virðast slíkar aðgerðir fjarlægar og ekki ofarlega í hugum margra. FATF varð orð sem var mikið notað og það sem áður hafði verið að miklu leyti óþekkt stofnun fyrir flesta Íslendinga, varð nánast á einni nóttu vel þekkt í kjölfar þess að Ísland lenti á framangreindum lista.

FATF hefur á liðnum mánuðum fylgst vel með þróun mála í Covid ástandi og í byrjun þessa mánaðar birti stofnunin skýrslu þar sem sérstaklega er fjallað um stöðu mála og áhrif aðstæðna í ljósi peningaþvættis.

Samandregið er það mat stofnunarinnar að glæpir sem tengjast Covid-19 eru m.a. að skapa ný tækifæri fyrir skipulagða glæpahópa og aðra sem sjá hag sinn í ávinningi af ástandinu. Þannig hefur svikamálum, netglæpum, rangfærslum og misnotkun á fjármunum hins opinbera, fjölgað. Aðgerðir sem ætlaðar eru til að halda veirunni í skefjum hafa í einhverjum tilvikum leitt til þess að hagkerfi ólögmæts ávinnings hefur náð nýrri fótfestu.

Þegar horft er til umfangsmikilla svikamála sem hafa komið upp á síðustu mánuðum snúa þau að svikum á lækningavörum, þar sem m.a. er reynt að svindla út hluti sem hafa verið nauðsynlegir eins og andlitsgrímur. Fjáröflunum til styrktar málefni eða samtökum, sem ekki eru til, hefur fjölgað og þannig meiri neyð ákveðinna hópa misnotuð.

Ófáar fréttir hafa borist af mótefnum og leiðum til lækninga vegna Covid-19. Fjölmargt í boði s.s. handsápa, tannþráður, olíur af ýmsu tagi o.s.frv. Allt sett fram í því augnamiði að hafa peninga af fólki. Sem dæmi um magnið, þá hreinsaði Amazon út í kringum 1 milljón vara úr sínu vöruborði þar sem talið var að um sviksamlegar vörur væri að ræða.

Í Bandaríkjunum hafa stjórnvöld m.a. létt verulega á þvingunaraðgerðum (e. OFAC sanctions) sínum gagnvart löndum eins og Íran, Venesúela, Norður-Kóreu, Sýrlandi, Kúbu og Úkraínu/Rússlandi. Tilslakanirnar snúa að því að hindra ekki flæði hjálpargagna til umræddra landa á neyðartímum.

Fyrir sérfræðinga á sviði peningaþvættis er því í nægu að snúast og mikilvægt að starfsmenn fyrirtækja og einstaklingar sýni árvekni. Peningaþvætti er atvinnugrein sem liggur ekki í dvala í þessu ástandi.

Eftirliti og hlítni við lög, m.a. um aðgerðir gegn peningaþvætti, hefur einnig verið erfiðara að fylgja eftir, bæði fyrir stjórnvöld sem og tilkynningarskylda aðila. Fyrirtæki hafa ekki verið í þeirri aðstöðu að geta að öllu leyti fylgt eftir kröfum laga, m.a. um framkvæmd áreiðanleikakönnunar og þannig hafa skapast tækifæri fyrir ólögmæta starfsemi.

Á sama tíma og aðstæður í umhverfi okkar gera kröfu um aukinn náungakærleik, heiðarleika og samviskusemi, þá er ljóst að ekki telja allir sig falla undir slíkar samfélagslegar kröfur. Þetta þyngir óneitanlega róðurinn fyrir fyrirtæki þegar kemur m.a. að hlítni við lög og reglugerðir. Eitt er ljóst að stjórnvöld, bæði hérlendis sem erlendis, hafa ekki í neinum tilvikum gefið út eða gefið til kynna að tilslökunum verði á nokkurn hátt beitt.

Á sama tíma og mörg félög róa sinn lífróður, þá er m.a. krafa laga nr. 140/2018 gagnvart tilkynningarskyldum aðilum, skýr. Það er því mikilvægt að þessir aðilar, sem m.a. eru fjármálafyrirtæki, endurskoðendur, lögmenn, bókarar, leigumiðlarar, fyrirtækjaráðgjafar, fasteignasalar, listmunasalar o.fl. gefi ekki slaka gagnvart viðskiptavinum sínum þrátt fyrir stöðu mála.

Ísland er enn á gráum lista FATF og í júní nk. mun úttekt stofnunarinnar fara fram en íslensk stjórnvöld óskuðu sérstaklega eftir að úttekt yrði ekki frestað þrátt fyrir Covid-19. Ætli landið að komast af listanum fyrir árslok er því ljóst að eftirlitsaðilar munu þurfa að skila þeim niðurstöðum um innleiðingu, eftirfylgni og árangur sem gerð hefur verið krafa um. Þær kröfur munu ekki fela í sér tilslakanir þrátt fyrir efnahagslegar- og samfélagslegar aðstæður sem eiga sér ekkert fordæmi.

Höfundur er lögfræðingur hjá KPMG og sérfræðingur í aðgerðum gegn peningaþvætti.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.